Suðupottur hugmynda og verkefna

Þróunarfélag Austurlands hefur starfað að framþróun í atvinnulífi og jákvæðri samfélagsþróun á Austurlandi í 25 ár. Það starfar í raun sem útstöð Byggðastofnunar. Mikil áhersla hefur verið lögð á það frá upphafi að hafa starfsemi félagsins vel skilgreinda og þannig uppbyggða, að á hverjum tíma væri hægt að takast á við nýjustu og brýnustu verkefni samfélagsins.

runarflag2.gif

Tilgangur félagsins er að vinna með árangursríkum hætti að eflingu atvinnulífs og byggðar á Austurlandi. Hlutverk þess er að veita ráðgjöf við nýsköpunar- og þróunarverkefni og um bættan rekstur. Starfssvæðið nær frá Vopnafirði suður um til Djúpavogs. Fimm fastir starfsmenn eru hjá félaginu, auk þess sem lausráðnir starfsmenn vinna að einstökum verkefnum.

Fjárhagur Þróunarfélagsins byggir á samningsbundnum greiðslum, félagsgjöldum og sérverkefnum. Bakland félagsins er myndað af eitt hundrað einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og starfsgreinafélögum á Austurlandi.

Sjö önnur þróunarfélög eru í landinu og er gott samstarf milli þeirra allra. Byggðastofnun gerir kröfu um árangursmælingu hjá þróunarfélögum landsins og hefur Þróunarfélag Austurlands komið vel út úr þeirri mælingu. Í stjórn Þróunarfélagsins eru Andrés Skúlason, Auður Anna Ingólfsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Jóhann Már Róbertsson, Lars Gunnarsson, Páll Björgvin Guðmundsson, Reynir Arnarson, Svanbjörn Stefánsson og Sævar Jónsson.

,,Hugtökin ef og reyna eru ekki til hjá Þróunarfélagi Austurlands - þau eru hreinlega bönnuð“

ss_vefur.jpg

 

,,Við vinnum að því að gera félagið óþarft í þeim verkefnum sem það tekur að sér, vinnur með og stofnar til,“ segir Stefán Stefánsson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands og Atvinnuþróunarsjóðs, um starfsemi félagsins. Hann segir markmiðið að koma verkefnum þess svo vel á legg að frekari aðkomu félagsins sé ekki þörf. ,,Fáir vita að Þróunarfélagið kom að stofnun Markaðsstofu Austurlands, Fræðslunets Austurlands sem nú heitir orðið Þekkingarnet Austurlands, Menningarráðs Austurlands og að í ellefu ár vann starfsmaður okkar að undirbúningi fyrir álver á Austurlandi,“ segir Stefán. ,,Við komum að stofnun Ferðamálasamtaka Austurlands,  slepptum því verkefni fyrir um sjö árum síðan, samtökin gliðnuðu í kjölfarið og þá komum við aftur að verkstjórn í þeim og nú eru þau í höfn. Fyrir mánuði síðan náðist það markmið Þróunarfélagsins og Ferðamálasamtakanna að stofnaðar hafa verið markaðsstofur ferðamála um allt land. Við sáum að það væri eini kosturinn til að koma mætti á almennilegu skipuriti meðal grasrótarinnar í ferðamálunum. Þróunarfélagið kemur satt að segja ævintýralega víða við.“

 

 

Huliðshjálmur verkefna

  

Segja má að í almennri umræðu sé sjaldnast rætt um innri starfsemi Þróunarfélagsins. Miklu frekar er fjallað um verkefni sem félagið kemur að á einhvern hátt. Stefán segir það jákvætt, en þó sé viss ókostur að hafa Þróunarfélagið svo lítið í sviðsljósinu sem raun ber vitni.

