Skip to main content

Stolt foreldri transungmennis

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.08. ágúst 2025

Þegar barnið mitt kom út úr skápnum gagnvart mér og stjúpföður þess hafði ég ekki áhyggjur. Ég var stolt af því að hafa búið til þannig umgjörð og traust að barnið mitt þorði að vera það sjálft og að það gæti deilt því með okkur foreldrunum.


Ef ég hefði þá vitað það sem ég veit nú, hefði ég sennilega orðið óttaslegin og áhyggjufull fyrir hönd barnsins míns.

Bakslagið í nærsamfélaginu


Sumir tengja ekki við að það sé bakslag í málefnum hinsegin fólks en eigandi vini og nána ættingja á mínum aldri sem eru hinsegin og svo barnið mitt sem fæðist einum og hálfum áratug á eftir þeim finn ég það greinilega. Einstaklingar sem eru ekki hinsegin eða í miklum samskiptum við hinsegin fólk taka kannski ekkert sérlega mikið eftir bakslaginu en við finnum það, heyrum og sjáum.

Við fluttum austur árið 2022 og ég lét skólann vita áður en við komum að ungmennið mitt væri tvíkynhneigt og trans. Skólinn reyndi sitt besta til að háni liði vel í skólanum. Hán mátti nota annan búningsklefa í íþróttum og sundi, kennarar og starfsfólk vandaði sig við að læra að nota rétt mál og þau reyndu sitt besta til að uppræta hvers kyns eineltistilburði og áreiti. Það átti eftir að reynast erfiðara en við gerðum ráð fyrir.

Ungmennið mitt lenti reglulega í því að á hán væri gelt, sumir gerðu sér meira að segja far um að fara yfir götu til þess eins að geta nálgast og gelt á hán og þannig afmennskað hán. Hán lenti líka í því í skólanum að hníf var kastað í áttina að háni af einstaklingi sem þoldi ekki hinseginleika háns. Hán fékk að heyra niðrandi athugasemdir um hinsegin fólk og var kallað faggi og kynvillingur. Háni var sagt að drepa sig.

Öllu þessu mættum við foreldrarnir af hörku, reistum eins mikla skjaldborg í kringum hán og okkur var frekast unnt, höfðum samband við skóla og foreldra. Hvöttum skólann til þess að fá ýmiskonar utanaðkomandi fræðslu fyrir nemendur og svo framvegis. Við upplifðum samt vanmátt, því ekki gátum við verið með háni öllum stundum og verndað hán og passað að enginn gerði þeim mein.

Regnbogatáknið


Sumir hafa hnussað yfir því að hinsegin samfélagið hafi eignað sér regnbogann, en málið er að undir regnbogann falla allir og þar eru allir velkomnir. Sem foreldri barns sem hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum get ég ekki undirstrikað það nógu mikið hversu mikilvægur regnboginn og sýnileiki hans er. Sumum finnst of mikið að það sé kominn regnbogi í flesta kjarna. Mér finnst það ekki. Ungmennið mitt upplifði sig séð, háni fannst hán velkomið og tilheyra þar sem voru fánar. Ég á myndir af háni á stöðum þar sem við fundum regnbogann því það vakti mikla gleði og vellíðan hjá háni og um leið hjá okkur.

Þegar unnin hafa verið skemmdarverk á fánum hingað og þangað um landið þá undirstrikar það bakslagið en það sem er helsta huggunin eru viðbrögð og samtakamáttur flestra í samfélaginu. Ég hef því lagt mig fram við að draga slíkt fram fyrir mitt ungmenni, sýna háni að stór hluti fólks stendur við bak hinseginsamfélagsins.

Nafnið og persónufornöfn


Fólk verður mjög gjarnan tvístígandi og stressað þegar það heyrir að hán sé kvár og ég bara skil það vel. Yfirleitt fylgja orðin „Ég er hrædd/ur um að ruglast, ég er ekki vön/vanur að nota svona persónufornöfn.“ Það er ekkert mál! Allavega ekki á okkar heimili enda settumst við hreinlega niður þegar hán kom út og ræddum þessi mál. Við skyldum láta fólk vita en svo þyrftum við að vera þolinmóð og leyfa fólki að æfa sig og venja sig á nýtt málfar. Þar af leiðandi verður hán ekki móðgað þó fólk ruglist ef hán heyrir að viðkomandi er samt sannarlega að reyna.

Barnið mitt skipti um nafn enda passaði kynjaða nafnið sem ég valdi fyrir hán ekki við kynvitund háns. Í sannleika sagt fannst mér það alveg grautfúlt í fyrstu, mér fannst það sárt og vonaði að hán myndi kannski ákveða að nota bara skírnarnafnið. Það var samt ansi fljótt að rjátlast af mér því ég þurfti ekki að hugsa um annað en hamingju barnsins míns. Ef háni leið illa yfir að vera kallað ákveðnu nafni langaði mig þá að kalla hán því? Svarið var nei, ef hán vildi láta kalla sig Baðkar og það gerði hán hamingjusamt þá myndi ég gera það! Málið er nefnilega að nafnið er eitthvað sem hán þarf að bera og hvort sem það er skírnarnafnið eða nafnið sem hán valdi sér þá skaðar það engan. Kannski marðist egóið hjá mömmunni aðeins, ég hafði vandað mig mikið við nafnavalið og valið ákveðið nafn af ástæðu, en mamman hefur harðan skráp og ég jafnaði mig fljótt.

