Leiðari Austurgluggans 27. tbl. 2008 - 10. júlí

Er dauði að vera dáti? „Hvað er siðlausara en stríð?“
~Marquis de Sade


Í seinustu viku var þess minnst að 48 ár eru liðin síðan breskt herlið gekk á land í Reyðarfirði. Haldið var upp á hernámsdaginn, farið í göngu í hermannalitum, skotið púðurskotum og komið við í Stríðsminjasafninu. Í Austurglugganum í dag er fjallað um hátíðarhöldin og rætt við gamla Reyðfirðinga sem muna eftir því þegar bresku dátarnir  stigu á land.

Sambúðin við hernámsliðið var almennt góð. Einu fórnarlömb stríðsins í Fjarðabyggð voru dátar sem ekki hlustuðu á ráðleggingar heimamanna og lögðu á Eskifjarðarheiði þrátt fyrir vonda veðurspá. Íslenski veturinn lagði þá að velli.

Íslendingar hafa aldrei kynnst alvöru mannskæðu stríði. Hápunktarnir í okkar stríðssögu eru bændabardagar á miðöldum, til dæmis Flóabardagi og Örlygsstaðabardagi, og síðan Þorskastríðin.

Fyrir okkur er stríð popp, kók og Rambó.

Áætlað er að 72 milljónir manna hafi dáið í seinni heimsstyrjöldinni, 25 milljónir hermanna, 47 milljónir óbreyttra borgara.

Meira en milljón manna er látin í stríðsátökum í Írak undanfarin fimm ár. Áætlað er að 200-400 þúsund manns hafi verið drepin í átökum í Darfurhéraði í Súdan og 2,5 milljónir manna flúið.

Ótaldir eru þeir sem eru andlega og/eða líkamlega vanheilir eftir stríðsátök. Fjölskyldum sem hefur verið sundrað.

Þessar tölur ættu að duga til að minna okkur á að stríð eru ekki falleg. Stríðsátök eru uppfull af viðbjóðslegu ofbeldi frá öllum hliðum. Í stríði tapa allir.

Þessara hliða verðum við líka að minnast.

Íslendingar geta verið þakklátir fyrir að hafa ekki upplifað hryllinginn nema úr fjarlægð. Þess vegna ber okkur að hjálpa. Við eigum að nýta traust okkar og orðspor á alþjóðavettvangi til að boða frið, til að vinna gegn átökum, til að taka á móti flóttamönnum. Við eigum að þora að taka afstöðu og ábyrgð.

Því þegar öllu er á botninn hvolft – þekkjum við einhvern sem unnið hefur stríð?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.