,,Síðustu fimm árin hefur starfsemi Þróunarfélagsins vaxið umtalsvert, bæði hvað varðar starfsmannafjölda og verkefni. Á meðan hafa tekjur frá hinu opinbera staðið í stað, það bera ársreikningar félagsins vitni um. Rekstrartekjur félagsins samanstanda af framlögum frá Byggðastofnun að upphæð um 23 milljónum króna og árgjöldum sem nema 3,9 milljónum frá tæplega eitt hundrað aðilum félagsins. Þar á meðal eru öll sveitarfélög fjórðungsins. Stóru sveitarfélögin tvö eru að leggja í kringum fjögur hundruð þúsund krónur til félagsins á ári. Þetta þýðir reyndar að starfsfólkið okkar er sjálfstætt og pólitík ræður ekki hvernig verkefnin koma inn. Það eru forréttindi fyrir félagið. Við gerum hins vegar ekkert nema með góðu baklandi, sem eru yfirstjórnir sveitarfélaganna, íbúar og fyrirtæki fjórðungsins. Þessir aðilar reka okkur áfram, eiga okkur og hvetja til góðra verka. Atvinnuþróunarsjóður, sem við höfum umsjón með, leggur okkur svo til um fjórar milljónir árlega og framlög vegna sérverkefna, m.a. úr Evrópuverkefnum eru um 15 milljónir.“ Innkoma félagsins fer í rekstur og það leggur að jafnaði ekki fjármagn í verkefni en aðstoðar við að afla þess. Heildarvelta félagsins hefur verið um 50 milljónir króna árlega.

 

 

Aragrúi verkefna

  

Þróunarfélagið er með aragrúa af verkefnum á sinni könnu. Sú spurning hefur komið upp hvort félagið sé ekki að sinna of mörgu í einu. Stefán segir vissulega nokkuð til í því, en þá verði að spyrja á móti hvaða verkefni séu góð og beri að taka inn. Hann hafi sem framkvæmdastjóri umboð frá stjórn til að velja úr. ,,Ég er sannfærður um að betra er að taka að sér stóran skammt verkefna og leggja þá áherslur á þau góðu sem koma inn til að forðast að verkefnin fari út af svæðinu. Við höfum verið að eflast og erum með mjög hæft fólk sem veldur miklu. Helst vildi ég auka starfsemina og gjarnan sjá starfsstöð í Fjarðabyggð.“

Stefán segir mörg verkefni bundin trúnaði og um þau megi ekki ræða opinberlega fyrr en í fyllingu tímans. ,,Um þau ríkir trúnaður og traust. Við höfum því miður veður af fólki sem við vitum að vill ekki koma til okkar vegna þess að það er hrætt um að hugmyndin verði tekin af þeim. Því er svo mikilvægt að algjör trúnaður fylgi þeim verkefnum sem koma hér inn.“

Þróunarfélagið hefur tekið að sér stór verkefni á landsvísu og verið þátttakandi í yfirgripsmiklum erlendum verkefnum. ,,Til að hafa gott fólk þarf verkefni sem fela í sér miklar áskoranir. Það hefur okkur tekist. Við fylgjumst vel með og erum upplýst. Að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum er jafnframt ódýrasta endurmenntun sem nokkur getur komist í; að sjá hvað öðrum er að takast eða mistakast.“

Verkefni Þróunarfélagsins koma úr öllum áttum. Þeim má gróflega skipta upp í samfélagsverkefni, verkefni fyrir fyrirtæki og stofnanir og aðstoð við frumkvöðla. Mörg eru unnin í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, sem Stefán efar stórlega að Austfirðingar meti að verðleikum.

 

 

Feiknarlegt umfang

  

Samfélagsverkefnin eru jafnan á fjórðungsvísu. Enginn einn á slík verkefni en nauðsyn er að hrinda þeim í framkvæmd því þau gera samfélaginu gagn. Eitt stöðugildi félagsins fer í að sinna samfélagsverkefnum. Þau koma utan úr samfélaginu, t.d. frá sveitarfélögum eða SSA, frá einstaklingum eða stofnunum. Dæmi um þetta er stofnun Menningarráðs Austurlands og Ferðamálasamtaka Austurlands. Samfélagsverkefni sem nú eru í vinnslu eru til dæmis vinna með SSA að sameiginlegum hagsmunum í urðun sorps á Austurlandi og  verkefni um markaðssetningu flugvalla og hafna á Austurlandi. Vegna frumkvæðis félagsins er komið upp nýtt verkefni, þar sem samgönguráðherra hefur óskað sérstaklega eftir að Þróunarfélag Austurlands leiði vinnu við markaðssetningu flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri. Kemur það í kjölfar vinnu Þróunarfélagsins með Fljótsdalshéraði og Háskólanum á Bifröst, þar sem unnin var þarfagreining fyrir Egilsstaðaflugvöll.

