Sjónarhorn leikskólans
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 12. desember 2024
Vistunartími barna hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin og eru börn á Íslandi með lengsta vistunartímann hvort sem horft er til nágrannalandanna eða lengra. Á meðan er Ísland eina Evrópuríkið sem hefur náð að stytta vinnutíma launafólks verulega á síðustu árum með það markmið að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Börn á aldrinum eins til sex ára fá fjögurra vikna sumarfrí, fá hvorki vetrar- né jólafrí og eru oft á tíðum með meira en 40 klst. vinnuviku. Við í leikskólanum sjáum hvað langur vistunartími getur haft streituvaldandi áhrif á börnin.
Að sjálfsögðu eigum við að bjóða upp á mannsæmandi vinnuaðstæður, minnka hávaða, auka við rýmið og bæta laun leikskólakennara en það breytir því ekki að vistunartími barna verður að minnka alveg eins og okkar vinnutími er að minnka. Það er eitthvað rangt við kerfi þar sem vinnutími barna frá eins til sex ára er lengri en fullorðinna.
Starfshópur leikskólamála í Fjarðabyggð
Ég sat í starfshóp sem fjallaði um leikskólamálin í haust. Þar fengum við góðar kynningar frá hinum ýmsu sveitarfélögum, farið var yfir hvað hafði gengið vel og hvað mætti betur fara.
Akureyri og Kópavogur eru þar á meðal og nýlega gerðu óháðir aðilar, þær Anna Lísa lektor í HA og Svava Mörk lektor í HÍ, rannsókn á starfsumhverfi leikskólanna eftir gjaldskrárbreytingar. Í rannsókninni kemur fram að rúmlega 80% stjórnenda og yfir 74% starfsfólks upplifa breytingarnar á jákvæðan hátt.
Starfsfólk leikskólanna er orðið þreytt eftir langvarandi álag, Covid tíminn tók á þar sem við í Fjarðabyggð héldum leikskólunum opnum alla daga og öll börn gátu mætt. Árið 2021 hófst svo vegferðin um betri vinnutíma starfsfólks. Fjarðabyggð var svo sannarlega eitt af fáum sveitarfélögum sem bættu við stöðugildum til að mæta þeirri styttingu þrátt fyrir að gefið hafi verið út að þetta ætti ekki að kosta neitt. Í nóvember síðastliðnum tók síðan gildi 36 klst. vinnuvika fyrir allt ófaglært starfsfólk leikskóla en Kennarasambandið hóf þá vegferð fyrir tveimur árum. Fjarðabyggð hefur einnig verið eitt af fáum sveitarfélögum sem greitt hefur starfsfólki matarálag sem getur hækkað laun starfsmanna um tæpar 45 þúsund kr. Þessar aðgerðir hafa því miður ekki náð tilskildum árangri.
Í fyrrnefndri rannsókn kom fram að starfsfólkið á Akureyri og í Kópavogi upplifi að börnunum líði betur, enda er minna áreiti þegar fækkar í rýminu og skipulagið er betur rammað. Börn þarfnast þess að hafa ramma og rútínu í sínu lífi. Það bætir ekki starfsaðstæður barna að ráða inn unglinga eða afleysingarfólk til að koma og leysa af vinnutímastyttingu, undirbúning kennara og skammtímaveikindi í tíma og ótíma. Foreldrar vilja fá að vita hvernig dagurinn hjá barninu var og barnið vill hafa ramma og rútínu. Það getur reynst erfitt þegar allt að sex starfsmenn úr ýmsum áttum koma inn á eina deild yfir daginn. Einnig fer mikill tími stjórnenda í nýliðaþjálfun sökum mikillar starfsmannaveltu, sem bitnar aftur á faglega starfinu.
Á fundum starfshóps leikskóla í haust áttum við ágætis umræður um vilja okkar leikskólastjóranna og í hinum fullkomna heimi myndum við vilja bæta við lokunardögum eða loka leikskólanum alla föstudaga kl. 12:00. Þannig gætum við komið til móts við vinnutíma starfsfólksins og gefið öllu starfsfólki kost á undirbúningi til að bæta faglega starfið og veita börnunum þann stöðugleika sem þau þarfnast.
Einnig komu upp hugmyndir að horfa til Svíþjóðar og fleiri Norðurlanda með því að skerða leikskólapláss barna ef foreldrar eru í fæðingarorlofi eða segja fólki í vaktavinnu að börnin þeirra megi bara vera í leikskólanum þegar þau eru á vakt.
En við verðum að hugsa um samfélagið í heild, atvinnulífið og einmitt barnafjölskyldurnar okkar sem hafa ekki ráð á að minnka við sinn vinnutíma.
Í þessari gjaldskrá er farinn ákveðinn millivegur, þetta eru hóflegar hækkanir með fjárhagslegum hvata til að minnka vistunartíma barna yfir árið. Sumar fjölskyldur geta stytt vistunartíma barnsins yfir vikuna á meðan aðrar geta nýtt sér skráningardagana. Leikskólinn mun hins vegar svo sannarlega vera opinn fyrir alla þá sem þarfnast þess.
Við viljum ná stöðugleika í leikskólastarfið og efla faglega starfið í framhaldinu. Við náum vonandi leikskólakennurunum okkar aftur inn í leikskólana því við viljum bæta við faglærðu starfsfólki og betrumbæta starfsumhverfi bæði barna og starfsfólks.
Höfundur er leikskólastjóri.