R4158A rennur út

Góðir lesendur í Djúpavogshreppi, Múlaþingi og aðrir landsmenn. Í dag rennur út rannsóknarleyfi nr. R4158A, fyrirhuguð virkjun í Hamarsá í Hamarsdal.

Ég skora á íbúa í fyrrum Djúpavogshreppi, kjörna fulltrúa Múlaþings, viðkomandi stofnanir sem landeigendur að hafna öllum virkjunaráformum í Hamarsdal. Taka höndum saman og friða dalinn fyrir spjöllum. Á Austurlandi er raforkuframleiðsla með því mesta sem þekkist, um 135 MWst/íbúa. Ekkert réttlætir það að níða landið til frekari raforkuframleiðslu. Mikilvægara er að dreifa raforkunni af skynsemi og ljúka þrífösun landsbyggðar strax. Eftir stórkostlegt inngrip Kárahnjúkavirkjunar var náttúru Austurlands heitið griðum. Lauslega má áætla án ábyrgðar að glatvarminn frá álverinu á Reyðarfirði sé u.þ.b. 30-50 MW. Að mörgu er að hyggja og hví skyldi náttúran ekki njóta vafans?

Óbyggð víðerni njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Fyrirhuguð virkjun myndi raska votlendi, stöðuvötnum og tjörnum samkvæmt 61. grein náttúruverndarlaga. Sviðinhornahraun er einstakt víðerni sem ber að vernda.

Að eyðileggja Menglaðarfoss, Afréttarfjall, ásamt því að reisa 50 metra háar stíflur er hryðjuverk í fallegum dal.

Í september 2022 varð mikill skaði í Hálsaskógi í óveðri og óhemjumikið af trjám eyðilagðist. Þessi skaði snerti samfélagið djúpt, en er þó ekki óbætanlegur þ.e.a.s hægt er að planta trjám og þau vaxa aftur. Tíminn læknar þar sárin. En vill samfélagið og landsmenn valda óbætanlegum skaða á náttúru Hamarsdals? Ég held ekki. Þyrmum Hamarsdal.

Hætta er yfir Hamarsdal
Hugurinn reikar þar núna
Hliðarnar fögru i háfjallasal
Háska tel ég nú búna

Vægja þeim skulum vist er það satt
Við erum kynslóð sem brýtur
Vonandi geta þær viðjana glatt
Veröld sem barnanna nýtur

Stíflur þær munu standa um hríð
Steypa mun renna í ána
Sú er um aldir seytlaði fríð
Suður um dalinn við blána

Sprengjurnar mola óspilltan stein
Spýtist þar jörð minna áa
Skollituð gutlar, skelfingin ein
Skömm er alþingi háa.

Lónið kaffærir lyngmóa fjöld
Leggst niður bláklukkan víða
Lækirnir þagna er líkkistan köld
Leggst yfir blágresið fríða

Blómin þar deyjandi brotna á hlið
Byltist um hlíðina drullan
Berjast í eðjunni biðja um frið
Bjóðum þeim stuðninginn fullan

Holtasól kramin heilsar ei meir
Horfir mót gröfunnar tönnum
Hellist þar yfir holskeflu leir
Hún verður grafin,af mönnum

Menglaðarfossinn mylja í smátt
Molar á borðum nefnda
Menglöð er hnípin,mun því brátt
Í mannheimum leita hefnda

Menglöð í fjarska mænir á
Meðan að fyllist í lónið
Mennirnir brjóta meiða og slá
Mikið er virkjunar tjónið

Arctic Hydro þig ásælist stíft
Ástkæri Hamarsdalur
Ásókn í gróða,engu mun hlíft
Annar hver maður falur

Upp skuluð rísa Íslandsmenn
„Eigi skal höggva“ dalinn
Náttúran fagra nú skal enn
Næstu kynslóðum falin

Viljir þú sækja wött þín og kraft
Vert‘ ekki i fjallasalnum
Vatnsorku hefur víða haft
Vægðu nú Hamarsdalnum

Hamarsá dynji heil til óss
Hlykkist um dalinn fríða
Henni skal vægja, heimsins góss
Hana má aldrei níða

Virðingarfyllst,
Stefán Skafti Steinólfsson og Hrefna Ólafsdóttir
Ytri-Fagradal, Skarðsströnd, Dalabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.