Orkumálinn 2024

29 Mikið eru þið sniðug

Mikið eru þið sniðug fyrir austan, sagði vinkona mín hér á Húsvík  þegar ég sagði henni hvað hefði verið gaman fyrir austan á  Degi myrkurs og afmæli Hugins.

Já; það eru margir jákvæðir hlutir að gerast á Seyðisfirði,  hótelrými að aukast, fiskvinnsla að hefjast á nýjan leik og ferjusiglingar fyrirhugaðar   allt árið vonandi til frambúðar.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða áhrif þær siglingar geta haft á bæinn okkar.  Við eigum gott skíðaland sem  hægt er að auglýsa sem valkost fyrir ferðamenn,  góð hótel og síðast en ekki síst fallegan bæ umlukinn náttúruperlum.

Sigling ferjunar þýðir að hægt verður að flytja ferskan fisk á markað erlendis,  sem er mikils virði fyrir laxeldi á svæðinu.
Þeir hjá Sæsilfri í Mjóafirði koma væntanlega til með að nýta sér þessar siglingar til útflutnings á ferskum laxi.  Það verður samt ekki vandalaust fyrir þá þar sem  trailerarnir sem flytja fiskinn komast sennilega ekki í gegnum Oddskarðsgöngin.  Hjá Vegagerðinni hafa þeir hins vegar meiri áhyggjur af Fjarðarheiði og Stöfunum.  Þar eru beygjur of krappar jafnvel að sumri til hvað þá í fljúgandi hálku .

Sem sagt;  Seyðfirðingar eru komnir í bestu beinar samgöngur við Evrópu sem þeir hugsanlega komast í,  samgöngur sem bjóða upp á gríðarlega möguleika fyrir Seyðisfjörð og allt landið. Það er sorglegt að hugsa til þess að það sem gæti hamlað því að þær nýtist okkur eins vel og kostur er eru samgöngur á landi. Enn og aftur  hugsar maður;  nú þyrftu göngin að vera komin.

Á leið minni norður,  eftir  ánægjulega helgi á Seyðisfirði hlustaði ég á útvarpið sem ekki er í frásögur færandi.  Var þá mjög skemmtilegt og fróðlegt viðtal við forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar. Ég hlustaði af enn meiri athygli en áður,  þegar sú ágæta kona var spurð út í samgöngur á Vestfjörðum. Hún sagði Vestfirðinga  leggja mikla áherslu á  áframhaldandi jarðgangagerð,  röðin væri komin að þeim aftur þar sem Austfirðingar væru búnir að fá sín göng.

Þetta er ekki rétt.   Þegar Austfirðingar með heiðursmannasamkomulagi við þingmenn Vestfjarða hleyptu  Vestfirðingum að með sín göng,   var ekki verið að tala um nein önnur göng en gömlu T- göngin hér fyrir austan. Tillaga Vegagerðarinnar var sú að þau göng yrðu fyrst í forgang um jarðgöng  á Íslandi meira að segja var gert ráð fyrir að framkvæmdir við þau hæfust 1998 ( samkvæmt skýrslunni Jarðgöng á Austurlandi frá 1993).

Við hjá SAMGÖNG  samtökum  áhugafólks um jarðgöng á Mið – Austurlandi  lítum svo á að Fáskrúðsfjarðargöngin séu einungis fyrsti áfanginn í því að tengja þéttbýlisstaði á Mið – Austurlandi í eitt atvinnu og þjónustusvæði.

Á sama tíma og þingmenn dæsa yfir þessari dýru framkvæmd sem  Austfjarðargöngin eru, þá er samþykkt að gera jarðgöng annarstaðar á landinu sem eru nánast jafn dýr. 
 Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Vegagerðinni er talið að kostnaður við Siglufjarðargöngin verði á áttunda milljarð, áætlaður kostnaður við Fáskrúðsfjarðargöngin er á fimmta milljarð  og  til samanburðar var áætlað að kostnaður við  gömlu T- göngin  miðað við tvíbreið göng væri tíu  til  ellefu milljarðar.

Ég skil vel óánægju og ótta Siglfirðinga yfir stöðu mála núna gagnvart göngunum, í svona stórum málum er erfitt fyrir stjórnmálmenn að verða vitrir eftir á.Hins vegar skil ég ekki hvers vegna menn geta ekki litið á jarðgangagerð eins og hverja aðra nútíma vegagerð og unnið að jarðgöngum í fleiri en einum landshluta í einu.
Ég segi nú bara eins og einn félagi minn sagði;  þeir seldu frá okkur kvótann, þeir geta borgað okkur hann til baka í jarðgöngum, hvor tveggja er jafn mikið byggðarmál.

SAMGÖNG,   samtök áhugafólks um jarðgöng á Mið – Austurlandi verða tveggja ára í júní á næsta ári.   Ég sannfærist alltaf betur og betur um það að þessi samtök hefðu þurft að vera til fyrir a.m.k. 5 árum síðan. 

Stuðningur við samtökin eykst stöðugt. Við sem erum í stjórn samtakanna notum hvert tækifæri sem gefst til að koma markmiðum okkar áleiðis til ráðamanna þjóðarinnar og þeirra sem málið varðar.

Það er of langt mál að telja upp allt  sem samtökin hafa gert á því  rúma ári sem liðið er frá stofnun þeirra í þessum pistli. Ég bendi fólki hins vegar  á að skoða skýrslu stjórnar frá síðasta aðalfundi sem er á netinu á  slóðinni,  www.sfk.is/samgong

Að mínu mati ættu allir sem hafa skoðanir á málinu að tjá sig um það og  helst opinberlega.  Munum það að  orð verða til alls fyrst.

                                                                     

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.