Myllan ehf. í aðhaldsaðgerðum

Myllan ehf. á Egilsstöðum mun segja upp tíu til fimmtán starfsmönnum fram að áramótum. Verkefnastaða Myllunnar er að sögn forstjórans erfið og stefnt að því að fækka starfsmönnum niður í um 30. Flestir voru þeir 75 í sumar, þar af fjórir verktakar. Verktakar á Austurlandi kvíða því að Vegagerðin hyggist draga í land með útboð stærri verkefna.

Um þrjátíu starfsmenn sem ráðnir voru vegna þáttar Myllunnar í byggingu Fjarðarárvirkjunar eru hættir, enda voru þeir ráðnir tímabundið uns vetur tæki fyrir frekari vinnu við virkjunina. Flestir voru þeir erlendis frá.  

Unnar Elísson, forstjóri Myllunnar ehf., segir reksturinn mjög erfiðan. ,,Það kreppir verulega að hjá okkur eins og víðar í þessum bransa" segir Unnar. ,,Við erum búnir að ljúka því sem við getum gert í Fjarðarárvirkjun á þessu ári og verðum svo að bíða í fimm til sex mánuði eftir að geta byrjað að vinna á heiðinni aftur. Lítið annað er í gangi nema það sem við erum að gera hjá Héraðsverki, þar sem við erum með stórt verkefni norður á Sléttu. Þar höfum við einnig verið í efnisvinnslu og sprengingum."

Unnar segir verkefnastöðuna á Austurlandi slæma. Verkefni sem átti að bjóða út séu á bið. Hann reiknar þó með að ráða inn nýjan mannskap næsta vor þegar vinna við Fjarðarárvirkjun fer aftur í gang á Fjarðarheiði.

Sveitarfélögin framkvæma lítið sem ekkert

,,Sveitarfélögin framkvæma svo lítið að það tekur því varla að hafa orð á því. Alcoa Fjarðaál heldur líka að sér höndum núna. Svo hefur maður heyrt að Vegagerðin ætli að draga saman seglin í verkum á Austurlandi og það er í raun dauðadómur yfir okkur ef ríkið ætlar að skera niður það framkvæmdafé sem var á áætlun á þessu ári, í kjölfarið á þessum pengingalegu þrengingum." Unnar segist hreinlega ekki viss um hvort hann og aðrir verktakar hafi það af yfir veturinn ef ekkert verði að gera. Menn ráði ekki við afborganir af tækjum sínum eftir hinar gríðarlegu gengisbreytingar. Menn muni reyna að selja frá sér tæki, en ekki sé líklegt að kaupendamarkaðurinn sé líflegur. Menn séu komnir upp að vegg.

Ríkisstjórnin með blekkingar

,,Ef ríkisstjórnin hefði ekki verið með þær blekkingar að telja mönnum trú um að framkvæmdafé hækkaði úr 18 og upp í 30 milljarða króna á þessu ári værum við kannski ekki svona illa stödd. Þetta er upp á líf og dauða að lifa veturinn af. Síðasti vetur var mjög slæmur hjá okkur, við stoppuðum eiginlega alveg í fimm mánuði og þolum tæplega annan vetur í sömu sporum. Í sumar var nóg af verkefnum, enda talsvert að gera í vegagerð, auk þess sem við vorum með á Fjarðarheiði."

Unnar telur öll verktakafyrirtæki á Austurlandi með böggum hildar, en síst sé þó verra fyrir smærri verktakana að lifa þrengingarnar af en þá stærri. Þeir minni geti þó fundið sér smærri verkefni sem falli til hjá einstaklingum og bæjarfélögum til dæmis. ,,Þetta er svo ægilega frítt fall sem við erum í núna með hvað erlendi gjaldeyririnn er orðinn dýr. Fjármagnskostnaður af okkar tækjum er orðinn ofsalegur og svo hefur rekstrarkostnaður eins og olían og varahlutir hækkað mikið á mjög fáum mánuðum. Við fengum of skamman aðlögunartíma til að trappa okkur niður."

Vegagerðin hættir við útboð

Vegagerðin ætlaði skv. síðasta framkvæmdafréttabréfi sínu að bjóða út fimm nokkuð stór verkefni á Austurlandi í náinni framtíð. Það virðist liggja í loftinu að ekkert verði af minnsta kosti þremur útboðanna að svo stöddu. Um er að ræða Hólaskarðsleið, tengiveg við Raufarhöfn út frá veginum yfir Sléttu, Norðausturvegur Bunguflói-Vopnafjörður, Hringvegur Litla Sandfell-Haugaá í Skriðdal, Dettifossvegur seinna útboð og breyting á vegi frá Hornafirði og suður um. Líkur eru á að Vegagerðin muni draga í land með vegagerð við Hornafjörð, í Skriðdal og við Dettifoss að svo stöddu. Von er á nýju framkvæmdafréttabréfi innan skamms og ættu málin þá að skýrast.

myllan.jpg

 

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.