Vangaveltur um veiðistjórnun hreindýra

Á síðasta veiðitímabili reyndust áhyggjur margra þeirra sem hafa unnið sem Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH) vera á rökum reistar og svo virðist að algjört hrun hafi orðið í stofninum á veiðisvæði 2 sem er að stærstum hluta á milli Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal.

Í nokkur ár hefur FLH lýst yfir áhyggjum af því að lítið hafi fundist af dýrum á svæði 2 og er það ekki í fyrsta skipti sem það gerist en nú virðist sem um algjört hrun sé, og engin svör fást frá stjórnsýslunni, Náttúrustofu Austurlands (NA), Umhverfisstofnun (UST), hreindýraráði eða umhverfisráðuneyti.

Hvar liggur þá vandinn?

Eftir að hafa setið í samráðshóp um veiðistjórnun í nokkur ár hefur lítið eða ekkert verið hlustað á tillögur FLH um kvótasetningu á veiðisvæðum þó svo að óskað hafi verið eftir og svo virðist að spá leiðsögumanna hafi ræst - öllum til undrunar í stjórnkerfinu.

Það er að aðeins hafi verið 100 -200 dýr á svæði 2 þar sem kvóti var 100 kýr og 70 tarfar.

Og hvað er tekið til ráða?

Skörun milli svæða. Já, á fundi 5. ágúst, sem undirritaður sat, var fjallað um vandamál svæðis 2 þ.e.a.s. svæðisins milli Jökulsár á Dal að Skriðdal, (sjá nánar kort UST um svæðaskiptingu veiðisvæða.) Þar lágu frammi tillögur að björgunaraðgerðum sem voru ákveðnar á fundi með fulltrúum NA og formanni hreindýraráðs og taldi Umhverfisstofnun heppilegast að fara eftirfarandi leið.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Heimila skaranir yfir á nærliggjandi svæði.

Beina tilmælum til leiðsögumanna um að hlífa dýrum á svæði 2 eins og kostur er að óbreyttu ástandi.
Endurúthluta ekki leyfum sem skilað er inn á svæði 2 og endurgreiða þau að fullu með tilvísun í 10. grein reglugerðar um stjórn hreindýraveiða.

Svæði 2 Heimilt að skara á svæði
Óveidd dýr 1 6 7 8 Samtals
Kýr 90 40 35 15 90
Tarfar 47 27 10 10 47
ALLS 137 67 10 45 15 137
---------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hvaða gagn er í því að sækja dýr sem ættu að koma til baka inn á svæði 2 á nærliggjandi svæði ef þau ættu að koma til baka? Það hefur lengst af verið skýring starfsmanns NA að það gerðu dýrin sem horfið hafa af svæði 2.

Dýrin eiga semsagt að vera á nærliggjandi svæðum og þau komi til baka og þetta komi til með að lagast.

Á þeim fundi sem stjórn FLH og samráðshópurinn var boðaður á var búið að taka ákvörðun um hvað ætti að gera. Til hvers var þá verið að boða leiðsögumenn á fund? Hefðu þeir ekki átt að funda með UST og NA?

Á fundinum hjá stjórn leiðsögumanna og samráðshópnum var farið yfir talningatölur á svæðum 1, 7 og 8. Athyglin beindist fljótt að misræmi í fjölda fæddra tarfkálfa og veturgömlum törfum í talningu. Til dæmis fundust ekki nema 26 veturgamlir tarfar á svæði 7 en kálfar töldust vera 131. Það ætti að vera nálægt helmingaskipt í kynjahlutföllum. Og á svæði 8 var hlutfallið sínu lakara þar fundust ekki nema 8 veturgamlir á móti 129 kálfum.
Þessar tölur á öllum svæðum ætti að vera hægt að nálgast á vef NA.

Og hver er niðurstaðan?

Getur verið að veturgamlir tarfar séu taldir sem kýr og að kvótinn sé settur eftir því? Vonandi svara þeir sem vita.

Eitt af því sem ég hef reynt að vekja athygli NA á er kvótasetning á svæði 8 að mínu áliti allt of stór og algjörlega glórulaust að setja á nóvemberveiði og gera ráð fyrir að dýr sem talin eru í Víðidal í Lóni komi fram í Lóni. Það hefur ekki gerst að neinu marki síðustu 10 ár, þannig að dýrin sem veiðast í nóvember eru nánast eingöngu ungar kýr, veturgamlar og tveggja vetra.

Tarfar á svæðinu eru sjaldan eldri en 3ja vetra! Veiðin á törfum er borin upp af tveggja vetra törfum þegar líður á veiðitímabilið og til uppfyllingar farið á svæði 7 til veiða.

Það eru svo fátækleg rök að vélargnýr við Hálslón hafi rekið dýrin burt, því þetta ástand hefur áður komið upp á svæði 2. Svoleiðis málflutningur var gjarnan kenndur við hundalógík þar sem ég er alin upp.

Höfundur er leiðsögumaður með hreindýraveiðum

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.