Uppsagnir lækna ekki í samráði við trúnaðarlækni né Læknafélag Austurlands

Samningamál lækna Heilbrigðisstofnunar Austurlands eru nú til meðferðar hjá Læknafélagi Austurlands. HSA sagði öllum læknum innan stofnunarinnar upp störfum um síðustu áramót og boðaði endurráðningu með breytingum á vaktafyrirkomulagi. Læknum hefur ekki verið kynnt hverjar breytingar eiga nákvæmlega að verða á samningum þeirra, en stefnt hafði verið að því að það lægi fyrir 1. febrúar.

Læknar hafa frá þriggja og upp í sex mánaða uppsagnarfrest og ráðningarforsendur eru bundnar hverjum stað innan umdæmis HSA.

 Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA, ritaði 30. desember í tölvupósti til Austurgluggans að ákvæði í ráðningarsamningum læknanna gerðu breytingar í átt til hagræðingar erfiðar og því þyrfti að gera nýja ráðningarsamninga við þá. ,,Það er gert í samráði við trúnaðarmann lækna og framkvæmdastjóra læknafélagsins,“ segir Einar Rafn þá. Hann leiðrétti þau orð sín snemma í janúar með eftirfarandi tölvubréfi:   ,,Sæl, Steinunn. Ég þarf að leiðrétta ummæli mín í tölvubréfi til þín 30. desember, þar sem ég var að svara fyrirspurn þinni um uppsagnir lækna hjá HSA. Þar sagði ég:  "Það er gert í samráði við trúnaðarmann lækna og framkvæmdastjóra læknafélagsins." Þetta er ekki rétt frá greint og mistökin alfarið mín að komast svona að orði. Hið rétta er að framkvæmdastjóra læknafélagsins var þann 15. desember kynnt með tölvupósti hvað til stæði og svaraði hann fyrir það 22. desember með greinargóðu bréfi. Trúnaðarmanni lækna var einnig kynnt málið, fyrst í óformlegu samtali sem ég veit ekki dagsetningu á, og síðar á formlegum fundi 30 desember. Þetta getur auðvitað ekki kallast samráð heldur upplýsingar, ætlaðar til að gefa kost á viðbrögðum. Ég óska þess að þú birtir þessa leiðréttingu við fyrsta tækifæri.“

Tölvupósturinn, sem dagsettur er 8. janúar, hefur lent á milli stafs og hurðar vegna póstþjónsbreytinga hjá Austurglugganum og er því birtur nú, að ósk Einars Rafns og trúnaðarlæknis á Austurlandi, Óttars Ármannssonar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.