Þá má geta verkefnis sem tengist komu innflytjenda á Austurland og um Ísland allt. Unnið hefur verið í samvinnu við SSA um hvernig megi koma á stefnu um móttöku nýbúa á landsvísu og í framhaldinu með  Helgu Steinsson hjá Fjölmenningarsetri, en sú stofnun kom austur meðal annars vegna vinnu Þróunarfélagsins og SSA að þessum málum. Þetta eru dæmi um mikilvæga keðjuverkun.

Einnig verður að nefna mjög stórt verkefni sem staðið hefur síðustu ár í samvinnu við sveitarfélög á Austurlandi og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri. Það höndlar með samfélagsvöktun vegna áhrifa uppbyggingar virkjunar og álvers. Stefán segir verkefnið hafa verið mjög gagnlegt og vilji sé til að því verði haldið áfram. Nýheimar á Höfn er enn eitt dæmið um verkefni sem Þróunarfélagið vann að um árabil og tókst afar vel. Nú er í athugun hvort unnt er að koma upp áþekkum frumkvöðlasetrum víðar á Austurlandi og er þá ekki síst horft til Vopnafjarðar, þar sem kominn er vísir að umhverfi þekkingarseturs.

Ekki verður horfið frá samfélagsverkefnum án þess að minnast á Vatnajökulsverkefnið, umhverfi og samfélag. Það verður eitt af stærstu verkefnum Þróunarfélagsins á næstu árum. Verkefnið var mótað hjá félaginu og fjallar um nýtingarmöguleika sem þjóðgarðurinn skapar. Kanna á þau tækifæri fyrir heimafólk sem til verða vegna þjóðgarðsins og áhrif í nærumhverfi hans. Samstarfsaðilar eru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og á Suðurlandi. Fyrsta ár verkefnisins fór í gagnasöfnun sem er langt komin og framundan að skoða fjóra stóra þjóðgarða víðs vegar um heiminn til að athuga umhverfi þeirra og hvað aðrir hafa gert í að efla nærsamfélag slíkra garða. Í kjölfarið verður farið í stefnumótunarvinnu með heimafólki og að síðustu í kynningu á afrakstrinum.

 

 

Orkuskógur og álafurðir

  

Verkefni fyrir fyrirtæki og stofnanir varða mikið ráðgjöf um rekstur, markaðssetningu, að koma á góðri viðskiptaáætlun til fjármögnunar, greiningu og stefnumótun. Dæmi um þetta er Orkuskógar, tilraunaverkefni um húshitun með viðarkyndingu úr grisjunarvið á Hallormsstað, sem Þróunarfélagið hefur komið að síðastliðið eitt og hálft ár. Annað dæmi er vöruþróun úr áli og fullvinnsla innanlands, sem hefur verið á teikniborðinu í nærfellt þrjú ár. Það verkefni er bundið trúnaði og er í bið sem stendur. Þá er verið að skoða möguleika á uppsetningu gagnavers í fjórðungnum og í athugun möguleikar á frekari afurðavinnslu í Mjólkurstöð MS og aðkomu aðila eins og til dæmis Matís. Nefna má einnig áframeldi á þorski í Stöðvarfirði, Mjóafirði og Vopnafirði og loðnuverkefni tengt niðursuðu á Vopnafirði með fulltingi Atvinnuþróunarsjóðs.

