MA og framtíð ferðaþjónustu

BRÉF TIL BLAÐSINS

Skúli Björn Gunnarsson skrifar:   skuli_bjorn_gunnarsson.jpg

Markaðsstofa Austurlands (MA) er sjálfseignarstofnun sem varð til með skipulagsskrá 1999. Henni er ætlað að vera samstarfsvettvangur ferðaþjónustuaðila og sveitarfélaga um ferðamál og snúast verkefni hennar um upplýsingagjöf og markaðs- og þróunarstarf á svæði sem í dag nær frá Vopnafirði og til Djúpsvogshrepps.

Markaðsstofa Austurlands er elsta markaðs(skrif)stofan í landinu en á síðustu árum hefur verið reynt að byggja upp slíkan samstarfsvettvang víða annars staðar, s.s. á Norðurlandi og Suðurlandi. Enda er reynslan af starfi Markaðsstofu Austurlands mjög góð þó að hún hafi á tímabili átt í erfiðleikum.

 

 

 

Traustur grunnur

Á undanförnum þremur árum hefur rekstur Markaðsstofu Austurlands verið endurskipulagður og samhliða hefur verið sótt fram í verkefnum. Skýrir samningar hafa verið gerðir við aðildarsveitarfélög og hafa þau nú öll samþykkt að framlengja þá til ársloka 2009. Nú er einnig verið að ganga frá formlegum aðildarsamningum við tugi ferðaþjónustuaðila. Þá hefur rekstur Upplýsingamiðstöðvar Austurlands á Egilsstöðum verið skýrt afmarkaður í starfsemi MA og um miðstöðina gerður sérsamningur. Sá grunnur sem Markaðsstofa Austurlands stendur á um þessar mundir er því traustur og samstarf bæði ferðaþjónustuaðila og sveitarfélaga á þessu sviði að vaxa.

Miklir hagsmunir í húfi

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Austurlandi sem annars staðar í heiminum. Á tímum aflasamdráttar og kvótaskerðinga er ekki hvað síst horft til verkefna er tengjast ferðaþjónustu og menningu við sköpun nýrra starfa á landsbyggðinni. Í fáum atvinnugreinum er mikilvægi samstarfs eins mikið þar sem flestir aðilar eru smáir og langan tíma tekur að byggja upp fyrirtækin. Tenging ferðaþjónustu og menningarstarfs er einnig alltaf að aukast og segja margir að einungis með því að vinna markvisst með menningarviðburði allan ársins hring sé hægt að lengja ferðamannatímabilið. Hagsmunir óteljandi aðila koma þannig saman í krafti ferðaþjónustunnar.

Markaðsstofa Austurlands er einn mikilvægasti samráðs- og samstarfsvettvangurinn til að takast megi að byggja markvisst upp ferðaþjónustu og lengja ferðamannatímann á okkar svæði. Tækifærin eru óteljandi og sum stærri en önnur eins og Vatnajökulsþjóðgarður

Mætum öll 8. mars

Laugardaginn 8. mars nk. verður aðalfundur Markaðsstofu Austurlands haldinn á Vopnafirði og í tengslum við hann vinnufundur þar sem ferðaþjónustuaðilar geta viðrað hugmyndir sínar og mótað verkefni næstu missera. Eftir fundina gerum við okkur glaðan dag og veitum árlegar viðurkenningar Markaðsstofu Austurlands, þ.e. Klettinn og Frumkvöðulinn.

Sem stjórnarformaður Markaðsstofu Austurlands hvet ég ferðaþjónustuaðila, þá sem starfa að ferðaþjónustu hjá sveitarfélögunum og allt áhugafólk um ferðamál til að fjölmenna á Vopnafjörð þann 8. mars. Leiðum saman hugmyndir, þekkingu og reynslu og vinnum saman að því að móta framtíð ferðaþjónustu á Austurlandi!

 

Skúli Björn Gunnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.