Ný Norðfjarðargöng gera daglegt líf okkar öruggara og auðveldara en líka mun skemmtilegra

Samgöngur eru stór hluti af okkar daglega lífi enda höfum við þörf fyrir að ferðast á milli bæjarkjarna, sveitarfélaga og landshluta. Það verða því sannarlega breytingar á högum okkur Austfirðinga þegar Norðfjarðargöng verða vígð þann 11. nóvember.

Þá þurfum við ekki lengur að sækja, til og frá Neskaupstað yfir 600 metra háan fjallgarð, vinnu, bráða-, fæðingar- og sjúkrahúsþjónustu, flugsamgöngur, framhaldsskólamenntun, menningu, verslun, þjónustu og afþreyingu. Börnin okkar þurfa ekki lengur að sækja æfingar á milli bæjarhluta yfir erfiðan fjallveg við allskonar aðstæður.

Við þurfum ekki lengur að fara í gegnum gömlu Oddsskarðsgöngin sem fyrir löngu eru orðin barn síns tíma, aka yfir blindhæðina miklu sem er í göngunum, bakka, bíða og rekast jafnvel á aðra vegfarendur. Við þurfum ekki lengur að aka bröttu brekkurnar sem oft hafa verið hálar og stundum ófærar.

Langferða- og vörubílstjórar sem flytja fólk, fiskafurðir og aðföng til og frá Neskaupstað, munu lækka olíukostnað sinn um allt að helming, nýta dekkin margfalt betur og afskrifa bifreiðar sínar á mun lengri tíma en þeim var áður unnt. Notkun á nýju göngunum mun því einnig verða gott framlag til loftlags- og umhverfismála. Umfram allt verða ferðir okkar sem um þetta svæði fara öruggari og auðveldari með Norðfjarðargöngum

Með göngunum verður lífið líka skemmtilegra. Þau auðvelda okkur að sækja menningu, verslun og þjónustu á milli staða. Það er gaman að fara á milli bæjarkjarnanna í Fjarðabyggð og eins að heimsækja aðra staði á Austurlandi, njóta fjölbreytni í íþróttum, menningarlífi, afþreyingu, verslun og þjónustu.

Í allri Fjarðabyggð er hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera og glæða þannig líf okkar meiri ánægju. Auðveldara verður að fara sunnudagsbíltúrinn frá Neskaupstað og eins verður bíltúrinn auðveldari til Neskaupstaðar. Með öðrum orðum skapar þessi nýja samgöngubót tækifæri í samfélaginu öllu, fyrir alla, alls staðar og í allar áttir.

Ný Norðfjarðargöng styðja við uppbyggingu á einu þjónustu- og atvinnusvæði. Íbúar Fjarðabyggðar geta verið stoltir af háu framlagi sínu til gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar sem þeir veita með kraftmikilli atvinnuþátttöku og ósérhlífni. Við getum verið stolt af því að hafa tekið höndum saman og sameinað sveitarfélögin sem í dag mynda Fjarðabyggð. Tekið á móti öflugum fyrirtækjum, styrkt þau fyrirtæki sem fyrir voru og stuðlað að frekari uppbyggingu sem ekki sér fyrir endann á.

Þegar öllu er á botninn hvolft værum við ekki að upplifa Norðfjarðargöng í dag ef uppbygging síðustu ára hefði ekki átt sér stað, ásamt sameiningu sveitarfélaganna 1998 og 2006. Endurnýjaður sjúkraflugvöllur, ofanflóðavarnir, uppbygging og endurnýjun hafna, háskólasetur og margt fleira, styður við kraftmiklar samgöngubætur og uppbyggilegt samfélag.

Að lokum er vert að minnast þess á þessum tímamótum að íbúar Fjarðabyggðar, með stuðningi nágrannasveitarfélaganna, hreyfðu við ráðamönnum með skipulögðum viðburðum, íbúafundum, undirskriftum og blaðaskrifum sem sett voru fram með vel rökstuddum og kurteisum ábendingum, sem ollu að mínu mati straumhvörfum í því að ákveðið var að ráðast í gerð Norðfjarðarganga.

Íbúar í Fjarðabyggð hafa á síðustu árum tekið þátt í því að sameina byggðir samfélagsins í eina heild og sýnt ákveðið frumkvæði. Trúin hefur verið sú að sameinuð séum við sterkari, með eitt þjónustu og athafnasvæði að leiðarljósi. Ný Norðfjarðargöng eru svo sannarlega gott og mikilvægt innlegg í þá vegferð.

Til hamingju íbúar Fjarðabyggðar og Austfirðingar allir. Framtíðin er björt.

Höfundur er bæjarstjóri Fjarðabyggðar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar