Þátttakandi eða þiggjandi

Ágústa Þorkelsdóttir á Refsstað í Vopnafirði skrifar: Merkilegt hvað ástand síðustu vikna hefur oft orðið til þess að ég hef minnst ömmu minnar heitinnar. Stundum hefur mér fundist ég heyra hana reka upp sinn forðum fræga dillandi hlátur, séð hana slá sér á lær og taka bakföll af undrun yfir þeim makalausu fréttum sem fjölmiðlar ryðja yfir okkur landsmenn nokkrum sinnum á dag, dag eftir dag, viku eftir viku. ,,Ja, það er margt skrítið í harmoníum,“ hefði hún trúlega sagt daglega, þegar við heyrum um stórlaxana sem kunnu svo vel þá list að týna skrilljónum af peningum sem þeir sögðu alltaf að þeir ættu, hefðu grætt af tærri ríkulega launaðri snilld,  en peningarnir reyndust svo vera úr sama efni og nýju fötin keisarans. Snilld stórmennanna og greind af sömu vísitölu og keisarinn í ævintýri H.C. Andersens hafði. Óprúttnar skrilljónirViðbrögð almennings við þessu ástandi eru mér að mörgu leyti geðfelld. Nú allt í einu virðist kominn upp áhugi fyrir að vera þátttakandi í mótun samfélagsins, ekki eingöngu þiggjandi.  Þiggjandi áróðurs um innantómt líf, þiggjandi lána án beinna tenginga við raunveruleika, greiðslugetu og jafnvel þörf.  Þiggjandi ráðgjafar frá ábyrgðarlausu fólki sem reyndist  gersneytt sambandi við íslenskan veruleika. Hlustandi á græðgishvetjandi áróður án gagnrýni. Þiggjandi leiðsagnar um hlaupandi stráka sem nú hella skuldasúpu sinni yfir skuldasúpu þiggjandans, hins almenna launaþega, sem nú á að borga sínar skuldir margfaldar, plús skrilljónir þeirra óprúttnu.Nú vill hinn almenni Íslendingur taka upp siði fyrri tíma, taka þátt í pólítíkinni, í ákvarðanatökunni, í uppbyggingunni eftir hrun haustdaganna. Vera þátttakandi í að skapa nýtt, frjótt og ábyrgt samfélag. Skapa stolta sjálfsmynd fólks, sem þrátt fyrir að þurfa að kyngja þungri skuldabyrði, hefur ákveðið að verða ekki sú kynslóð Íslendinga sem gefst upp fyrir þunga græðgi og heimsku. Láta ekki arf komandi kynslóða verða eingöngu skuldahala gróðærisins sem stóð stutt.  Nei, - skila í arf kraftmiklu, heiðarlegu samfélagi sem hefur beina tengingu til fortíðar.  Til þess fólks sem þurfti raunverulega að berjast fyrir brauðinu, lífi barna sinna og átti sér von um bjartari framtíð.Maður er manns gamanNú er lag Austfirðingar, við kunnum svo vel fyrir nokkrum árum að komast af án græðgisvæðingar og raðlána fyrir aukahlutum. Við kunnum að vera þátttakendur í að skapa menningu, skemmtileg lítil samfélög, þar sem allir eru  jafnir. Við kunnum að styðja hvert annað í lífsbaráttunni, í félagslífinu, í einkalífinu. Við þekkjumst svo vel að við þurfum ekki að taka upp vantraust stærri samfélaga á nágrannanum. Við gátum treyst hverju öðru fyrir uppgangstímana (?)  og getum gert það aftur núna, enda græðgistíminn svo stuttur að við eigum flest sömu grannana, undan sem eftir. Höldum áfram að hugga og snýta grátandi barni án þess að spyrja hvort það er okkar barn, barnabarn eða ættingi.  Styðjum hvert annað.Njótum samveru án þess að vera bara þyggjendur, verðum þátttakendur í léttum leik og gamanmálum sem við kunnum svo vel hér áður fyrr. Látum ekki ómerkilega gróðapunga segja okkur að kaupa skemmtikrafta ef við eigum skemmtikrafta í kippum heima fyrir, sem kosta bara nokkrar bensínlítra. Minnumst þess að peningar eru ekki og verða aldrei upphaf og endir farsæls samfélags. Munum að maður er manns gaman.  Ágústa á Refsstað.   (Birtist fyrst í jólablaði Austurgluggans 2008) 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.