Skip to main content

Mikilvægi uppbyggingar Suðurfjarðarvegar, Fjarðarheiðarganga og framkvæmda á Öxi

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.25. febrúar 2025

Austurland gegnir lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi.. Samkvæmt skýrslu um efnahagsáhrif á Austurlandi frá 2023 (Austurbrú/Analytica) leggur landshlutinn til tæpan fjórðung af verðmæti vöruútflutnings á Íslandi, einkum vegna öflugs áliðnaðar, sjávarútvegs, fiskeldis og ört vaxandi ferðaþjónustu. Til að viðhalda þessari verðmætasköpun og stuðla að áframhaldandi vexti er nauðsynlegt að bæta samgöngur og innviði á svæðinu.


Í svæðisskipulagi Austurlands er lögð áhersla á „að uppbygging og viðhald vegakerfis miði að því að það taki að hámarki 60 mínútur að aka frá smærri þéttbýlisstöðunum að einum af fjórum stærstu þéttbýlisstöðunum. Unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi“ sem styður einnig jafnan aðgang að grunnþjónustu og Austurland sem eitt vinnusóknarsvæði. Í því samhengi eru endurbygging Suðurfjarðvegar og nýr vegur um Öxi lykilatriði.

Efnahagslegt vægi Austurlands


Á Austurlandi búa rúmlega ellefu þúsund manns í fjórum sveitarfélögum, en þar eru starfrækt alþjóðlega samkeppnishæf framleiðslufyrirtæki sem skapa verulegar útflutningstekjur. Austfirðingar framleiða tífalt á við aðra á landinu, m.a. vegna álframleiðslu á Reyðarfirði þar sem Alcoa Fjarðaál framleiðir 35,5% alls áls á Íslandi. Árið 2022 nam virði útflutts áls frá Austurlandi 143 milljörðum króna, sem er umtalsverður hluti af heildarútflutningi landsins.

Sjávarútvegur gegnir einnig mikilvægu hlutverki á Austurlandi með fyrirtæki á borð við Kaldvík, Loðnuvinnsluna, Eskju og Síldarvinnsluna í fararbroddi. Samkvæmt skýrslu Analytica var hlutur Austurlands í útflutningstekjum sjávarafurða 86,4 milljarðar króna árið 2022, sem jafngildir 21,7% af heildarverðmæti útflutnings sjávarafurða á landsvísu.

Þrátt fyrir þessa verðmætasköpun eru opinber störf hlutfallslega fá á Austurlandi og uppbygging innviða á lengra í land en í öðrum landshlutum. Austurland er í sjötta sæti af átta landsvæðum þegar horft er til fjölda opinberra starfa miðað við mannfjölda. Það er því brýnt að fjárfesta í samgöngum og innviðum á Austurlandi til að tryggja áframhaldandi efnahagsvöxt og lífsgæði íbúa.

Samgönguframkvæmdir á Austurlandi


Mikil þörf er á nauðsynlegum innviðaframkvæmdum á Austurlandi og þar eru margar framkvæmdir sem hefur verið frestað ítrekað.

Í samgönguáætlun 2020-2034 var lögð áhersla á að hringtengja miðsvæði Austurlands með Fjarðarheiðargöngum, Seyðisfjarðargöngum og Mjóafjarðargöngum. Markmiðið var að bæta samgöngur innan svæðisins og tryggja efnahagslegan stöðugleika og samkeppnishæfni fyrirtækja á Austurlandi.

Framkvæmdir á Öxi eru meðal mikilvægustu samgönguverkefnanna á Austurlandi. Vegagerðin hefur skoðað möguleikann á að skipta verkinu upp í áfanga til að hefja framkvæmdir sem fyrst. Bættar samgöngur um Öxi stytta ferðatíma milli byggðakjarna á Austurlandi og styrkja atvinnulíf og auka útflutningsverðmæti.

Uppbygging og endurbætur á Suðurfjarðarvegi eru einnig dæmi um mikilvægt innviðaverkefni sem beðið hefur allt of lengi. Veginum er best lýst með mörgum blindhæðum, hann er hlykkjóttur og á honum eru fjöldi einbreiðra brúa með lítið burðarþol. Vegurinn er hluti af þjóðvegi eitt og er hann mikil hindrun fyrir íbúa sem og atvinnulíf.

Samgönguáætlun og fjármálaáætlun sýna á spilin


Drög að samgönguáætlun 2024-2038 voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á síðasta ári. Núverandi ráðherra samgöngumála hefur hins vegar lýst því yfir að hann sé ekki bundinn af áformum fyrri ríkisstjórnar og stefnir að því að leggja fram nýja samgönguáætlun í haust.

Þetta þýðir það hins vegar að óvissa ríkir um forgangsröðun framkvæmda og hverjar áætlanir núverandi ríkisstjórnar eru. Verður staðið við fyrirheit um meiri háttar átak í gerð jarðgangna? Verða Fjarðaheiðargöng fyrst í forgangi líkt og í fyrri jarðagangnaáætlun? Hvernig verður staðið að fjármögnun nýrra jarðgangna og yfir hvaða tímabil?

Síðast en ekki síst er enn óljóst hvernig bæði fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar og fjármálaáætlun muni líta út og hvort ný ríkisstjórn sé tilbúin að hefja þjóðarátak í uppbyggingu innviða, sérstaklega á Austurlandi. Við þurfum nefnilega þjóðarátak.

Ef lögð verður fram metnaðarfullar áætlun um uppbyggingu innviða á Austurlandi, munum við í Framsókn styðja slík áform af heilum hug og koma með hugmyndir um hvernig tryggja megi jafnframt aðhald í útgjöldum ríkissjóðs.

Þörf á tafarlausum aðgerðum


Það er öllum ljóst að Austurland hefur setið eftir þegar kemur að vegabótum. Það verðum við í fráfarandi ríkisstjórn að horfast í augu við. Ný ríkisstjórn hefur lofað að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og setja meiri fjármuni í vegakerfið. Ábyrgðin liggur nú hjá nýrri ríkisstjórn að efna loforð um uppbyggingu samgönguinnviða og tryggja efnahagslega hagsmuni Austurlands. Höldum áfram.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi