Skip to main content

Ríkisstjórnin er að bæta samgöngur um land allt

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.29. ágúst 2025

Kveðjur til ríkisstjórnarinnar sem er að rjúfa kyrrstöðu í borun jarðgangna og bæta verulega í viðhald vegakerfisins til að koma beinlínis í veg fyrir að vegir skemmist koma verulega á óvart


Varaþingmaður Framsóknarflokksins, Jónína Brynjólfsdóttir, sem er jafnframt forseti sveitarstjórnar Múlaþings ætti að líta sér nær með brigslum um svik þegar komið er að uppbyggingu á samgöngumannvirkjum landsmanna á Austurlandi en efstur þar á blaði ætti auðvitað að vera núverandi formaður Framsóknarflokksins.

Á meðan hann fór með samgöngumálin var ekki farið af stað með nein ný jarðgöng og jarðgangagerð hefur legið niðri frá árinu 2020. Vegkerfinu var ekki haldið við eins og fram hefur komið.

Innviðaráðherra mun leggja fram nýja samgönguáætlun í haust til samþykktar á Alþingi og hún mun fá þinglega meðferð, þannig virkar lýðræðið í þingræðisríkinu Íslandi.

Það þarf að fara í stórátak í samgöngumálum á Austurlandi, meðal annars að koma á hringtengingu fjarðanna, byggja upp veginn yfir Öxi, bæta veginn frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar, byggja upp einbreiðar brýr til dæmis við Sléttuá.

Við kjörnir fulltrúar þurfum að standa saman um að efla skilning á öllum þessum framkvæmdum enda er landshlutinn gríðarlega mikilvæg vél í efnahagi þjóðarinnar og margir sem bítast um takmarkað vegafé.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi.