Um Seyðisfjarðargöng

Góð samstaða virðist almennt vera um að næstu jarðgöng eigi að vera til að losa um einangrun Seyðisfjarðar. Tvennt kemur til greina, Fjarðarheiðargöngin eða Fjarðagöngin (Seyðisfjörður um Mjóafjörð til Norðfjarðar).

Í báðum tilfellum losnar fullkomlega um vetrareinangrun og Seyðisfjörður fær láglendistengingu við almenna vegakerfið. Hinsvegar er mikill munur hvað varðar kostnað og samfélagsáhrif. Með allskonar undanbrögðum og sérkennilegum rökum hafa stjórnvöld komið sér undan því að bera þessa kosti saman, nú síðast eins og fram kemur í skýrslu sem Vegagerðin fékk RHA til að gera. Í skýrslunni segir að óþarft sé að bera þessa tvo kosti saman því búið sé að ákveða að ráðast í þá báða!

Nú liggur fyrir þinginu tillaga að samgönguáætlun sem á að taka til umræðu og afgreiðslu með haustinu þegar þing kemur saman aftur. Ef sú umræða á að vera vitræn og koma að einhverju gagni verður að liggja fyrir samanburður þessara tveggja kosta hvað varðar kostnað, arðsemi og samfélagsáhrif, ekki hvað síst vegna þess að engar líkur eru til þess að ráðist verði í að framkvæma báða þessa kosti um langa framtíð. Einnig þarf að gera umferðarspá fyrir báða kosti og gera grein fyrir fjármögnun þeirra með tilliti til hugsanlegra vegtolla eins og rætt hefur verið um.

Er hér með skorað á samgönguyfirvöld að láta gera þennan samanburð.

Í framhaldinu tel ég rétt að fram fari rækileg kynning á báðum kostum og síðan skoðanakönnun meðal íbúa þeirra sveitarfélaga sem þetta snertir mest það er Múlaþings og Fjarðabyggðar. Þannig er helst hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvorn kostinn á að velja og skapa þá samstöðu og einingu sem nauðsynleg er, þegar ráðist er í svona viðamiklar framkvæmdir, samstöðu sem stjórnvöldum vegamála hefur ekki tekist hingað til.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.