Skip to main content

Líflegir fundir á Austurlandi

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.30. júlí 2025

Fundir okkar Katrínar Sifjar Árnadóttur varaþingmanns og Ásthildar Lóu Þórsdóttur 1. þingmanns Suðurkjördæmis í Flokki fólksins um strandveiðar og fleira hafa verið vel sóttir m.a. á Djúpavogi. Óhætt er að segja að það hafi skapast líflegar umræður um þinglokin og sjávarútvegsmál.


Á fundunum hafa komið fram mikil vonbrigði og almenn vantrú á ráðgjöf Hafró. Einnig er augljóst öllum greinilegur tvískinnungur þegar stofnunin blessaði að gefnar væru út veiðiheimildir í djúpkarfa þrátt fyrir 0 ráðgjöf, á meðan stofnunin lagðist gegn sveigjanleika fyrir strandveiðibáta.

Það liggur einnig fyrir að ráðgjöf í þorski hefur farið gríðarlega hratt niður, þrátt fyrir að allar forsendur sem ráðgjöfin byggir á, hafi verið fyrir hendi, meðal annars stór hrygningarstofn og farið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni. Sumir vilja kenna loðnuveiðum um, aðrir hvalnum en það getur verið snúið þar sem loðnuveiði hefur dregist saman og það tekur hvalinn drjúgan tíma að verða kynþroska. Sama má segja um hitafar í sjónum.

Það hefur komið ýmsum á óvart það stöðuga endurmat sem fram fer á þorskstofninum og hve miklu skeikar, eins og sjá má í töflu hér að neðan. Það er til dæmis áhugavert að stofn sem mældur var árið 2017 er endurmetinn örfáum árum seinna 240 þúsund tonnum minni en hann var mældur! Ef farið er yfir endurmat á umræddum veiðistofni 2017 á milli ára, þá er ljóst að það er enn í gangi fram á þennan dag þó svo megnið af stofninum sé löngu dauður. Það dregur eðlilega úr endurmatinu á milli ára eftir því sem frá líður en engu að síður þá er endurmatið á milli ára að meðaltali um tugi þúsund tonna.

Það er nánast galið í ljósi allrar þeirra óvissu sem greinilega er í stofnmatinu, að Hafró tæki ekki einmitt jákvætt í að búa til frekari sveigjanleika fyrir vistvænar strandveiðar. Stöðvun strandveiða kom einna verst niður á Norðaustursvæðinu og svíður mörgum sjómanninum á Austurlandi framganga stjórnarandstöðu þingmanna í kjördæminu, sem gengu allir sem einn hart fram í því að koma í veg fyrir samþykkt strandveiðifrumvarps ríkisstjórnarinnar.

Hvað sem því líður þá kallar núverandi staða þ.e. ráðgjöf upp á liðlega 200 þúsund tonna þorskafla upp á endurskoðun á veiðiráðgjöfinni og ekki síst á þeim forsendum að gefin voru þau fyrirheit þegar núverandi aflaregla var tekin upp að það fengist 350 þúsund tonna ársafli af þorski frá árinu 2012. Þorskaflinn átti sömuleiðis aldrei að fara niður fyrir rúm 300 þúsund tonn árlega, en reynslan er sú að aflinn hefur aldrei náð því markmiði frá því að reglan var tekin upp.

Höfundur er formaður atvinnuvegnefndar Alþingis

hafro tafla sigurjon thordar juli25