Starfsmannaleiga dæmd til að greiða tólf Lettum vangoldin laun

Starfsmannaleigan Nordic Construction Line (NCL) í Lettlandi, sem er í eigu sömu manna og GT verktakar í Hafnarfirði, var í Héraðsdómi Austurlands í gær dæmd til að greiða tólf lettneskum verkamönnum vangoldin laun. Þeir höfðu unnið við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar. Nema greiðslur rúmum þremur milljónum króna og eru vegna launa á uppsagnarfresti og annarra vangoldinna launa.

szepytiak_og_jaroslaw_vi_sjkraskli__krahnj.jpg

Í október í fyrra kvörtuðu lettnesku starfsmennirnir í tölvupósti til AFLs Starfsgreinafélags yfir því að þeir fengju ekki greidd umsamin laun frá vinnuveitanda sínum, sem þeir töldu vera GT verktaka. Höfðaði lögmaður AFLs, Eva Dís Pálmadóttir hdl, einkamál fyrir hönd starfsmannanna, en málið fór einnig til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, þar sem það er enn til meðferðar. Deilur spruttu upp milli AFLs og GT verktaka/NCL og blandaðist Vinnumálastofnun í málið um tíma, þegar stofnunin gaf fyrirtækjunum frest til að greiða laun. Ábyrgðist þá Arnarfell greiðslur, en það er nú gjaldþrota. Í byrjun þessa árs náðist samkomulag utan rétta milli aðila um að mönnum tólf, auk eins að auki, skyldu greiddar rúmar fjórar milljónir króna nettó vegna launa í októberbyrjun 2007 og á uppsagnarfresti. Ágreiningur sem út af stóð var í kjölfarið borinn undir dómstóla og var GT/NCL stefnt í mars 2008 vegna brota á kjarasamningum. Brotin fólu meðal annars í sér að starfsmenn voru látnir kvitta fyrir móttöku hærri launa en þeir í raun fengu og féllst héraðsdómur Austurlands á málatilbúnað starfsmannanna hvað þetta atriði varðar.

 

Kröfur fyrir dómi í málunum tólf voru þríþættar.
Í öllum málunum var kjarni ágreiningsins sá að starfsmennirnir héldu því fram að þeir hefðu verið látnir kvitta fyrir móttöku hærri útborgunargreiðsla í byrjun september og byrjun október 2007 en þeir raunverulega höfðu fengið. Taldi dómurinn sannað með framlagningu gagna og framburði vitna að svo hefði verið og féllst að fullu á kröfur mannanna vegna þessa, sem samtals námu tæpum tveimur milljónum króna.

Í þremur málanna var líka ágreiningur um laun á uppsagnarfresti og hvort starfsmönnum sem þar um ræddi hefðu mátt leggja niður störf sín við þær aðstæður sem upp voru komnar. Féllst dómurinn á sjónarmið starfsmannanna og tók að fullu til greina kröfur þeirra um laun á uppsagnarfresti sem samtals námu rúmlega 1.100 þúsund krónum.

Að lokum var líka uppi ágreiningur í þremur málanna um það hvort ráðningartími þriggja starfsmanna hefði verið u.þ.b. 1,5 mánuður eða 3 mánuðir. Sýknað var af kröfum er varða þennan lið.
Þannig unnust níu af málunum tólf að fullu, en þrjú þeirra að hluta.

Starfsmönnunum var að auki dæmdur málskostnaður upp á samtals eina milljón króna.

 

Lögmaður AFLs segir að dómurinn sýni hve erfitt það geti verið fyrir starfsmenn að henda reiður á hver raunverulegur vinnuveitandi þeirra er. Jafnframt sé ljóst að dómarnir geti gert alla innheimtu krafna og eftirfylgni þeirra örðugri en verið hefði ef GT verktakar hefðu verið dæmdir til greiðslu. Lögmaðurinn tekur þó fram að alls óvíst sé að til einhverra innheimtuaðgerða þurfi að koma, en vel geti verið að eigendur og stjórnendur NCL, sem eru þeir sömu og eiga og stjórna GT verktökum, hlutist til um að fyrirtæki þeirra greiði þær kröfur sem það hefur verið dæmt til að greiða.

Ljósmyndir: Haustið 2007 þegar stíft var fundað í Hraunaveitu vegna málefna starfsmanna GT./Steinunn Ásmundsdóttir

oddur_fririksson_yfirtrnaarmaur_kar.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.