Eitt af því sem hán lenti svo í var að þau ungmenni sem voru í því að áreita hán léku sér að því að kalla hán skírnarnafninu, vitandi að það sveið.

Fræðsla og samtal


Við sem töldum að búið væri að uppræta fordóma dottuðum kannski aðeins á verðinum. Við töldum sigurinn mögulega að einhverju leyti unnin og nú yrði ekki snúið til baka, enda vissi fólk betur. Það er búið að bíta okkur í rassinn enda eru börnin okkar í samskiptum við alls konar einstaklinga og neyta efnis frá alls konar fólki með alls konar skoðanir og því miður er fólk þarna úti sem býr til efni sem lítillækkar hinsegin fólk og þeirra tilvist. Því miður er hatur út í jaðarsetta hópa orðið eitthvað sem er nánast sjálfsagt að setja fram og tjáningarfrelsinu beitt ef einhver fettir fingri út í það. Þegar börnin okkar horfa á slíkt myndband pikkar algóriðminn það upp og matar þau af fleirum slíkum.

Það er því mikilvægt að ræða bæði hvernig samfélagmiðlar og efnisveitur mata okkur en líka að tala um hinseginleikann og hversu eðlilegur hann er, að allir eigi sama tilverurétt og hversu fallegt litrófið er. Ég hef opnað á þetta spjall með því að ræða einhvern hinsegin einstakling okkur nærri og sagt að sumum fyndist að viðkomandi ætti að vera einhvern veginn allt öðruvísi eða mögulega bara ekki til. Það opnar umræðuna og maður sér hvernig barnshugurinn, sem er fordómalaus þar til honum er kennt annað, skilur ekki að fólk leyfi sér að hugsa þannig um aðra.

Í skólanum voru ákveðnir einstaklingar sem neituðu að taka þátt í þeirri fræðslu sem boðin var, eða mættu og voru með skæting, það voru þeir sem gengu hve harðast fram gagnvart mínu ungmenni. Þrátt fyrir það þá er ekki hægt að segja að engir sigrar hafi verið unnir. Hin ungmennin mættu og hlustuðu, ræddu og pældu. Á lokaári þeirra í skólanum hafði einn unglingurinn uppi niðrandi ummæli um ungmennið mitt en hinir bekkjarfélagarnir stóðu upp fyrir háni og vörðu hán og bentu þessum einstaklingi á að það væri bara kjánalegt að haga sér svona og að hann vissi betur. Það má vel vera að öll fræðslan hafi ekki náð til hans, en hún náði til þeirra og styrkti þau í að standa saman gegn fordómum og óréttlæti. Í fyrsta skipti tók enginn undir, enginn flissaði eða leit undan. Samstaðan valdelfdi og styrkti ungmennið mitt og hán fann að í jafningjahópnum gat hán verið það sjálft, öruggt og samþykkt.

Ég veit að hinsegin fólk verður stundum þreytt á að vera spurt út í hinseginleikann, eiga að svara spurningum og eiginlega vera gangandi alfræðiorðabók um allt sem snertir hinseginsamfélagið. Það geta nefnilega flestir „googlað“ og lesið sér til gagns.

Sem foreldri hinsegin einstaklings, sem ég vil styðja, vernda og lyfta upp er ég hinsvegar alltaf til í samtalið, ég svara öllum þeim spurningum sem ég get og fræði þau sem það vilja. Það er mitt framlag. Kannski ekki stórt en ég trúi því að hvert samtal skipti máli. Sýnileikinn gerir það líka. Ég veit að í hvert skipti sem hinsegin einstaklingur er í þætti, bíómynd eða hljómsveit vermir það hjarta kvársins míns. Að sjá hinseginleikann í hversdeginum sem og í gegnum ýmiskonar miðla hjálpar til við að upplifa það að tilheyra og að vera hluti af því sem talið er „norm“.

Framtíðin


Ég vona að bakslagið sem við höfum upplifað sé kennslutæki, tæki sem við sannarlega þurftum. Ég vona að í framtíðinni verði hinseginmálefni alltaf í umræðunni svo við lendum ekki á þessum stað aftur. Ég vil líka trúa því að samfélag framtíðarinnar verði fordómalaust og fagni fjölbreytileikanum og lyfti einstaklingum upp fyrir það hverjir þeir eru ekki hvað þeir eru eða hvern þeir elska, enda hefur það ekkert að gera með þá manneskju sem viðkomandi hefur að geyma. Mig langar að trúa því að þessi framtíð sé nálæg en ég veit að við þurfum að vinna fyrir því.

Framtíð okkar fjölskyldunnar er björt. Kvárið mitt er búið að þurfa að ganga í gegnum ýmislegt sem önnur ungmenni á háns aldri sleppa blessunarlega við. Háni hefur liðið illa og fundið fyrir útskúfun. Hán er samt heppið og hefur alltaf átt góðan og þéttan vinahóp og fjölskyldu sem styður hán í einu og öllu. Ég er því búin að fylgjast vanmáttug með barninu mínu berjast við fordóma í samfélaginu, ég er búin að styðja hán í gegnum erfiðar tilfinningar og djúpa dali en ég horfi líka í dag á ungmenni sem er með mikla réttlætiskennd, gott við þá sem minna mega sín, er skapandi, opið og fagurt að innan sem og utan. Það er það sem skiptir máli, að einstaklingurinn sé góð manneskja, allt annað kemur einfaldlega engum við.