Við erum með ykkur – og í nágrenni ykkar: Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 28. maí 2025
Á sjómannadaginn beinum við sjónum okkar að fólkinu sem vinnur í sjávarútvegi – við veiðar, vinnslu, fiskeldi og í öllum þeim störfum sem tengjast einni öflugustu atvinnugrein þjóðarinnar. Við hjá Símennt viljum nota þetta tækifæri til vekja athygli á því hvernig við getum stutt við íslenskan sjávarútveg og ykkur sem komið að þessum mikilvæga hluta samfélagsins með þekkingu, hæfni og seiglu.
Símennt er samstarfsvettvangur 11 fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem starfa um allt land – í hverjum landsfjórðungi og á höfuðborgarsvæðinu. Við störfum í nærumhverfi fólks og fyrirtækja með það að markmiði að styðja við símenntun, starfsþróun og hæfniuppbyggingu alls fullorðins fólks óháð bakgrunni, aldri eða fyrri skólagöngu.
Margar miðstöðvar okkar bjóða fyrirtækjum í sjávarútvegi og tengdum greinum upp á markvissa greiningu á fræðsluþörf starfsfólks, sem og aðstoð við að móta og fylgja eftir fræðsluáætlunum. Þetta samstarf getur skipt sköpum fyrir faglegan vöxt starfsfólks og rekstur fyrirtækja sem vilja horfa til framtíðar með öflugri hæfni innanborðs.
Við bjóðum einnig upp á nám og starfsráðgjöf fyrir einstaklinga sem vilja efla sig, endurmeta stöðu sína eða leita nýrra leiða. Þessi ráðgjöf snýst um að styðja fólk í að taka næsta skref sama hvort það er stutt námskeið, raunfærnimat eða formleg menntun.
Við viljum sérstaklega vekja athygli á þeim fjölmörgu verkefnum sem fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar hafa unnið fyrir og með starfsfólki í sjávarútvegi og fiskeldi. Með námskeiðum, raunfærnimati og ráðgjöf höfum við hjálpað fólki að öðlast staðfestingu á þeirri reynslu sem það býr yfir, byggja ofan á hana og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
Á þessum hátíðisdegi viljum við senda sjómönnum, fiskvinnslufólki, starfsfólki í fiskeldi og öllum sem tengjast sjávarútvegi okkar bestu kveðjur. Þið standið vaktina fyrir land og þjóð og við hjá Símennt erum stolt af því að fá að taka þátt í þeirri vegferð með ykkur.
Við þökkum ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina og hlökkum til áframhaldandi samvinnu um að efla hæfni, fagmennsku og framtíðartækifæri alls þess öfluga fólks sem vinnur við íslenskan sjávarútveg.
Við erum til staðar fyrir ykkur – til hamingju með daginn.
Höfundur er formaður Símenntar – fræðslu- og símenntunarmiðstöðva
Aðilar að Símennt eru:
Austurbrú www.austurbru.is
Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra www.farskolinn.is
Framvegis – miðstöð símenntunar www.framvegis.is
Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is
Fræðslunetið www.fraedslunet.is
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum www.mss.is
Mímir – símenntun www.mimir.is
Símenntun Vesturlands www.simenntun.is
SÍMEY www.simey.is
VISKA www.viskave.is
Þekkingarnet Þingeyinga www.hac.is