Um endurheimt gæða náttmyrkurs og orkuþörf

Undanfarið hefur verið haldið uppi hræðsluáróðri um að orkuþörf okkar Íslendinga sé svo gríðarleg að við þurfum að virkja vatn, vind og eld, undir, yfir og allt um kringum Ísland. Eða það hef ÉG í það minnsta haft á tilfinningunni.

Sjaldnast er vikið einu orði að því að nýta orkuna betur, með bestu fáanlegu tækni og takmörkun til orkusóða eins og rafmyntargrafara, svo eitthvað sé nefnt.

Ein leið til betri orkunýtingar felst í endurskipulagningu og -hönnun og kemur þá að megin efni þessa pistils, endurheimt gæða náttmyrkurs (minni ljósmengun).

Múlaþing stendur nú (eins og mörg önnur sveitarfélög) frammi fyrir því að hafa fengið alla útilýsingu (utan þjóðvega í þéttbýli) í fangið frá Rarik sem nennir þessu ekki lengur né tímir, þar sem komið var að löngu tímabæru viðhaldi og endurnýjun allrar götulýsingar, allt frá lögnum í jörðu upp í ljósakúpla.

En þegar verkefnin eru stór þá er ekki annað en að bretta upp ermar þó þeim hafi verið þröngvað upp á okkur, í þessu felast nefnilega líka tækifæri.

Tækifæri til að hanna heildstæða og sparneytna götulýsingu í öllu Múlaþingi.

Tækifæri til að endurhemta gæði náttmyrkurs í Múlaþingi. Það er ekkert eðlilegt við það að sjá ljóskeilu í tuga kílómetra fjarlægð frá hverjum smábæ á landinu.

Með því að hanna útilýsingu þannig að við lýsum það sem þarf að lýsa; götur, gangstéttar, stíga, en ekki það sem við þurfum ekki að lýsa; inn um glugga, garða, upp í himinn, með vel hönnuðum ljósastaurum í viðeigandi hæð eftir aðstæðum næst verulegur sparnaður í raforku og við fáum stjörnusýn og meiri vellíðan í þéttbýli.

Bætum við þetta bestu tækni í ljósastýringum! Við þurfum ekki fulla lýsingu í fáförnum götum nema meðan umferð fer um, gangstígar geta verið rökkvaðir utan þeirra svæða sem verið er að nota hverju sinni.

Með þessu næst enn meiri orkusparnaður og ending búnaðar.

Þess þarf þó að gæta að lýsing sé ávallt næg, þar sem hér er líka um öryggisatriði er ræða.

Ég dreg enga dul á að þetta er dýrt og tekur tíma, en eins og fyrr segir þá er löngu kominn tími á endurnýjun og ekki seinna vænna að huga að úrbótum.

Vel skal til vanda það sem lengi á að standa.

Góð heildarhönnun þar sem fagurfræði, hagkvæmni og öryggi fær að spila saman er lykilatriði svo að vel takist til.

Það sem sparast í orku- og viðhaldskostnaði skilar sér á færri árum en okkur órar fyrir, auk þess sem íbúar og gestir Múlaþings, bæði menn og dýr, fá að njóta gæða náttmyrkurs en jafnframt öryggis.

Höfundur er 12. maður á lista Austurlistans í Múlaþingi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.