Opið bréf til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs um málefni tónlistarskóla

Thorvald Gjerde tónlistarkennari og tónlistarmaður á Fljótsdalshéraði vill leggja sem bestan grundvöll að kennslu í tónlist og öðrum listgreinum á Héraði, með því að skipuleggja vel og nýta peninga og fagfólk til fulls og efla þannig blómlegt listalíf sem mest. Hann sendir bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hér opið bréf um málefnið.

masonhamlintuningpins.jpg

Bréf til Bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs

Eftirfarandi bréf var skrifað fyrir bæjarstjórnarfund Fljótsdalshéraðs miðvikudaginn 5. nóvember síðastliðinn. Í því koma fram hugmyndir um mál sem var á dagskrá og snýr að nýjum listaskóla og nýju skipulagi tónlistarkennslu í sveitarfélaginu. Ég hafði samband við forseta bæjarstjórnar með ósk um að fá að leggja það fyrir bæjarstjórn undir umræddu máli. Hún bað mig að koma bréfinu til bæjarstjóra og ætlaði svo að meta hvort það hefði eitthvað fram að færa. Í ljós hefur komið að bréfið var ekki lagt fram á fundinum þegar málið var tekið fyrir og samþykkt. Við fyrirspurn frá mér hvers vegna ekki, var svarið að mitt tækifæri hefði verið í fræðslunefndinni en ekki á þessu stigi. Það er sennilega rétt formlega séð en einnig er rétt að taka fram að þetta mál var ekki lagt fyrir og rætt við tónlistarskólastjóra og -kennara í sveitarfélaginu á undan fræðslunefndarfundi og auglýst tímanlega. Sjálfur fór ég erlendis fimm daga fyrir þennan fund án þess að vita neitt.

Vegna þess að ég get ekki annað séð en að í bréfinu komi fram gagnlegar ábendingar í þessu stóra og mikilvæga máli þegar til framtíðar er litið, er þessi grein birt hér nema orðalagi og stafsetningu hefur verið lagfært lítillega.

Að lokum vil ég ítreka að þetta er ekki skrifað í neinu mótþróaskyni heldur er ætlun mín að fá umræðu um málið þar sem við sem vinnum í þessu dags daglega komum fram með okkar skoðanir líka. Annars er markmið mitt, reikna ég með, það sama og hjá öllum sem koma að málinu: Að leggja sem bestan grundvöll að kennslu í tónlist og öðrum listgreinum á Héraðinu með því að skipuleggja vel og nýta peninga og fagfólk til fulls og efla þannig blómlegt listalíf sem mest.

Hugleiðingar um breytt tónlistarnám á Fljótsdalshéraði

Nýlega hefur verið birt greinargerðin “Stofnun listaskóla og skipulag tónlistarnáms á Fljótsdalshéraði -greinargerð og tillögur starfshópa-”. Málið var tekið til umræðu og tillögurnar samþykktar á fræðslunefndarfundi 21. október síðastliðinn. Ég er áheyrnarfulltrúi tónlistarkennara en var á þeim tíma í námsferð til útlanda og vissi ekki að málið yrði tekið fyrir og gat heldur ekki tekið þátt í umræðunni um það. Þess vegna leyfi ég mér að setja hér á blað nokkrar hugsanir og ábendingar.

Hér er mjög margt jákvætt og gott en líka ýmislegt sem þarf að hugsa betur að mínu mati.

Tvö stór göt eru í greinargerðinni, sem var aðalverkefni annars starfshópsins að skoða:

Það er mjög margt og gott sagt um að þróa og gera aðstæður fyrir tónlistar- og aðra listakennslu betri en skýr fagleg rök fyrir sjálfri sameiningu tónlistarskólanna vantar og markmið hennar eru líka mjög óskýr. Spurningunni hvers vegna á að sameina er ekki svarað. Bara rök fyrir faglegum og samfélagslegum áhrifum listakennslu og starfi eru lögð fram, sem auðvitað er mjög jákvætt og mikilvægt í sjálfu sér.

Ekkert er lagt fram um fjárhagsleg áhrif sameiningar og breytinga, engar tölur lagðar fram nema yfir húsnæði nýs listaskóla. Ekki er hægt að fara í svona breytingar án þess að vita eitthvað um kostnað.

Þessi þættir munu breytast við sameiningu:

- Aukinn kostnaður vegna aukinnar stjórnsýslu, stærri skóla og fleiri stjórnenda.

- Kennarar eiga rétt á akstursstyrk milli skóla á sama degi eða að heiman og í annan skóla en fastaskólann á öðrum degi

- Kennarar í 100 % stöðum í einum skóla þurfa að fá yfirvinnulaun í öðrum skóla

Auðvitað er hægt að forðast stóraukinn kostnað með sérstakri skipulagningu til þess að halda kostnaði niðri en það mun þá binda möguleikana á að nýta fagfólk til fulls, eins og ætlunin er.

Athugasemdir við tillögur frá starfshópunum:

Það er mjög jákvætt að stofna nýjan skóla, Listaskóla Fljótsdalshéraðs og opna fyrir fleiri listgreinar. Þetta er eins og hefur gerst í Noregi. Að hann verði bakhjarl tónlistarkennslu í dreifbýlisskólunum er mikilvægt og flott. Hann gæti orðið til fyrirmyndar ef vel tekst til.

Að þróa samstarf við menntaskólann, frábært! Að mínu mati hefur lengi mátt auka samstarf og samskipti milli tónlistarskólanna og menntaskólans. Samstarf við listabraut þarna er nauðsynlegt til að þróa góðan tónlistar- og núna listaskóla til framtíðar.

En ég set spurningarmerki við að stofna nýjan listaskóla, það á að byggja húsnæði en samt á að kenna á mismunandi stöðum á Egilsstöðum. Það væri gott ef öll kennsla í öllum greinum gæti farið fram í nýju húsinu en auðvitað líka í menntaskólanum þar sem það er betra vegna samstarfs. Spurningin er þá: Á ekki bara að byggja menningarhús hér, svo hægt sé að samnýta þetta allt og einnig fá þau hvetjandi áhrif sem það mun hafa á hvort annað?

Að breyta skipulagi og starfsemi í skólum utan Egilsstaða er varhugavert vegna þess að tónlistarskólunum í Fellabæ og í Brúarási hefur gengið sérstaklega vel undanfarið og maður á að hlúa vel að því sem gott er og virkar vel. Don´t break a winning team!” Reynslan á Eiðum og á Hallormsstað sýnir líka að tónlistarkennslan minnkaði mikið eftir sameiningu við Egilsstaði. Hættan í þessu er miðstýring og miðjan hugsar ekki eins vel um úthverfin og úthverfin sjálf, samanber í Reykjavík hugsa menn ekki eins vel um okkur og við gerum sjálf.

Að leggja tónlistarskóla undir grunnskóla er líka varasamt. Þeir verða þá nokkuð háðir áhuga skólastjóra á tónlist, samanber reynslu af tónmennt, sem hefur verið algjört olnbogabarn í grunnskólum landsins.

Út frá þessu er niðurstaða mín:

Að byggja á nýjan listaskóla og þróa hann ásamt því að efla samstarf við menntaskólann sem mest.

Að kanna betur hvaða áhrif sameining tónlistarskóla í sveitafélaginu mun hafa, faglega og fjárhagslega, og hugsa dæmið betur á vandlegum forsendum.

Torvald Gjerde, áheyrnarfulltrúi tónlistarkennara

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.