Svæðisútvarp RÚV lagt niður um áramót - Áfram haldið með fréttaöflun fyrir Rás 1, Rás 2 og Sjónvarp

Ríkisútvarpið ætlar að hætta svæðisbundnum útsendingum á Egilsstöðum. Hugsanlega hætta þær um áramót. Starfsmenn svæðisútvarpsins á Austurlandi eru slegnir og telja litla hagræðingu fólgna í að leggja svæðisútvarpið af. Hins vegar verði stofnunin af auglýsingatekjum á Austurlandi, langt umfram kostnað við útsendingar.

 

Svo virðist sem áfram eigi að halda svæðisbundnum fréttastöðvum úti og vinna þar fréttir inn á Rás 1, Rás 2 og Sjónvarp. Tvö stöðugildi eru hjá svæðisstöðinni á Austurlandi, en þau voru til skamms tíma þrjú.

,,Við erum algjörlega ósammála um hverju þetta muni skila og ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli virkilega að gera þetta,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, forstöðumaður svæðisútvarps Austurlands. ,,Þá er ég ekki að vísa til hlutverks svæðisútvarpsins, sem ég met mikils, heldur eingöngu að horfa til fjárhagslegrar hagræðingar. Við eigum að halda áfram að framleiða útvarps- og sjónvarpsfréttir, en tekinn er út eini hluti rekstursins sem skilar tekjum. Ég skil ekki að slíkt skuli gert í nafni hagræðingar og get ekki kvittað undir það.“

Að mati Ásgríms Inga munu tekjur af auglýsingum frá staðbundinni verslun, þjónustu og menningu í fjórðungnum tæpast skila sér inn í útvarpið á landsvísu. ,,Dæmið lítur einfaldlega þannig út að taka á allar tekjur sem auglýsingarnar skapa og skilja okkur eftir með það að við getum ekki sýnt fram á neinar tekjur. Það næsta sem mun gerast er þá að menn horfa á hversu óhagkvæm einingin verður og blása hana út af borðinu.“

Hann segir ekkert koma í stað svæðisútvarpsins, slíkt sé í besta falli óskhyggja. Hann hafi viljað veg starfseminnar þar sem mestan og sér finnist stórlega vegið að henni nú. ,,Ég hef ekki trú á að þessu verði hægt að snúa á einhvern hátt þannig að það efli starfsemina,“ segir Arngrímur Ingi.

Ríkisútvarpið sagði í dag upp 21 starfsmanni og hefur að auki rift  samningum við 23 verktaka.  Allt í allt hverfa 45 starfsmenn frá RÚV. Skera á niður um 700 milljónir króna á næstunni og er það um 19% niðurskurður. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu ohf. var mikill halli á rekstri félagsins  rekstrarárið 1. september 2007 til 31. ágúst 2008. Tap tímabilsins var 739,5 milljónir. Þar af má rekja um 600 milljónir til þess að verðbólga sé langt umfram áætlanir. Tap undanfarinna tveggja ára valdi því að eigið fé sé næstum uppurið og standi nú í 31 milljón króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.