Popúlismi VG í Múlaþingi nær nýjum hæðum

Undanfarnar vikur höfum við hjá Fiskeldi Austfjarða fylgst með, svo vægt sé til orða tekið, furðulegri umræðu um „gjöf félagsins“ til Múlaþings.

Aðdragandi málsins er sá, að félagið hafði orðið við beiðni hafnaryfirvalda um kaup á nokkrum ankerum sem áttu að nýtast til að festa niður mengunarvarnir vegna El Grillo á Seyðisfirði. Félagið átti ankeri sem ekki lengur uppfylltu búnaðarstaðalinn NS9415. Þar sem félagið gat ekki notað ankerin máttu hafnaryfirvöld í Múlaþingi taka þau endurgjaldslaust frá höfninni á Fáskrúðsfirði.

Því næst var félagið innt eftir því hvort möguleiki væri á að setja niður viðkomandi ankeri þar sem Landhelgisgæslan kæmist ekki strax í verkið. Á sama tíma var sérútbúinn bátur félagsins til slíkra verka, á Seyðisfirði í öðru verkefni og var lítið mál að setja niður ankerin samhliða hinu verkinu.

Alls metur félagið kostnaðinn við framkvæmdina um níuhundruð þúsund krónur. Ekki sex til átta milljónir sem fulltrúar VG í Múlaþingi endurtaka sí og æ í greinum, viðtölum og í færslum á samfélagsmiðlum. Ekki hef ég hugmynd hvar þau gripu þessa tölu, en hún er fjarri sannleikanum eins og margt annað sem kemur úr sömu átt.

Það var ekki ætlun okkar að svara slíkri vitleysu enda dæmir hún sig sjálf og allt heilvita fólk sér hvurslags farsi er hér á ferðinni. En þegar að Pétur Heimisson, fulltrúi VG í Múlaþingi, er farinn að gefa í skyn að um mútur sé að ræða í grein sinni á Vísi þá get ég ekki orða bundist.

Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi, fyrir sameiningu félaganna, hafa stutt myndarlega við íþrótta og æskulýðsstarf, menningar og listalíf á Austfjörðum. Félagið hefur líka stutt við góðgerðar og líknarsamtök, hjúkrunarheimilin og björgunarsveitirnar svo eitthvað sé nefnt. Við erum stolt af því að styðja við bakið á félagastarfi í fjórðungnum líkt og flest fyrirtæki hér á Austfjörðum. Í gegnum árin höfum við sinnt ýmsum verkum og viðvikum fyrir hafnarsjóðina og sjófarendur hér á svæðinu enda er það eðlilegur hluti af því að búa í samfélagi sem er stolt af því að rétta fram hjálparhönd og gera samfélagið okkar enn betra og manneskjulegra.

Það sem er þó sorglegast í þessu öllu saman er að fulltrúar VG í Múlaþingi víla ekki fyrir sér að kasta starfsfólki Múlaþings undir vagninn í krossferð sinni og þeirra helsta uppskera í þessu popúlíska moldviðri er uppklapp frá virkum í athugasemdum.

Dýpri er nú ekki pólitíkin á þeim bænum.

Höfundur er aðstoðarforstjóri Fiskeldis Austfjarða hf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.