Skip to main content

Sofðu vel á Austurlandi

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.06. júní 2025

Landssamband eldri borgara (LEB) ásamt fjölda aðila í heilbrigðisþjónustu á Íslandi stendur um þessar mundir fyrir vitundarvakningu um svefn og svefnlyfjanotkun eldra fólks sem gengur undir nafninu Sofðuvel-átakið. Markmið átaksins er að vekja athygli þína á öruggum langtímalausnum við svefnvanda í stað svefnlyfja.


Við undirrituð fögnum framtaki LEB. Með þessum skrifum viljum við vekja athygli Austfirðinga á átakinu og hvetja þá til þátttöku á grunni fyrri árangurs í málaflokknum.

Sofðu vel-átakið er af kanadískri fyrirmynd, en rannsóknir þar hafa sýnt að í byrjun meðferðar hjálpa svefntöflur fólki að meðaltali aðeins að sofna 10-15 mínútum fyrr og sofa 20-25 mínútum lengur. Verkun lyfjanna dvínar svo með tímanum en sömu sögu er ekki að segja um aukaverkanirnar.

Áhrif svefnlyfja geta dregið úr lífsgæðum daginn eftir töku þeirra vegna þreytu, jafnvægisleysis og minnistruflana, en einnig til langs tíma. Byltur og önnur slys geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Auk þess hafa rannsóknir sýnt hærri tíðni heilabilunar meðal langtímanotenda svefnlyfja en hjá viðmiðunarhópum.

Í mælaborði lýðheilsuvísa embættis landlæknis má finna tölfræði yfir notkun slævandi lyfja og svefnlyfja greint niður eftir landssvæðum. Í þessum flokki eru m.a. lyfin Imovane, Silnoct og Heminevrin, en einnig Melatonin. Austurland sker sig úr eins og sjá má á myndinni. Árin 2016-2023 var fjöldi afgreiddra dagskammta á hverja 1000 íbúa á dag umtalsvert lægri á Austurlandi en á landsvísu.

Æskilegt er að viðhalda þessari jákvæðu stöðu á Austurlandi og helst að bæta hana. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni sýnist notkun svefnlyfja á Austurlandi hafa verið hlutfallslega minni en landsmeðaltal, mun lengur en framangreind mynd sýnir. Áleitin er sú spurning hvað valdi því. Við getum ekki svarað því en þó velt upp mögulegum hluta skýringa. Árið 2011 hófst innleiðing þess fyrirkomulags hér eystra, að til að endurnýja lyfseðil vegna svokallaðra ávana- og fíknilyfja, þar með talið svefnlyfja, þurfti að eiga milliliðalaust samtal við lækni á stofu eða í síma. Á nokkrum árum varð þetta regla á öllum starfsstöðvum HSA og er enn. Eigi þetta þátt í minni notkun svefnlyfja á Austurlandi, eins og við teljum, þá hafa íbúar Austurlands lagt lýðheilsu svæðisins lið með aðkomu sinni og notkun úrræða, annarra en lyfja, samkvæmt fyrrnefndri endurnýjunarreglu.

Reynsla Kanadamannanna hefur sýnt að það að valdefla eldra fólk til að spyrja spurninga um svefnlyfin sín skipti sköpum til að draga úr notkun. Notendur svefnlyfja á Austurlandi eru vanir að nýta sér eftirfylgd og samtal við starfsfólk heilsugæslunnar. Við vonum að það auðveldi þeim að nýta sér aðrar og öruggari lausnir en lyf við svefnvanda sínum til lengri tíma.

Kynntu þér endilega fræðsluefni átaksins, sæktu bæklinga á næstu heilsugæslustöð eða apótek og kíktu inn á sofduvel.is. Óháð lyfjanotkun getur það nýst öllum sem vilja tileinka sér aðrar og öruggari lausnir en lyf við svefnvanda. Á sofduvel.is má einnig finna upplýsingar um fyrirtækið Betri svefn og samstarf þess við m.a. HSA sem þú getur ef til vill nýtt þér og um fyrirtækið Prescriby sem HSA er að hefja samstarf við, sem veitir aðgang að hugbúnaði til að styðja við niðurtröppun lyfja. Þá geta öll pantað tíma hjá læknum eða lyfjafræðingi HSA til að ræða sinn svefn og svefnlyfjanotkun. Góður svefn er undirstaða góðrar líðanar og heilsu og því sjálfsagður liður í heilsueflingu hvers og eins. Kjósir þú það, þá vill starfsfólk heilsugæslunnar þinnar starfa með þér að því marki!

Höfundar starfa hjá heilbrigðisstofnun Austurlands.
Guðrún Svanhvít S. Michelsen, klínískur lyfjafræðingur
Pétur Heimisson, heimilislæknir
Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur


Notkun slævandi lyfa eftir landshlutum og árum úr mælaborði lýðheilsuvísa landlæknis.

slaevandi lyf graf