Ótrúleg þátttaka í góðgerðarbingói
Í lok febrúar var góðgerðarbingó haldið til styrktar Völu Bjarnadóttur, ungrar konu á Egilsstöðum, sem glímt hefur við ólæknandi krabbamein. Skipuleggjendur voru góðgerðar- og kvennasamtökin Ladies Circle 10; annar tveggja slíkra klúbba á Egilsstöðum, og var viðburðurinn hluti af verkefninu Góðgerðarmars sem klúbbar á vegum Ladies Circle um allan heim taka þátt í og hefur einnig það markmið að gera samtökin sýnilegri í gegnum góðgerðarmál.
Bingóið var vel sótt og fór mæting fram úr björtustu vonum skipuleggjenda. „Við vissum að það væri áhugi, en áttum aldrei von á að smekkfylla Valaskjálf!“ segir Ásta Birna Jónasdóttir, formaður klúbbsins á Egilsstöðum. Rétt tæp 500 manns mættu í hús, bingóspjöldin kláruðust fljótt þó ennþá væri röð inn í húsið. Þá var brugðið á það ráð að óska eftir því við gesti, þar sem þetta væri góðgerðarviðburður, hvort einhverjir sem hefðu mörg spjöld væru til í að láta þau af hendi svo allir gætu haft amk. eitt spjald. Ekki stóð á viðbrögðum og var hægt að endurselja spjöldin svo allir gætu verið með.
Vinningarnir voru ekki af verri endanum og verðmæti þeirra var hátt í 2 milljónir svo það var til mikils að vinna. Fyrirtæki og einstaklingar lögðu sitt af mörkum til að gera bingóið hið glæsilegasta. Fékk hópurinn vinninga frá öllum landshornum svo áhuginn á að styrkja fjölskylduna á þessum erfiða tíma er greinilega mikill. Einnig voru fjölmargir sem ekki komust á viðburðinn, en vildu styrkja söfnunina með fjárframlögum.
Á bingóinu var einnig hægt að versla sér samlokur, nammi og drykki og fór það vel í mannskapinn. Allur ágóði sjoppunnar rann einnig til söfnunarinnar. Alls söfnuðust 2.300.000 þetta kvöld og vill Ladies Circle 10 á Egilsstöðum þakka öllum þeim sem gerðu þennan ógleymanlega viðburð mögulegan. Þá sérstaklega Valaskjálf sem styrkti viðburðinn með því að lána húsið endurgjaldslaust og fyrir ómælda aðstoð á meðan viðburðinum stóð.
Einnig vilja Vala og Arnór þakka kærlega fyrir þennan frábæra stuðning sem samfélagið okkar veitti þeim. Þau eru orðlaus af þakklæti og meyr yfir því hversu mörg falleg hjörtu búa í samfélaginu, það er svo magnað að verða vitni að samstöðu sem þessari.
Ladies Circle eru alþjóðleg góðgerðar- og vináttusamtök fyrir konur á aldrinum 18-45 ára. Einkunnarorð þeirra eru vinátta og hjálpsemi og er markmið þeirra einnig að efla sjálfstæði kvenna, auka víðsýni og umburðarlyndi. Samtökin styrkja bæði innlend og erlend góðgerðarmál sem styðja við markmið samtakanna. Ef þú vilt fræðast meira um samtökin okkar bendum við á heimasíðuna ladiescircle.is.
Stelpurnar í Ladies Circle 10 á Egilsstöðum