Svartalogn á Seyðisfirði

Það eru öfugmæli að það sé svartalogn á Seyðisfirði, í það minnsta þegar kemur að umræðum um fiskeldismálin. Nýlega var haldinn kynningarfundur fyrir íbúa Seyðisfjarðar um fyrirhugað laxeldi í sjókvíum í firðinum og skoðanaskiptin voru ekki beint lognmolluleg á fundinum.

Það er skiljanlegt því Seyðfirðingar hafa verið afskiptir í þessu máli og þeir hafa haft fá tækifæri til að tjá sig við stjórnendur fyrirtækisins á þeim sjö árum sem ferlið hefur staðið yfir. Það eru ekki góð vinnubrögð.

Mikill uppgangur hefur verið í atvinnulífinu á Djúpavogi undanfarin ár í tengslum við fiskeldi og sá uppgangur hefur komið samfélaginu þar til góða og ríkir þar almenn sátt með atvinnuveginn. Meirihluti Seyðfirðinga er hins vegar á þeirri skoðun að umhverfisáhrif kvíanna verði neikvæð og hafi óæskileg áhrif á þá starfsemi sem hefur byggt upp atvinnu- og mannlíf í byggðarlaginu. Rúmlega helmingur íbúa Seyðisfjarðar tóku þátt í undirskriftasöfnun þar sem andstöðu var lýst yfir við fyrirhuguð áform. Í stað þess að taka fullt mark á undirritununum hefur borið á að gert sé lítið úr þeim og jafnvel gefið í skin að fólk hafi verið þvingað til að skrifa undir. Enginn fulltrúa Austurlistans hefur dregið umræddan undirskriftalista í efa og við teljum að skynsamlegast sé að rannsaka til hlítar áhrif eldisins á siglingaleiðir og reyna meta áhrif þess á ferðamennsku.

Lög um skipulag strand- og hafsvæða voru samþykkt á Alþingi árið 2018. Vinna samkvæmt þessum lögum um strandsvæðisskipulag á Austfjörðum er í vinnslu. Umsókn eldisfyrirtækisins var lögð inn áður en lögin voru sett og þess vegna er starfsleyfisveiting er ekki bundin við þau lög. Skipulagsvald sveitarfélaga nær aðeins 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og því eru sjókvíar utan þeirra lögsögu. Þar erum við komin að stóru réttlætismáli, það er óréttlátt að sveitarfélög hafi ekki þetta vald. Austurlistinn vill að þessu verði breytt þannig að firðir í Múlaþingi heyri undir skipulagsvald sveitarfélagsins. Það að ákvæði um að skipulagsvald sveitarfélags einskorist við 115 metra frá stórstraumsfjöruborði eru eingöngu til þess fallin að auka miðstýringu og heftir sjálfsákvörðunarrétt íbúa til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Hefði sveitarfélagið skipulagsvald yfir sínum fjörðum gæti það haldið bindandi kosningu íbúa Múlaþings um málið sem gæti verið sanngjarnasta leiðin til að ná lendingu í málinu.

Fulltrúar Austurlistans í sveitarstjórn hafa reynt að tryggja að rödd Seyðfirðinga fái að heyrast m.a. með áskorunum á eldisfyrirtækið um að halda íbúafundi og áskorun um að farið verði eftir lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Eins og áður sagði hefur sveitarstjórnarstigið ekki lagalegar heimildir til að hafa áhrif á framvindu málsins. Valdið er hjá þeim stofnunum sem veita rekstrarleyfi, Alþingi, matvælaráðherra og fiskeldisfyrirtækinu sjálft. Það færi vel á því að þessir aðilar reyndu að mæta sjónarmiðum Seyðfirðinga um frekari aðkomu þeirra að málinu. Sveitarstjórnir hafa þó tækifæri til að tjá sig og allir fulltrúar Austurlistans munu hér eftir sem hingað til reyna að tryggja að rödd íbúa heyrist.

Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans
Eyþór Stefánsson 2. sæti Austurlistans
Ásdís Hafrún Benediktsdóttir 3. sæti Austurlistans
Jóhann Hjalti Þorsteinsson 5. sæti Austurlistans


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.