Örstutt um mikilvægi listnáms

Ég gæti örugglega fundið sjúskaðan kantstein einhvers staðar í bænum mínu til að kvarta undan eða orðið brjálaður yfir lausum hundi en það er miklu skemmtilegra að hrósa því sem vel er gert.

Í sumar hefur dóttir mín sótt listasmiðjur í Fjarðabyggð í hipphoppi, ljósmyndun og svo síðast í raftónlistarsmiðju. Þegar ég sótti hana í eitt skiptið var mér sagt að þau hefðu verið að taka upp umhverfishljóð, hlaða þeim upp í hljóðvinnsluforrit, spila þau afturábak, „afskræma“ þau og svo framvegis. Með öðrum orðum: Þau voru að búa til tilraunatónlist frá grunni. Bókstaflega. Ég var svo gott sem „blown away“ - svo ég sletti - og það fyllti mig alveg sérstaklega góðri tilfinningu að keyra hana heim á Reyðarfjörð frá Norðfirði og hlusta á hana lýsa þessu í smáatriðum. Fyrst og síðast var ég ánægður fyrir hennar hönd en svo var ég bara að rifna úr stolti líka. Að dóttir mín, átta ára, væri praktíserandi listamaður þó ef ekki nema bara part úr degi! Stórkostlegt!

En sem sagt, námskeiðin í sumar veittu henni mikla ánægju og hefði það staðið til boða hefði hún örugglega viljað vera í listasmiðjum alla daga, frá morgni til kvölds, í allt sumar.

Sem foreldri barns í Fjarðabyggð finnst mér full ástæða til að þakka sveitarfélaginu, og kannski sér í lagi Menningarstofu Fjarðabyggðar, sérstaklega fyrir þetta framtak. Vonandi er þetta einungis byrjunin á frekari þróunarvinnu þar sem aðgengi barna og unglinga í Fjarðabyggð að listum og listsköpun verður eflt. Ég bara hreinlega get ekki beðið eftir að Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fari að taka að sér stærra hlutverk í listmenntun barna og unglinga í Fjarðabyggð. Það mun hafa mikið að segja.

Að sinna þessum málum er mikilvægt af svo mörgum ástæðum:

Í fyrsta lagi er þetta forvarnarmál því ég veit af reynslunni að það getur verið snúið að vera unglingur með lítinn áhuga á knattspyrnu eða öðru æskulýðsstarfi sem hefð er fyrir og nýtur virðingar og stuðnings í samfélögum eins og okkar. Hættan er sú að börn og unglingar, hvers hugur stefnir í aðrar áttir, verði einhvers konar „afgangsstærð“ í samfélaginu og geti lent í erfiðleikum að finna kröftum sínum og áhugamálum farveg. Slíkt er ávísun á gremju og vonbrigði. Og við erum ekkert að tala um eitt eða tvö börn. Við erum að tala um hóp af krökkum sem eiga það skilið að þeim sé sýndur áhugi og skilningur.

Menningarstarf eykur staðarvitund fólks. Styrkir tengslin við heimabæinn, eykur væntumþykju fyrir svæðinu og skapar góðar minningar. Aftur tala ég af reynslu. Hefði ég ekki fengið útrás fyrir sköpunarþörfina (svo ekki sé minnst á félagsskapinn) á hljómsveitaræfingum í Neskaupstað í kringum 1990 er ég ekki viss um að ég byggi hér í dag.

Og svo er það auðvitað efnahagslegi ávinningurinn. Listir og sköpun ýta undir áhuga á skapandi greinum sem munu hafa sífellt mikilvægara hlutverki að gegna í framtíðinni sem aflvaki nýsköpunar og þróunar.

Eitt lókal dæmi um efnahagsleg áhrif lista- og menningarstarfsemi á Austurlandi eru tónlistar- og menningarhátíðir í landshlutanum eins og LungA, Bræðslan og Eistnaflug sem draga til sín ferðamenn og skapa alls konar tækifæri fyrir okkur, auka sýnileika landshlutans í fjölmiðlum og þjóna þannig mikilvægu kynningar- og markaðshlutverki.

Það er ekki tilviljun að menningarstarfsemi er gert hátt undir höfði í Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044 sem verður vonandi samþykkt af kjörnum fulltrúum á Austurlandi í haust.

Ég gæti haldið áfram að nota þessi námskeið sem stökkpall til að fabúlera um mikilvægi menningarmála fyrir sveitarfélagið og landshlutann en ég ætla að láta staðar numið. Mér finnst þetta borðleggjandi en stundum þarf að benda á hið augljósa.

Höfundur er foreldri á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.