Umsóknafjöldi um veiðileyfi slær öll met

Aldrei hafa fleiri umsóknir verið um hreindýraveiðileyfi en nú, þrátt fyrir örðugt efnahagsástand. Umsóknarfrestur rann út á miðnætti 15. febrúar og höfðu þá borist 3.300 umsóknir. Í fyrra voru umsóknir rétt innan við 3.100 talsins.

hreindraveiar.jpg Tala veiðidýra þessa árs er óbreytt frá í fyrra og má veiða 1.333 fullorðin dýr. Leitast er við að skjóta kálfa sem fylgt hafa felldum kúm, enda dragast þeir að öðrum kosti upp og drepast.

Veiðileyfi eru sem fyrr dýrust á veiðisvæðum eitt og tvö þar sem tarfur kostar 120 þúsund krónur en kýr 65 þúsund. Á svæðum þrjú til níu kostar tarfur 80 þúsund og kýr 45 þúsund krónur. Viðbótarverð fyrir felldan kálf er á öllum svæðum 20 þúsund krónur. Verð veiðileyfa er óbreytt frá fyrra ári.

Úr úthlutunarreglum Umhverfisstofnunar:

,,Berist fleiri umsóknir á hvert veiðisvæði en heimilt er að veiða á svæðinu er dregið um röð þeirra umsækjenda sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til veiðimanna. Öllum umsækjendum er raðað í númeraröð. Er það gert í tölvuforriti sem gefur hverri umsókn slembitölu á bilinu 1-100.000. Umsóknunum er síðan raðað eftir hækkandi röð þar sem umsóknin með lægstu töluna raðast fyrst o.s.frv.


Í fyrstu er einu dýri úthlutað pr. veiðimann en séu laus leyfi eftir það gefst veiðimönnum kostur á að kaupa aukadýr.
Umsóknir sem berast eftir 15. febrúar eru settar í tímaröð og séu enn laus leyfi eftir 1. apríl þá eru þau boðin til sölu í þeirri tímaröð sem umsóknir bárust eftir 15. febrúar.


Þeim umsækjendum sem fá úthlutað veiðileyfi er send staðfesting á úthlutun og hyggist þeir nýta leyfið skulu þeir greiða staðfestingargjald, sem nemur 25 % af verði veiðileyfis fyrir 1. apríl. Lokagreiðsla skal hafa borist fyrir 1. júlí. Leyfishafar greiða upphæðina inn á sérstakan bankareikning eftir þeim leiðbeiningum sem þeir fá.


Staðfestingargjald fæst ekki endurgreitt þótt umsækjandi hætti við að kaupa veiðileyfið. Hyggist veiðimaður ekki nýta veiðileyfi sem greitt hefur verið að fullu endurgreiðir hreindýraráð sem nemur 3/4 hlutum gjaldsins enda takist ráðinu að endurselja leyfi. Að öðrum kosti fæst veiðileyfið ekki endurgreitt.
Veiðileyfi á kálfa eru ekki seld sérstaklega en ætlast er til þess að kálfar frá felldum kúm séu skotnir. þeir eru síðan greiddir eftirá.


Til að koma í veg fyrir misnotkun á úthlutunarreglum er þeim sem fær úthlutað veiðileyfi skylt að fara á veiðar með leiðsögumanni, undir engum kringumstæðum má framselja leyfi til annarra veiðimanna. Einungis er úthlutað til veiðimanna, sem hafa gilt veiðikort og leyfi til hreindýraveiða. þarf slíkt að liggja fyrir áður en umsóknarfrestur rennur út."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.