Líkið er fundið!

Útgáfa austfirskra gamansagna er orðinn árviss viðburður hjá Bókaútgáfunni Hólum. Nú hefur Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku tekið saman nokkrar magnaðar sögur af Jökuldælingum í bókinni Líkið er fundið. Hér á eftir fara nokkrar sögur úr bókinni.

Landslög og eigin siðferðisviðmið

Það mun hafa verið rétt í byrjun sjötta áratugarins að fólk reis úr rekkju á Vaðbrekku á sólríkum vormorgni. Þegar komið var út á hlaðið blasti dalurinn við í allri sinni dýrð, vorið að koma, léttur sunnan andvari og fuglasöngur. Og efst í brekkunni á móti bænum blöstu við þrír stórir og stæðilegir hreindýrstarfar sem uggðu ekki að sér, önnum kafnir við að næra sig.

Fólkið á Vaðbrekku hafði þá, eins og títt var á Jökuldal, nærst að langmestu leyti á saltkjöti og súrmat allan veturinn. Tilhugsunin um nýmeti setti af stað alls kyns undarleg viðbrögð í meltingarfærunum og munnvatnsframleiðslan fór úr skorðum.

En þarna var bara einn hængur á. Það var sunnudagur. Maður drepur ekki dýr á helgidegi. Um það þurfti ekki að ræða. Þess vegna var ekki um annað að gera en að þrauka og hafa hljótt um sig og vona að tarfarnir væru þarna enn þegar deginum lyki. Hundarnir voru lokaðir inni og svo gekk heimilisfólkið til verka, hljótt og varfærnislega, og gætti þess að gera engan óþarfa hávaða.

Þetta var langur sunnudagur. Tarfarnir fikruðu sig niður brekkuna og voru lengi að kroppa á barði beint á móti bænum. Það var næstum því hægt að telja greinarnar á hornunum á þeim. Undir kvöldið færðu þeir sig niður að ánni og hurfu á bak við Háabakkann sem kallaður var, komu svo í ljós norðan við ána, rólegir og öruggir eins og ekkert lægi á. Undir kvöldið röltu þeir upp brekkurnar í norðanverðum dalnum og hurfu inn á Skænudalinn um tíuleytið. Enn tveir tímar eftir af sunnudeginum, ég man ekki hvað var í matinn en það var björt nótt og enn var haldið í vonina.

Þegar klukkan varð tólf á miðnætti tók ein skyttan á bænum riffilinn og gekk af stað inn hlíðina ofan við bæinn, hvarf svo inn á Skænudal. Við biðum fram eftir nóttinni og hann kom heim tveim tímum seinna eða svo, hafði þá gengið inn á hálsana inn af bænum en ekki séð neina hreindýrstarfa. Þeir höfðu tekið strikið inn í Háls og tilgangslaust að reyna að elta þá.

Við fengum sem sagt enga hreindýrasteik í þetta skipti.

Nú eru liðin um sjötíu ár síðan þetta gerðist en þessi sunnudagur hefur geymst ótrúlega vel í minninu. Á það skal minnt, að á þessum tíma var að sjálfsögðu harðbannað samkvæmt landslögum að skjóta hreindýr. Sú staðreynd olli þó ekki neinum sérstökum vandræðum. Aðalmálið var að slík brot kæmust ekki upp. En siðferðisviðmiðin sem Jökuldælingar settu sér sjálfir. Þau brutu þeir ekki, sama hvað þeir voru svangir.

Lík flutt í lofti

Kolbeinn Ingi Arason flugstjóri flaug lengi hjá Flugfélagi Austurlands og var staðsettur á Egilsstöðum. Sá hann þar um leiguflug hvers konar og var oft mikið að gera. Einhverju sinni fékk hann boð um að fljúga til Hornafjarðar, taka þar lík af manni sem hafði dáið vofeiflega og fara með það suður til Reykjavíkur til krufningar. Kolbeinn brá við skjótt, flug suður á Hornafjörð og lenti þar. Á flugvellinum beið bíll með líkið. Það var í svörtum líkpoka og í körfu sem var borin inn í vélina og ströppuð niður með þar til gerðum útbúnaði. Eftir það var dyrum vélarinnar lokað og Kolbeinn fór í loftið, stefndi til Reykjavíkur.

Þetta gekk allt ljómandi vel framan af. Það var ekki fyrr en vélin var komin í fulla hæð með tilheyrandi lækkuðum loftþrýstingi að undarlegir atburðir tóku að gerast. Það byrjaði með því að Kolbeinn heyrði hljóð upp úr líkpokanum. Líkið ropaði með miklum hávaða og stuttu seinna leysti það vind með ekki minni látum. Síðan heyrði Kolbeinn að það var hreyfing í pokanum. Líkið var farið að aka sér til, það var á hreyfingu – hann heyrði skrjáfið en það var orðið skuggsýnt og hann gat illa séð hvað var að gerast. Hann sat ólaður niður í flugmannssætið og mátti sig ekki hræra þaðan.

Aðspurður hvernig honum hafi liðið þegar þetta var að gerast segir Kolbeinn: „Þetta var ekki þægilegt, Ég hafði aldrei áður flutt lík og ég hafði einfaldlega ekki hugmynd um hvað var að gerast. Ég ætla ekkert að rifja það upp sem fór í gegnum hugann. Það er langt um liðið og farið að fyrnast yfir mestu geðsveiflurnar. En til Reykjavíkur komst ég og lenti heilu og höldnu og lögreglubíllinn kom og sótti líkið. Næst þegar ég flutti lík til krufningar fékk ég föður minn, sem þá var orðinn eftirlaunamaður, til að sitja í vélinni með mér. Það er strax skárra, þegar líkið fer á hreyfingu, að hafa líka einhvern annan félagsskap.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.