34 Veggöng á Austurlandi til eflingar byggðar.

Stóri nafarinn er kominn.

Morgunblaðið birti 14. maí 1985 grein þar sem Sigurður Gunnarsson, þá sveitarstjóri á Fáskrúðsfirði, fjallaði um veggöng milli Fáskrúðfjarðar og Reyðarfjarðar undir yfirskriftinni “Hlauptu heim og sæktu stóra nafar föður þíns”.  Nú 18 árum síðar hefur Sigurði og öðrum austfirðingum orðið að ósk sinni, verið er að gera veggöng milli fjarðanna með hinum hefðbundna “stóra nafar” þ.e. borun og sprengingum.   En nú er fyrst hinn eiginlegi “stóri nafar” kominn, jarðgangabor Impregilo, einn af þremur til að bora aðkomu- og aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar.

Göng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eru 5,9 km og kosta alls um 3.2 milljarða króna en verkið í heild alls með nýjum tengivegum 14,4 km samanlagt áætlaða 3.8 milljarða króna allt með vsk.  Meðalverð í þessum göngum er um 560 milljónir króna/km, gangamunnar eru þar til viðbótar um og yfir 120 milljónir stykkið en fullbúnir vegir að meðaltali um 40 milljónir króna/km, sem vegur lítið í heildina tekið.


Í þessu samhengi er rétt að hafa til samanburðar samning Impregilo og Landsvirkjunar um gerð jarðganga, sem í heild eru um 56 km að meðtöldum aðkomugögnum fyrir samtals 22,7 milljarða króna án vsk eða að meðaltali rúmar 400 milljónir króna/km.  Er þá aðeins verktakakostnaður reiknaður en ekki umsjón og fjármagnskostnaður verkkaupans o.fl., sem ætla verður að sé allt að um 25%.  Meðalverð í göngum þessum er ekki samanburðarhæft út frá þessum forsendum enda margvíslegir þættir aðrir, sem hafa áhrif á kostnað.  Þversnið þeirra er þó ekki ósvipað.  Þversnið í veggöngunum er um 53 m2, hæð fyrir miðju er 6,3 m og breidd í gólfhæð er um 7,6 m. 

Í Fáskrúðsfjarðargöngunum verður lagður vegur með 6.3 m breiðu og 12 sm þykku malbiki.  Þversnið aðrennslisganganna verður hringlaga eftir stóra borinn eða um 7,6 m í þvermál og þversnið því um 45m2.  Neðri hluta þannig boraðra ganga yrði að forma með fleygun, ef þau ættu að geta orðið að veggögnum og vegarlagningu þarf til.  En er ekki full þörf á að skoða þetta frekar?


Það hafa vaknað spurningar um hvort “stóri nafarinn” sé ekki rétta verkfærið til að hrinda í framkvæmd því sem eftir er við gerð vegganga til tengingar annarra byggðarlaga miðsvæðis á Austurlandi.  Áform hafa lengi verið um gerð ganga milli Eskifjarðar og Fannardals í Norðfirði og þaðan áfram til Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar með gangatengingu úr Mjóafirði til  Héraðs í Eyvindarárdal.  Alls er áætlað að þessi göng verði um 24 - 26 km og kynnu að kosta um 14 – 16 milljarða króna á verðlagi Fáskrúðsfjarðaganga.    Miðað við framangreint áætlað verð aðrennslisganga verður hér ekki gerð tilraun til nálgunar um hvað verkið myndi kosta ef framkvæmt með heilborun.  Það er þó afar forvitnileg spurning hvað þannig myndi kosta að klára verkið.  


Hálfnað er verk þá hafið er - segir máltækið en með þessu kynni enn einn sigurinn að verða unninn.  Þessa hlið mála þarf því að skoða betur nú þegar “stóru nafrarnir” eru komnir og óskandi er að minnst einn þeirra sé kominn til að vera hérlendis í verkum sem þessum um nána framtíð.


En hvers vegna veggöng milli staðanna.  Austfirðskt samfélag hefur af sumum um margt þótt fábrotið þó við vitum betur, sem hér höfum alist upp og búið auk þeirra mörgu, sem til okkar hafa fluttst á umliðnum árum.  Margir hafa þó kosið að flytja brott um lengri eða skemmri tíma af ýmsum ástæðum, m.a. til að afla sér menntunar og starfsreynslu.  Flestir kjósa þó og eru reiðubúnir til að flytja á ný heim aftur þegar aðstæður skapast.  Austfirskt samfélag og atvinnulíf er og hefur verið sterkt og hér hefur átt sér stað margvísleg nýsköpun, sem byggir á kostum lands og sjávar og hugviti íbúanna.  Menntun eflist og til hefur komið svo dæmi séu tekin skógrækt og fiskeldi, sem verða kann stóriðja áður en varir.  Langþráðir draumar eru einnig að rætast með virkjun fallvatna og nýtingu orkunnar á heimaslóðum.  


Þéttbýliskjarnar Austurlands eru um margt ólíkir og hver með sína sérstöðu.  Þeir geta enn vaxið, eflst og þróast.  Enginn einn staður hefur haft yfirburði yfir annan en það kann að vera að breytast.  Kröfur sveitarstjórnarmanna hafa á liðnum árum verið hvað háværastar um bættar samgöngur og öllum er ljóst hvern þátt það hefur haft til eflingar byggðar.  Það er nauðsynlegt að tengja enn betur saman þéttbýlisstaðina á mið-Austurlandi þannig að þeir virki betur sem ein heild.  Með tilkomu Austurlandsganga yrðu ekki nema um 40 km milli Neskaupstaðar og Egilsstaða og 24 km milli Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar og ekki yfir neina fjallvegi að fara.


Austurlandsgöng yrðu ekki dýr í samanburði við þá rúmlega 200 milljarða fjárfestingu, sem nú er unnið að í tengslum við virkjun fallvatna Austurlands og aðra tengda uppbyggingu.  Austurlandsgöng eru aðeins til að klára það sem hafið er.  Í raun hefðu gögnin átt að vera komin hér áður en hafist yrði handa um álvers framkvæmdir en ekki er um það að fást.  Þegar gögnin koma verða forsendur fyrir enn frekara samstarfi og sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi en þegar er orðið.  Þrátt fyrir þá sigra sem unnist hafa þarf að fylgja þeim eftir og vinna nýja.
Fyrirmyndina getum við m.a. sótt til frænda okkar í Noregi þar sem fyrir um fjörutíu árum var ráðist í að sameina 7 sveitarfélög á Karmöy, áður en ákveðið var að byggja það álver, sem í dag er þar stærst álvera.  Við sameiningu voru í þeim sveitarfélögunum 23 þúsund íbúar en eru í dag um 36 þúsund.  Í nágrenni annars og eldra álvers er nýlega lokið við gerð um 22 km langra vegganga auk fjölda annarra styttri ganga á sömu leið.  Má af því nokkurn lærdóm draga!
Með nýárskveðju
Sveinn Jónsson, verkfræðingur  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar