Leiðari Austurgluggans 22. tbl. 6. júní 2008

Nú er moginn hættur að reka Austurlandsskrifstofu sína og er búinn að reka blaðamann sinn á Austurlandi í nafni hagræðingar.

Mogginn mun einnig draga saman seglin annars staðar á landsbyggðinni. Því miður hefur rekstur Moggans ekki gengið vel undanfarin ár. Í harðri samkeppni við frídreifingarblaðið Fréttablaðið hefur Mogginn farið hallloka, og nú seinast í samkeppni við 24 stundir sem hefur sömu eignaraðild og Mogginn.
Mogginn er djúpt dreiptur í þjóðarsál landsmanna, og mörgum okkar finnst eins og við eigum sitthvað í honum. Leiðarahöfundur bar til að mynda út Moggann í mörg herrans ár, og hafði upp úr erfiðinu sterkar fætur, vasapeninga og áhuga á fjölmiðlum. Styrkur Moggans var á árum áður óumdeilanlegur. Hann var okkar miðill, og við lásum um það sem skipti máli í Mogganum okkar.
Landslagið er hins vegar breytt. Framboð fjölmiðla er annað og meira en áður. Fréttatímar eru í útvarpi oft á dag, netfréttir á netmiðlunum eru sagðar allan daginn, sjónvarpsfréttir eru sagðar á tveimur sjónvarpsstöðvum og dagblaðamarkaðurinn er harðari en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er ekki hægt að segja að með því að leggja niður skrifstofu sína á Austurlandi sé fyrirtækið að gera aðför að fjórðungnum, hins vegar er verið að skerða mjög góða þjónustu niður. Við vitum ekki ennþá hvernig Mogginn mun reyna að veita þessa þjónustu eða hvort það verður reynt.
Af því að Mogginn bar áður höfuð og herðar yfir aðra miðla, þá varð Mogginn að einhverskonar stofnun. Stofnun sem varð svifasein og stóðst ekki snúning þegar alvöru samkeppni herjaði að. Þetta er kallað að sofa á verðinum. Það er ekki óeðlilegt að stjórnendur og eigendur Moggans skuli sveifla sveðju niðurskurðar á þessum tímapunkti sem nú er. Þegar að auglýsingatekjur dragast saman í kjölfar bágs efnhagsástands hérlendis, þegar að áskrifendur segja upp blaðinu af sömu örsökum, þegar að samkeppnisaðilarnir taka til sín stærri og stærri bita af kökunni – já þá er eðlilegt að menn spyrni við fótum. Annað væri óeðlilegt.
Jú það er sárt fyrir okkur Austfirðinga að missa fréttaritarann okkar. Þar áttum við svo sannarlega góða manneskju að störfum á mogganum. Vonandi mun Morgunblaðið ekki hætta að segja fréttir af landsbyggðinni þótt nýr ritstjóri hafi það hlutverk að skera niður kostnað til að bjarga eigum eigenda blaðsins. Nýr ritstjóri Moggans leysir af Styrmir Gunnarsson – sem fékk að hætta með reisn, án þess að þurfa að segja upp mörgu af samstarfsfólki sínu til margra ára og áratuga. Það kemur í hlut nýs ritstjóra.

Svo er náttúrulega alltaf til í stöðunni að segja upp áskrift að mogganum, gerast áskrifandi að héraðsfréttablaðinu og raunverulega styðja við fréttaflutning úr heimabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.