Samfélagsábyrgð sveitarstjórnarfólks

„Umhverfisþátturinn er einn af megin þáttum í stefnumörkum hafna Múlaþings og stjórnendum ætlað að vinna samkvæmt því.“ Það var gott að lesa þessi orð sveitar- og hafnarstjóra Múlaþings Björns Ingimarssonar, í Austurfrétt.

Samkvæmt þessu getur Múlaþing ekki tekið á móti sjókvíaeldi, sem er mengandi á allan hátt. Nægir þar að benda á umhverfisógnina/hryðjuverkin, sem eru að raungerast á Vestur- og Norðurlandi. Reynsla annarra landa liggur fyrir og vísindamenn hafa bent á þessa ógn í fjölda ára.

Framkvæmdastjóri SFS fullyrti að burðarþols- og áhættumat, ljósastýring og vöktun fyrirtækjanna tryggði öryggi villta laxins. Nú er komið í ljós að þessi orð hennar eru marklaus. Ekkert af þessu stenst.

Laxalús er vaxandi vandamál í sjókvíaeldi og fyrirtækin sækja stíft í að nota lúsaeitur, sem er skaðvaldur fyrir lífríki hafsins.

Austfirðingar eiga ekki að taka frekari þátt í uppbyggingu þessa mengandi matvælaiðnaðar.

Erfðablöndun er þegar til staðar víða á Austurlandi, mest í Breiðdalsá. Það verður að koma í veg fyrir enn frekari erfðablöndun í ám á Austurlandi, bæði stórum og smáum.

Skorað er á sveitastjórnarfólk að sýna samfélagsábyrgð og virða hana í Múlaþingi. 75% íbúa Seyðisfjarðar vill ekki sjókvíaeldi. Stöndum saman öll sem eitt, verndum umhverfið og verjum í leiðinni samevrópsku höfnina í Seyðisfirði. Umhverfis- og framkvæmdaráð ásamt sveitarstjóra Múlaþings eiga ekki að láta þessa umhverfisógn raungerast fyrir framan nefið á okkur.

Vítin eru til að varast þau. Það er stórmannlegt að skipta um stefnu þegar staðreyndirnar liggja fyrir.

Það væri gott að fá svar frá sveitarstjóra Múlaþings um það hvort umhverfisstefnan gangi ekki jafnt yfir skaðlegt sjókvíaeldi og olíuleka.

Að lokum spyr maður sig. Af hverju hefur ekkert heyrst frá Guðlaugi Þór umhverfisráðherra, og af hverju hafa fréttamenn ekki spurt hann opinberlega út í þessar umhverfishamfarir af mannavöldum.

Höfundur er brottfluttur Seyðfirðingur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.