Umhverfisráðherra boðið til Austurlands

Formaður og framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Austurlandi bjóða umhverfisráðherra að koma til Austurlands og kynna sér þau jákvæðu áhrif sem álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði hefur haft fyrir samfélagið á Austurlandi. Kemur boðið í kjölfar ummæla ráðherrans um að álverið hafi haft neikvæð áhrif á landsvísu og lítil áhrif á Austurlandi. Hér á eftir fer bréf SSA til Kolbrúnar Halldórsdóttur.

ssa.jpg

,,Vegna síendurtekinna fullyrðinga nokkurra málsmetandi einstaklinga í þjóðfélaginu og nú síðast núverandi umhverfisráðherra, Kolbrúnar Halldórsdóttur, þess efnis að virkjana- og stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi hafi neikvæð áhrif á landsvísu  og lítil  áhrif í landshlutanum  viljum við undirritaðir fyrir hönd stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og sveitarstjórna á starfssvæði SSA mótmæla slíkum staðhæfingum.

  

Jafnvel hefur verið gengið svo langt að halda því fram að umræddar framkvæmdir hafi hrundið af stað bankahruninu og heimskreppunni.

  

Til að upplýsa umhverfisráðherra um staðreyndir málsins óskum við hér með eftir að ráðherrann komi hið fyrsta austur á land í boði SSA og kynni sér frá fyrstu hendi raunveruleikann í okkar umhverfi og þau stórkostlegu áhrif, sem álverið í Reyðarfirði og afleidd starfsemi hefur haft á samfélagið. Í þessu sambandi má ekki gleyma samgöngubótum, sem voru ein af forsendum þess að verkefnið fór í gang og hafa jafnframt gert fjölmörgum íbúum nærliggjandi staða kleift að stunda vinnu fjarri heimabyggð á tímum samdráttar m.a. í fiskveiðum og -vinnslu.

  

Í trausti þess að ráðherrann sjái sér fært að þiggja heimboðið látum við ráðuneytinu eftir að ákveða tímasetningu umræddrar kynnisferðar, en erum reiðubúnir að skipuleggja skoðunarferðir um stóriðjusvæðið á Mið-Austurlandi, hlusta á rök ráðherrans, taka þátt í skoðanaskiptum með tilstyrk ýmissa ráðamanna heima í héraði og upplýsa væntanlega gesti úr ráðuneytinu eftir því sem kostur er.

  Seyðisfirði 12. feb. 2009

Með vinsemd og virðingu,

Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA

Bj. Hafþór Guðmundsson, formaður stjórnar SSA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.