Nýjar áherslur fyrir málefni dreifbýlis

Frá sameiningu hefur verið unnið ötullega að því að ná utan um verkefni okkar nýja sveitarfélags. Margt hefur áunnist og öllum augljóst hvað kosti sameiningin hefur. Það má þó segja að það sé margt ógert, sameiningu er ekki að fullu lokið.

Þar hafa aurskriður og heimsfaraldur sett mark sitt á forgangsröðun verkefna á þessum stutta tíma sem liðinn er frá sameiningu. En auk breytinga á forgangsröðun verðum við að gefa okkur tíma, vinna hlutina vel og af fagmennsku.

En nú er komið að dreifbýlinu. Dreifbýli sveitarfélagsins er það sem tengir byggðakjarna þess saman og sveitarfélagið getur ekki blómstrað nema íbúum þess alls sé sinnt af metnaði. Þetta vitum við, okkar fólk þekkir aðstæður og er tilbúið að standa með dreifbýlinu, rétt eins og þéttbýlinu.

Það þarf að bæta vetrarþjónustu á vegum, það er öryggismál og auðveldar íbúum dreifbýlisins, ungum sem öldnum, að sækja skóla, atvinnu og þjónustu í byggðakjarna. Leggja þarf ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn um sveitir og ýta á eftir um bætt farsímasamband. Þó þessi mál séu ekki öll í valdi sveitarfélagsins skiptir máli að sveitarstjórnarfólk beiti sér gagnvart þeim. Endurskoða þarf framkvæmd og eftirlit með fjallskilum, samræma reglur og tryggja að gerðir séu samningar vegna varg eyðingar.

Mikilvægt er að nálgast áskoranir dreifbýlisins með heildrænum hætti út frá þörfum þeirra í mismunandi málaflokkum sveitarfélagsins. Við í Framsókn viljum ráða atvinnuþróunarfulltrúa til að vinna að málefnum dreifbýlisins innan Múlaþings, vera svæðunum innan handar m.a. með íbúafundum. Slíkt myndi auðvelda okkur að takast á við mismunandi áskoranir sem dreifbýlissvæðin okkar glíma við, styrkja það flotta starf sem þar er unnið og þá verðmætasköpun sem þar á sér stað.

Höfundur er leiðsögumaður og bóndi auk þess að skipa 4 sæti á lista Framsóknar til sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.