Skip to main content

Opið bréf til bæjarráðs Fjarðabyggðar

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.27. júní 2025

Kvenfélagið Nanna í Neskaupstað vill beina athygli bæjaryfirvalda að þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er vegna fækkunar almenningsleikvalla í Neskaupstað. Sú þróun veldur okkur miklum áhyggjum.


Þegar Neskaupstaður sameinaðist Fjarðabyggð árið 1998 var hér fjöldi leikvalla. Nú, tæpum 30 árum síðar, er aðeins einn leikvöllur standandi. Einungis á síðustu þremur árum hafa þrír leikvellir verið fjarlægðir, án þess að nýir hafi komið í þeirra stað. Að sjálfsögðu eru gildar ástæður fyrir brottfalli einstakra leikvalla — einn þeirra fór meðal annars í snjóflóði — en það breytir því ekki að um er að ræða afturför sem dregur úr lífsgæðum íbúa bæjarins. Og það snertir sérstaklega þá sem síst skyldi: börnin okkar.

Í Fjarðabyggð búa nú yfir eitt þúsund börn, þar af um 300 í Neskaupstað. Í þeirra nafni vill Kvenfélagið Nanna hvetja til tafarlausra aðgerða af hálfu bæjarfélagsins í þágu uppbyggingar grænna svæða og leikvalla, bæði í Neskaupstað og í sveitarfélaginu í heild.

Við spyrjum því: Hver er stefna Fjarðabyggðar þegar kemur að uppbyggingu grænna svæða og leikvalla? Er gert ráð fyrir nýjum leikvöllum í aðalskipulagi fyrir Neskaupstað? Ef svo er, hvenær er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist?

Undanfarið hefur verið aukin uppbygging í bænum. Nýir íbúar setjast hér að, brottfluttir koma heim, hús rísa og framtíðin björt. Börnin okkar eiga skilið gott umhverfi til að leika sér og þroskast í. Kvenfélagið Nanna er þess fullvisst að fjölgun leikvalla og tengdra grænna svæða myndi styrkja samfélagið og bæta lífsgæði íbúanna.

Með þessu bréfi viljum við hvetja bæjaryfirvöld til að hrinda í framkvæmd þeim áætlunum sem þegar kunna að liggja fyrir. Ef slík stefna er ekki þegar til staðar, krefjumst við þess að hún verði mótuð og að uppbygging leikvalla og grænna svæða verði sett í forgang.

Við hlökkum til skýrra og upplýsandi svara.

Virðingarfyllst,
Fyrir hönd Kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað
Stefanía Helgadóttir, formaður