Vatnajökulsráðstefnan gagnrýnd

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur skrifar: 

Þann 23. janúar 2009 var á Egilsstöðum haldin „Ráðstefna um Vatnajökulsþjóðgarð - Kynning á þjóðgarðinum og tækifærum í ferðaþjónustu.“  Þetta var í raun engin ráðstefna, því að menn réðu þar ekki ráðum sínum, heldur var stillt upp fjölda fyrirlesara með tilheyrandi letursýningum á tjaldi, sem þeir lásu svo upp eða skýrðu, eins og nú er farið að tíðkast, og gerir mönnum torvelt að fylgjast með, þar sem þeir þurfa samtímis að hlusta og horfa. Fyrirspurnir voru að vísu leyfðar og undir lokin var almennum fundargestum gefinn kostur á tjá sig í hálftíma eða svo.

Ekki var heldur um að ræða neina teljandi kynningu á þjóðgarðinum, nema Skarphéðinn Þórisson sýndi myndir af ‚Austursvæði‘ í hálftíma og talaði mest um hreindýr. Athygli vakti að ekki var gert ráð fyrir þjóðgarðsverði Austursvæðis, Agnesi Brá Birgisdóttur, sem framsögumanni á ráðstefnunni. Segja má að Ásta Þorleifsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands, hafi með skemmtilegri og sköruglegri ræðu bjargað ráðstefnunni.

 Í raun snerist ‚ráðstefnan‘ því nær eingöngu um „tækifæri í ferðaþjónustu“, og hvernig nýta mætti þjóðgarðinn til að auka hana sem atvinnugrein, hafa af henni auknar tekjur, og efla byggð á jaðarsvæðum. Inn í þetta var skotið erindum um ferðaþjónustu í Möðrudal og um Skálanessetur í Seyðisfirði, sem virtist nokkuð langsótt, þó það sé allrar athygli vert.

Naumast var minnst á náttúruvernd í þjóðgarðinum á þessum fundi, en litlum bæklingi var dreift, sem er stórum ábótavant, einkum hvað varðar Austursvæðið. Þar var enginn fyrirlesari frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands, sem þó eiga að heita starfandi. Meginmarkmið þjóðgarða (national parks) hefur þó ætíð verið að vernda náttúru viðkomandi svæða fyrir breytingum eða skemmdum af manna völdum og varðveita handa óbornum kynslóðum til að skoða og njóta, og þó ekki síður vegna náttúrunnar sjálfrar. Önnur helstu markmið þjóðgarða eru að gefa fræðimönnum kost á að rannsaka óspillt náttúrufar, að kynna það fyrir almenningi og veita honum aðgang að því með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru til að forðast skemmdir eða örtröð. Eftir þessum markmiðum hefur, hvað ég best veit, verið starfað í þeim tveimur þjóðgörðum sem hafa nú verið innlimaðir í Vatnajökulsþjóðgarð, þ.e. í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum, og sömuleiðis í friðlöndum sem honum tengjast, s.s. Dyngjufjöllum og Herðubreiðarlindum. Í Skaftafelli og Gljúfrum hafa risið upp fræðslustofur, og sl. sumar kom út prýðilegt kynningarrrit um Þjóðgarðinn í Gljúfrum, eftir Sigrúnu Helgadóttur, eina þjóðgarðafræðing á Íslandi, sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur enn ekki leitað til.

Með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs virðast áherslur hafa breyst. Sjálfan jökulinn þarf að sjálfsögðu ekki að vernda; honum eru engar hættur búnar af manna völdum. Sama gildir um fjalllendi á jöðrum hans, með fáeinum undantekningum. Þeirra á meðal eru Snæfellsöræfi, sem raunar er búið að gerbreyta með framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar, og orkar tvímælis hvort rétt er að innlima í þjóðgarðinn. Óhjákvæmilegt er að það rýri gildi hans í margra augum og á alþjóðavettvangi. Þó er alkunnugt að ákvörðun stjórnvalda um stofnun þjóðgarðsins var nátengd þessari umdeildustu virkjun á Íslandi; tilraun að bæta þann skaða er þar var unninn á náttúru landsins, eins konar réttlæting. Ljóst er að setja þarf sérstakar reglur um Snæfellsöræfi til að vernda lífríki þeirra, svipaðar þeim sem gilda um ýmis friðlönd. Ótakmarkað aðgengi ferðafólks er þar varhugarvert.

Af hálfu ríkisstjórnar og sveitarstjórna hefur meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs frá upphafi verið að efla ferðaþjónustu í landinu og auka ferðamannastreymi til landsins, með öðrum orðum var friðlýsing jökulsins hugsuð sem auglýsing fyrir hann og aðliggjandi svæði. Annað hefur verið látið liggja milli hluta, eins og umrædd ráðstefna sýndi svo ótvírætt. Vissulega hafa verndarsinnar líka stillt ferðamennsku upp sem valkosti við virkjanir í hita leiksins, en hóf er best í því efni sem öðru og ferðastóriðja er lítið betri en önnur stóriðja.

Rétt er að geta þess, að Vatnajökulsþjóðgarður er ekki sá eini þar sem þannig er í pottinn búið. Víða um heim hafa þjóðgarðar verið settir upp á svipuðum forsendum, en þar með hafa hin upphaflegu markmið þeirra verið útvötnuð, og þeir hafa í raun orðið hinni alkunnu  græðgisvæðingu mannkynsins að bráð, stefnu er nú hefur leitt af sér alheimskreppu sem ekki sér fyrir endann á. Það var því máske að vonum að helsta aðila náttúruverndar á Austurlandi var ekki boðið að senda fyrirlesara á umrædda Vatnajökulskynningu og henni lauk með hefðbundinni víndrykkju. Risnufé Þórðar forstjóra var greinilega nóg.

H.Hg. (24.1.09)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.