Ljósið eflir lífsgæðin

Erna Magnúsdóttir skrifar um endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinssjúklinga. Tilgangur Ljóssins er veita einstaklingum sem hafa greinst með krabbamein stuðning og endurhæfingu, og efla þannig lífsgæðin með því að styrkja andlegan, félagslegan og líkamlegan þrótt. Markviss stuðningur eftir greiningu á alvarlegum sjúkdómi er mikilvægur fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið í heild. Áhersla er lögð á að skapa hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft, þar sem mannlegar áherslur eru í fyrirrúmi og fólki finnst það velkomið. Ljósið er í glæsilegu rúmgóðu húsnæði að Langholtsvegi 43, 104 Reykjavík.
Þar er kaffihúsastemning með heimilislegum brag. Aðstandendur eru alltaf velkomnir í allt starf Ljóssins.
   
Oft þurfa krabbameinsgreindir að ganga í gegnum erfiðar aðgerðir á sjúkrahúsum og langvarandi lyfjagjöf á eftir, sem rífur samband þeirra við störf, tómstundir og annað sem samfélagið hefur uppá að bjóða.  Hætt er við að þeir einangrist og eigi því erfiðara að horfast í augu við framtíðina, þegar áhyggjur af heilsu og félagslegum aðstæðum steðja að.  Starfsemin snýst um að styðja við bakið á þeim sem á því þurfa að halda og búa fólk undir að takast aftur á við lífið í breyttum aðstæðum. Margir krabbmeinsgreindir þurfa að taka sér frí frá vinnu í lengri eða skemmri tíma vegna veikindanna og þeir sem til þekkja vita hve erfitt er að vakna að morgni án þess að hafa að nokkru að hverfa.  Má segja að starfsemi Ljóssins fylli þetta tómarúm, þar sem fólkið getur leitað til Ljóssins hvern virkan dag vikunnar á sama hátt og færi það til vinnu sinnar. Það hefur sýnt sig að með þáttöku í starfi Ljóssins öðlast krabbameinsgreindir trú á lífið, sem gefur þeim kjark til þess að fara fyrr en ella út á vinnumarkað aftur í sitt fyrra starf, eða finnur sér nýjan vettvang, sem er mikilvægt fyrir einstaklingana og ekki síður þjóðfélagið.

Dagskrá Ljóssins.
Dagskrá Ljóssins er fjölbreytt og er starfsemi alla virka daga og um kvöld og helgar eftir þörfum. Reynt er að hafa dagskrána þannig allir finni eitthvað við sitt hæfi, og má þar nefna: 

•    Jóga, stafgöngu, hugleiðslu, slökun ,sjálfstyrkingarnámskeið, ungliðahóp  aðstandendanámskeið, líkamsrækt í samvinnu við Hreyfingu í Glæsibæ, menningarferðir, námskeið með Guðjóns Bergmanns „þú ert það sem þú hugsar,“ listmeðferð, ungir aðstandendur, námskeið í matargerð ( með Sólveigu Eiríksdóttur frá Himneskri Hollustu), leirlist og handverkshús sem inniheldur (prjónakaffihús, glerlist, skrartgripagerð, ullarþæfing, bútasaumur, leðursaumur, tréútskurður, trésmíðaverkstæði, körfugerð, saumar og fl.


Stór þáttur í starfinu er líka að gefa svigrúm til að fólk geti komið saman, talað og notið þess að vera í góðum uppbyggjandi félagsskap.

Kraftur og Ljósið ávallt í góðri samvinnu
Stjórn Krafts og frumkvöðlar Ljóssins hafa frá upphafi átt gott samstarf og gerðu sameiginlega viðskiptaáætlun um stofnun upplýsingar og þjónustumiðstöð annars vegar, sem nú er til húsa í húsnæði Krabbameinsfélags Íslands og stofnun Ljóssins hins vegar sem er á Langholtsveginum.  Mikill fjöldi félagsmanna Krafts  nýta sér þjónustu Ljóssins og má nefna að á hverjum föstudagsmorgni hittist stór hópur af ungu fólki í Ljósinu til að vinna að ýmsum uppbyggjandi verkefnum.

Yfirumsjón með starfinu í Ljósinu hefur Erna Magnúsdóttir Iðjuþjálfi, en auk hennar eru fleiri fagaðilar og má þar nefna, iðjuþjálfa, jógakennara, sálfræðing, listmeðferðarfræðing, hjúkrunarfræðinga, prest með sérmenntun í fjölskyldufræðum, íþróttafræðingur, sérfræðingar í hugleiðslu auk handverksfólks.

S: 561 3770
Gsm: 695 6636
www.ljosid.org

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar