Leiðari Austurgluggans 23. tbl. 13. júní 2008

Í miðbænum
Framtíðarstaðsetning fyrir tjaldstæði á Egilsstöðum var til umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á dögunum. Bæjarstjórn sveitarfélagsins telur sig hafa framtíðarskipulag fyrir miðbæinn og skýra heildarmynd. Jafnframt virðist  vera nánast samróma áliti atvinnumálanefndar sveitarfélagsins og bæjarstjórnar að tjaldstæði þurfi að vera í hálsmáli nýja miðbæjarins á Egilsstöðum.

 

Ef við förum yfir stöðu miðbæjarins eins og hún er þá má sjá að nærri nýja miðbænum er líka verkstæðis- og léttiðnaðarhúsnæði þ.e. rétt við kirkjugarðinn, flutningamiðstöð Landflutninga með stóru athafnaplani og verslunarhúsnæði Húsasmiðjunnar með stórum timbur- og útilager. Þegar enn nær dregur miðbænum ber að líta bílasölu og bílaverkstæði. Mjög nærri miðbæjarkjarna Egilsstaða er því hægt að segja að sé staðsett léttiðnaðarstarfsemi.
Til að skipulagið geti orðið að veruleika hefur þegar verið ráðstafað hundruðum milljóna króna til landa- og lóðakaupa. Hundruðir milljóna munu í framhaldinu streyma úr framkvæmdasjóði bæjarins til nauðsynlegra framkvæmda, og eignarnáms. Það er því synd að áður en framkvæmdir við nýjan miðbæ á Egilsstöðum hófust, hafi verið samþykkt starfsemi þar sem á ekkert skylt við miðbæjarþjónustu. Hvergi annars staðar á Íslandi hefur þótt nauðsynlegt að planta gríðarstórri byggingaverslun nánast inn í miðjan miðbæ og íbúðahverfi. Á Akureyri hefur byggingavöruverslunum verið beint nánast út fyrir bæinn, á sama tíma var ákveðið hafa eina slíka í framtíðarmiðbæ Egilsstaða. Vinnubrögð á við þessi geta ekki skapað tiltrú verslunarfyrirtækja á framtíðarskipulag sveitarfélagsins. Húsnæði það sem reist hefur verið og starfsemin sem því fylgir við miðbæ Egilsstaða er ekki í samræmi við upphaflegar fyrirætlanir bæjarins.

Tjaldstæði gæti vissulega lífgað upp á miðbæ Egilsstaða í framtíðinni. Þar er horft í þau tækifæri að selja tjaldstæðisgestum ís og bensín í söluskálanum og skyrdósir í Samkaupum og Bónus. Tækifæri um framtíðaruppbyggingu tjaldstæða í Selskógi/Egilsstaðaskógi hafa hvergi verið rætt opinberlega sem möguleiki. Þar er nægt pláss, og hugsanlega hægt að byggja upp í samhliða afþreyingu fyrir ferðamenn. Bensínsala og skyrsala draga ekki að ferðamenn til lengdar, við verðum að byggja upp aðdráttarafl fyrir ferðamenn, ef við viljum þá vera með í ferðamannaiðnaðinum og eiga hlutdeild í honum. Önnur staðsetning tjaldstæða en við miðbæ Egilsstaða gætu leitt í sér stórkostleg tækifæri.

Hvað gæti heitur vatnsgarður við tjaldstæði í skóginum dregið að sér marga ferðamenn á ári?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.