Sjaldan verður víti vörum
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 16. apríl 2025
Í mars síðastliðnum voru fjögur ár liðin frá því að eldgos hófust á Reykjanesi. Eftir því sem þau hafa orðið stærri að umfangi og hraunflæði meira, hefur umræða vaxið um skynsemi þess að beina ekki öllu reglubundnu millilandaflugi Íslands um eina gátt. Gátt sem gæti verið hótað af duttlungum náttúrunnar. Þar höfum við geymt öll eggin í sömu körfu.
Í febrúar síðastliðnum voru þrjú ár síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Hryllingur stríðsins, vel kortlagðir glæpir Rússa og illa dulbúnar hótanir gagnvart fámennum nágrannaríkjum hafa gjörbreytt því ytra umhverfi sem Evrópuþjóðir búa við. Fjölþáttaárásir hafa beinst m.a. að gagnastrengjum víðs vegar í nágrenni okkar og var nýverið í fréttum að Íslendingar þurfi að auka eftirlit með skipaumferð nálægt til dæmis Farice strengnum sem kemur á land í Seyðisfirði. Eftirlitsflug er þó gert út frá Keflavík, eingöngu. Það er öryggisbrestur að því geti verið hótað af duttlungum óvinaþjóðar. Það er ekki klókt að geyma öll eggin í sömu körfu.
Í janúar síðastliðnum tók Donald Trump illu heilli við embætti forseta Bandaríkjanna. Skjótar en óttast var biðu samskipti innan NATO skaða af því. Það sem áður þótti óhugsandi er orðin staðreynd. Hann hefur ráðist að grundvallarhagsmunum bandalagsþjóða með tollastríði. Hann hótar yfirtöku á Grænlandi, með valdi ef verða vill. Hann hefur sáð rökstuddum ótta um viðbrögð Bandaríkjanna við árásum á Evrópuríki, eða skorti á viðbrögðum öllu heldur. Grunnstoðum varnar- og utanríkisstefnu Íslands hefur verið snúið á hvolf. Ísland er ekki lengur undir verndarvæng heldur líklega afskipt og í versta falli hótað, af duttlungum leiðtoga vinaþjóðar. Viljum við hafa öll okkar egg í þeirri körfu?
Síðustu ár hefur mikið verið rætt um innviðaskuld þjóðarinnar. Sú innviðaskuld er ekki bara í formi orkuflutningskerfis, vegakerfis og heilbrigðiskerfis. Hún er líka í formi þess að einungis er ein örugg gátt flugvéla til Íslands og sú gátt er, vegna ytri og innri aðstæðna, ekki fyllilega örugg.
Okkur er nauðsyn að skjóta fleiri stoðum undir varnarmál okkar, hernaðarlegs og borgaralegs eðlis. Hvaðan þeim er sinnt, hvernig og af hverjum. Ein leið til að slá nokkrar flugur í einu höggi væri t.d. að íslensk stjórnvöld semdu við aðrar bandalagsþjóðir í NATO um að byggja upp og reka varnartengda innviði héðan frá Austurlandi. Það mætti gera t.d. undir hatti hernaðarsamvinnu Breta og Norðurlandaþjóðanna í JEF (Joint Expeditionary Force) og ef til vill mætti semja um að landsvæðið og almenn borgaraleg þjónusta við t.d. flugvöll og flotastöð teldist sem framlög Íslands til NATO. Með því móti yrði byggð upp varnargeta Íslands í viðsjálum heimi, nauðsynlegir innviðir sem styrkja borgaralegt öryggisviðbragð og heilbrigðisþjónustu og það tryggt að Ísland væri ekki hagsmunum Bandaríkjanna jafn ofurselt og raunin er í dag. Fleiri egg í fleiri körfum.