Aðstoð við frumkvöla er umfangsmikil og sinnir einn starfsmaður Þróunarfélagsins því. Vikulega koma inn nýjar hugmyndir að verkefnum. Á þessum vettvangi er mikilvægt að Þróunarfélagið greini strax í upphafi hvort hugmynd er raunhæf. Oft reynist enginn fjárhagslegur grunnur fyrir verkefni og þá er viðkomandi gert ljóst að ekki sé rétt að halda áfram. Stefán leggur þó ríka áherslu á að öll verkefni séu góð og allar hugmyndir flottar. Hversu góðar og tímabærar þær séu þurfi engu að síður að skoða í fullri alvöru, svo ekki fari illa.

Sem dæmi um frumkvöðlaverkefni má nefna Ríki Vatnajökuls sem er ferðaþjónustuklasi á Höfn. Það er mjög framsýnt verkefni sem staðið hefur í tvö ár og gengur vel. Fleiri dæmi um frumkvöðla eru Sagnabrunnur sem er verkefni Rannveigar Þórhallsdóttur, kvikmynda- og myndbandahátíðin 700IS Hreindýraland, Hrefnuber og jurtir á Reyðarfirði, viðhald og viðgerðir á blásturhljóðfærum og hunda- og kattahótel. Allt eru þetta kvennaverkefni og má geta þess að í vetrarbyrjun afhenti Jóhanna Sigurðardóttir, þá félags- og tryggingamálaráðherra, þessum verkefnum frekari styrki undir formerkjum atvinnumála kvenna. Konurnar höfðu allar verið í samstarfi við Þróunarfélagið. Þá má nefna að stór skýrsla Þróunarfélagsins um tækifæri í tengslum við hreindýr á Austurlandi hefur skilað fjölmörgum verkefnum þar sem frumkvöðlar hafa fengið styrki úr Atvinnuþróunarsjóði og komist á legg með ýmsa starfsemi.

 

 

Ekki kemst allt á koppinn

  

Vaxtarsamningur Austurlands er eitt viðamesta verkefni Þróunarfélagsins, sem það stýrir fyrir iðnaðarráðuneytið. Fjölmörg verkefni eru í þróun undir formerkjum Vaxtarsamnings og hafa mörg þeirra notið styrkja. Snerta þau matvælaframleiðslu, menntun, rannsóknir, menningu, ferðaþjónustu, iðnað, tækni og verktakastarfsemi. ,,Vaxtarsamningurinn hefur nú þegar skapað störf til framtíðar, hleypt krafti í hugmyndir fólks og breytt þankagangi hjá mörgum. Verkefnið er enginn stóri sannleikur en margt er þarna mjög gott og við eigum að þakka fyrir það. Nú þurfum við að vinna ötullega að því að búa til nýjan Vaxtarsamning með nýrri sýn í ljósi breyttra tíma, því núverandi samningur rennur út í lok þessa árs. Á næsta ári verður líklega minna fjármagn frá hinu opinbera og því verða allir Austfirðingar að leggjast á eitt og hamra járnið,“ segir Stefán.

Um það hvort fjölmörg verkefni falli ekki milli stafs og hurðar þegar umfangið sé svona mikið hjá félaginu, segir Stefán að ekki komist allt á koppinn.

