Rannsókn á árstíðabundnu þunglyndi

Hópur rannsakenda á vegum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands vinna nú að rannsókn á skammdegisþunglyndi sem kallast EPIC SAD study. Fyrst og fremst er verið að skoða hvort munur er á hegðun og líðan fólks á milli árstíða.

Líkt og nafnið bendir til finnur fólk oftast mest fyrir skammdegisþunglyndi á veturna þegar skammdegið er sem mest og fer að líða betur þegar vor og sumar nálgast. Þó er hægt að upplifa árstíðabundið þunglyndi (Seasonal affective disorder (SAD)) á öllum árstíðum en mögulegar ástæður hafa ekki verið rannsakaðar að fullu og eru rúm 30 ár frá síðustu rannsóknum á Íslandi. Niðurstöður þeirra rannsókna bentu til að algengi sé um 3,8% hér á landi á meðan það er allt að 10% í löndum á svipaðri breiddargráðu. Það er svo sannarlega athyglisvert, sérstaklega í ljós þess að rannsóknaniðurstöður hafa bent til að birta geti haft áhrif á þróun skammdegisþunglyndis en eru þær niðurstöður þó ekki afgerandi og margt sem bendir til að fleira hafi áhrif. Enn er því möguleiki á frekari rannsóknum til að bæta þekkingu okkar og þá sérstaklega til að þróa og bæta þau úrræði sem boðið er uppá. Nýrri rannsóknir geta styrkt þær eldri en fyrst og fremst tryggja þær að niðurstöðurnar endurspegli íslenskan veruleika í dag.

Markmið okkar er að ná til annars vegar 5 þúsund þátttakenda úr 15 þúsund manna slembiúrtaki þjóðskrár en hins vegar að finna 100 þátttakendur sem upplifa miklar sveiflur í líðan til að taka þátt í áframhaldandi rannsókn þar sem líðan, mataræði, hreyfing, svefn, loftgæði, hugsanavenjur og hegðun er skoðuð betur og á hverri árstíð. Auk þess bjóðum við þátttakendum í heilarafrit til okkar þar sem við skoðum heilabylgjur þátttakenda á algjörlega sársaukalausan hátt. Til að þetta takist þurfum við líka 100 þátttakendur sem upplifa lítið af sveiflum í líðan á milli árstíða fyrir samburðarhópinn okkar. En sá hópur er líka mjög mikilvægur hluti af rannsókninni.

Núna leitum við sérstaklega af þátttakendum búsettum á Austurlandi og í dreifðari byggðum. Hafir þú hvorki fengið símtal né svarað auglýsingu frá okkur viljum við biðja þig að taka þátt í stuttri netkönnun með að smella hér.

Höfundur er meistaranemi í rannsóknartengdu sálfræðinámi við Háskólann á Akureyri og aðstoðarmaður í EPiC -SAD study

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.