Skip to main content

Það skiptir máli hver talar máli okkar Austfirðinga

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.25. nóvember 2024

Það skiptir okkur Austfirðinga máli hverjir fara inn á þing fyrir okkur, hverjir tala máli okkar. Ég hef aldrei verið jafn viss og nú. Ég er flokksbundin og kýs eftir sannfæringu minni. Ég er þess fullviss, nú sem aldrei fyrr, að hægri stjórn er málið fyrir okkur – stjórn sem byggir samfélög upp og eflir, ekki síst á landsbyggðinni. Hægri stjórn ýtir undir atvinnuskapandi umhverfi. Við vitum það vel hér fyrir austan: til að eflast og vaxa þurfum við sterkt atvinnusvæði með fjölbreyttum störfum.


Árið 2005 flutti ég aftur heim, eftir 10 ár í burtu. Þegar ég fór, árið 1995, var atvinnuöryggi lítið sem ekkert, fjölbreytni á atvinnumarkaði var nánast engin, og fáir sneru heim eftir nám. Í mörg samfélög hér fyrir austan vantar enn heilu árgangana af þeim sem fluttust burt á þessum árum í kringum 1990–2000. Tilkoma Alcoa breytti stöðunni. Austfirðir hafa risið sem öflugt atvinnusvæði. Hingað hafa fyrirtæki sótt í að koma, ný hafa sprottið upp, og fólksfjölgunin talar sínu máli.

Þegar samfélög stækka og eflast, fjölgar einnig störfum í skólum og á heilsugæslum. Það er því augljóst samhengi milli atvinnu og velferðar. Við þurfum fyrirtækin til að byggja upp góða velferðarþjónustu. Það síðasta sem við þurfum er að leggja svo miklar álögur á þau að einyrkjar og smærri fyrirtæki kikni undan gjöldum, flóknu regluverki og hverfi af vettvangi.

Ég trúi á frelsi einstaklingsins til athafna. Ég trúi því að undirstaða góðrar velferðar sé verðmætasköpun – sem öflugt og öruggt atvinnulíf tryggir okkur. Þess vegna kýs ég Sjálfstæðisflokkinn.

Austfirðir eiga nóg inni, og ég tel engann betri en Austfirðinginn og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Jens Garðar Helgason, til að koma áherslum okkar áfram á Alþingi. Hann þekkir samfélögin okkar, vegakerfið og þjónustuna sem í boði er – bæði hér fyrir austan og fyrir norðan.

Setjum X við D, setjum X við Austfirðinginn!

Höfundur er formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og fyrrum bæjarfulltrúi Fjarðabyggðar