,,Auðvitað rykfellur fullt af verkefnum og það á að gerast. Það eru ekki öll verkefni hæf í vinnslu, enda eru þá hvorki til peningar né uppsprettur til að koma þeim áfram. Dæmi um þetta er Frístundagarðurinn margumræddi sem var í nokkur ár til meðferðar hjá okkur. Hann átti líklega ekki heima á svæði sem hafði ekki fleiri ferðamenn en raun bar vitni á þeim tíma. Markaðsforsendur vantaði og menn voru nokkuð lengi að átta sig á að þetta gengi ekki að svo stöddu. Það verkefni er hins vegar ekki búið. Það er í bið og menn að nýta vinnuna sem í frístundagarðinn var lögð úti í samfélaginu í dag. Hún nýtist til dæmis í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð. Hreindýrasetrið og önnur afþreyingarþjónusta eru afsprengi þessarar vinnu. Svona er þetta með öll verkefni og þess vegna eru þau í rauninni öll góð. Gangi flugvallarmál og samgöngumál eftir er ekki að vita nema frístundagarðurinn fari af stað aftur. Það er þó alveg á hreinu að ekki er nóg að setja eitthvað upp, heldur þarf að reka það líka. Við viljum ekki vera í glæfralegri peningastefnu heldur vera traustsins verð í þeim efnum sem öðrum. Nú er minna um fjármagn og það þýðir ákveðna bið. Verkefni eru þó auðvitað í vinnslu og við að aðstoða marga sem eru í erfiðleikum. Við getum hjálpað, þó ekki með fjárframlög, en unnt er að fara í gegnum málin og ráðleggja hvernig menn geta snúið sér. Við stillum upp lánapökkum, aðstoðum við að endursemja og leitum að hluthöfum. Ég treysti mér til að segja að hefðum við ekki verið að þjónusta marga aðila á síðasta ári og fengið við það dygga hjálp frá Byggðastofnun væri ver komið fyrir mörgum. Einnig erum við í að stofna fyrirtæki ef við sjáum að slíkt er vænlegt og þá náum við fólki saman í það.“

 

 

Enn vaxtarsvæði

  

Stefán segir vilja til að félagið komi meira að landbúnaði og enn frekar að sjávartengdum verkefnum og ferðaþjónustu. Ótal margt sé á teikniborðinu og mörg verulega væn tækifæri.

,,Fólk er búið að átta sig á að Vatnajökulsþjóðgarður er veruleiki. Austfirðingar hafa hins vegar verið uppteknir við aðra vinnu og meðal Austfirðingurinn líklega ennþá þreyttur. Það er búið að ganga ofsalega mikið á, bæði upp og niður. Ég hygg að í nánustu framtíð séu mjög mikil  tækifæri fólgin í verkefnum í tengslum við þjóðgarðinn. Kannski áttum við okkur ekki ennþá á því hversu mikið við höfum fram að færa og sýna.“

Vatnajökulsþjóðgarður og Drekasvæðið, olíuleitarsvæðið undan Norðausturlandi, eru þannig tveir öxlar sem gætu vegið þungt í efnahag Austfirðinga á komandi tímum. ,,Auðlindir og fólkið hér gerir að verkum að við höfum allt til að bera til að verða eitt sterkasta vaxtarsvæðið á Íslandi í komandi framtíð. Það byggist ekki endilega á hversu mikla peninga við eigum, heldur á góðu fólki. Við þurfum að stýra hlutunum hér heima fyrir og eigum ekki að búa við einhverja útibúavæðingu þannig að við fáum senda mola héðan og þaðan. Við eigum að móta hlutina sjálf því við höfum fulla getu til þess. Allt þetta getum við með góðu fólki. Hjá Þróunarfélaginu viljum við gera allt sem við getum til að gera gott samfélag betra.“

Starfsmenn Þróunarfélagsins hafa reglulega viðveru í öllum sveitarfélögunum á Austurlandi. Nú er farin í gang fundaröð þar sem

kynnt verða verkefni og innviðir félagsins.

 

 

 

 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands opnar starfsstöð á Egilsstöðum innan fárra vikna. Hún verður með aðstöðu í húsakynnum Þróunarfélagsins. Ekki eru áhyggjur innan félagsins af að verkefni, vinna eða hagsmunir skarist milli þessara tveggja aðila og talið að samvinna muni skila öflugra samfélagi.

Atvinnuþróunarsjóður Austurlands, sem er í umsjá Þróunarfélagsins, er stoðstofnun sem sveitarfélögin leggja til nokkurt fjármagn á hverju ári. Sjóðurinn auðveldar mjög innkomu fyrir mörg smærri verkefni.  Hann er afar mikilvægur austfirsku samfélagi og fylgir Þróunarfélagið eftir hugmyndum sem njóta brautargengis hjá sjóðnum. Oft hafa lítil verkefni vaxið að umfangi og orðið þroskavænleg innan þessara vébanda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.