Stóra Tjaldsvæðamálið á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík

Áhugavert var að taka þátt í umræðum íbúafundar Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur síðastliðinn sunnudag. Íbúar eru orðnir langeygir eftir úrbótum á ýmsum sviðum.

Brunnu tjaldsvæði byggðarlaganna á fólki. Á Breiðdalsvík sögðu íbúar að tilraunir að tjaldsvæði hafi engan árangur boðið. Fram kom á fundinum að meirihlutinn í Fjarðabyggð hefði ítrekað lofað úrbótum á Stöðvarfirði en ekki staðið við það. Tjaldsvæðamál einkenndust af samskiptaleysi og ólestri. Uppbygging ferðaþjónustu getur ekki beðið í 20 ár eftir sveitarstjórninni.

Fulltrúar meirihlutans sögðust vilja sátt um tjöldin. Menn þyrftu vanda sig. Fram kom einnig að Framsóknarflokkurinn sé að komast að þeirri niðurstöðu að tjaldsvæðin á Eskifirði, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði séu líklega of lítil. Því þyrfti að skoða tjaldsvæðamál í víðtæku samráði. Málið yrði því að taka inn á dagskrá bæjarstjórnar hið fyrsta eftir kosningar.

Endalaust gauf

Já - „Tjaldsvæðamálið stóra“ virðist hafa verið umfangsmikið í stjórnsýslu. Það tekur upp tíma og þá litlu orku sem eftir er í meirihlutaflokkunum í Fjarðabyggð.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt Stóra tjaldsvæðamálið ekki bara vandræðalegt, heldur einnig lýsandi fyrir margt sem meirihluti sveitastjórnar hefur staðið fyrir á síðasta kjörtímabili. Skipaðir voru starfshópar (já fleiri en einn) fyrir Tjaldsvæðamálið stóra. Áfram skal jú gaufað með málið. Ræddar margar mismunandi útfærslur en engin ákvörðun tekin. Og auðvitað gerist ekkert með uppbyggingu tjaldsvæðanna. Málið er margrætt nú fyrir kosningar. Svo var einnig fyrir fjórum árum og líka þar áður.

Íbúasamtökin á Stöðvarfirði boðuðu til íbúafundar varðandi tjaldsvæðismálin seinasta haust eftir langa undirbúningsvinnu. Þar var þeim íbúum sem mættu á þann fund kynntar hugmyndir um tjaldsvæðið á gamla fótboltavellinum. Eftir það allt saman skiluðu íbúasamtökin niðurstöðum sínum til núverandi meirihluta ásamt sinni sýn á tjaldsvæðinu.

Niðurstaðan er skýr: Meirihlutinn treystir sér ekki til að taka ákvarðanir í Tjaldsvæðamálinu stóra á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

Lausnin felst ekki í enn fleiri fundum eða samræðuhópum að hætti framsóknarmanna. Fjarðabyggð þarf nýjan meirihluta sem getur tekið ákvarðanir. Sveitarfélagið þarf forystu. Þar fer fremstur Ragnar Sigurðsson Sjálfstæðisflokki.

Höfundur er verkamaður hjá Landatanga og ritari íbúasamtakana á Stöðvarfirði. Hann skipar 9. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.