Leiðari Austurgluggans 26. tbl. 2008 - 3. júlí

Daðurskýrslan

 

Hún þakkaði fyrir með stuttum kossi. Ekki núna, kannski næst. Við höfðum setið allt kvöldið og daðrað. En við fórum heim hvort í sínu lagi.

 

Skýrsla norðausturnefndar forsætisráðherra er elduð eftir svipaðri uppskrift. Mönnum var gefið undir fótinn í fimm nafngreindum sveitarfélögum á Austurlandi og í Þingeyjasýslum og að tekið yrði undir frumkvæði heimamanna.

 

Heimamenn lögðu í mikla vinnu við að útbúa umsóknir sínar. Þeir höfðu margir stutt við stóriðjuframkvæmdir en lítinn ávöxt hlotið af þeim. Þegar röðin kom að þeim var dyrunum lokað og sagt að veislan væri búin.

 

Það var búið að taka af borðunum áður en þeir settust að þeim.

 

Og engar leifar.

 

Ráðherrar klipu í austfirska sveitarstjórnarassa í vetur með yfirlýsingum í skálarræðu. Töluðu um frumkvæði heimamanna, um hversu miklu hugmyndir þeirra gætu breytt.

 

Af milljónunum tvö hundruð sem nefndin úthlutaði fóru 58 norður, 74 í verkefni í fimm sveitarfélögum á Austurlandi sem heimamenn áttu frumkvæðið að. Sextíu og sjö milljónir fóru í verkefni ríkisins sem verður stýrt af Egilsstöðum.

 

Til dæmis að eyða pening í að stofna nýsköpunarmiðstöð í eina landsfjórðungnum sem það var eftir.

 

Formaður nefndarinnar beit höfuðið af skömminni þegar hann fór í flug eftir klukkutíma af fundinum. Hann sagði ekki af hverju. Hversu góðar ástæður sem hann kann að hafa haft var framkoma hans óásættanleg. Þegar þú ert ráðinn til verkefnis fylgirðu því alla leið. Sérstaklega sem formaður. Kannski endurspeglaði brottför hans raunverulega hversu mikinn áhuga menn höfðu á verkefninu?

 

Nefndin daðraði við sveitarfélögin í hálft ár en hún fór ekki með þeim heim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar