Leiðari Austurgluggans 20. tbl. 22. maí 2008

Hið íslenska kerfi
Ísland hefur breyst mikið á nokkrum áratugum. Sérfræðiþekking hefur aukist með meiri og betri menntun og útskrifaður hefur verið mikill fjöldi vel menntaðs fólks. Stór hluti menntafólksins eru hvers kyns sérfræðingar á sviði verkfræði, raunvísinda, læknavísinda og lögfræði.

 

Í kringum þekkinguna hefur myndast svokallað eftirlitssamfélag. Stofnanir verða til sem hafa eftirlit með hollustu matar og drykkjar, heilsu manna og dýra, öryggi bifreiða, öryggi tækja, öryggi vinnustaða, gæðum mannvirkja, staðsetningu mannvirkja og langt þar fram eftir götunum. Eftirlitsiðnaður er í eðli sínu góður, ætlaður til að bæta samfélagið – og það er hinn upphaflegi tilgangur. Eftirlitsiðnaðurinn er atvinnuskapandi og skortur er á vel menntuðu, hæfu starfsfólki með sérfræðiþekkingu inn í greinina.

Skriffinnska, gjaldtaka og afgreiðsludráttur eru svo hinar svörtu hliðar eftirlitssamfélagsins, og úrræðaleysi stofnana þegar vanefndir verða. Við verðum ávallt að hafa í huga hvers vegna stofnanir verða til, og til hvers þær eru í upphafi hugsaðar. Hið íslenska kerfi hefur löngum einkennst af sveigjanleika og hagsmunum einstaklingana. Því miður er íslensk skriffinnska að verða veigameiri með hverju árinu, og kostar íslenskt samfélag meira. Eftirlitsiðnaðurinn er að stækka, sveigjanleikinn hverfur og hagsmunir einstaklinga sem sækja nauðugir þjónustuna virðast skipta minna máli með hverju árinu sem líður. Upphaflegi tilgangurinn gleymist smá saman og til verður svokallað kerfi, sem enginn veit hvernig varð til. Hætta er á að einstaklingar og fyrirtæki þurfi að laga sig að kerfinu, en ekki kerfið að þeim.

Hvers mörg hundruð milljónir hefðu getað sparast við eftirlit á Kárahnjúkum og við byggingu álvers í Reyðarfirði? Hversu mörg stöðluð bréf eru send út á ári, og gjaldtekið fyrir gerð þeirra eins og þau væru skrifuð i fyrsta sinn? Þetta er spurning sem við ættum að velta fyrir okkur, og færa hana svo í samhengi við samfélagið okkar. Öruggt er að það er hægt að spara töluverða fjármuni á ári hverju við einföldun eftirlits og sameiningar eftirlitsstofnana. Eftirlitsiðnaðurinn má ekki verða svo mikið bákn, að hann verði sjálfstætt skrímsli í þjóðfélaginu sem dregur til sín fjármagn að vild. Eins konar óviðráðanlegt bákn skapað af stjórnsýslunni.

Eftirlitsiðnaðurinn er afæta á framlegð fyrirtækja og einstaklinga, honum verður að halda í skefjum þannig að hann vaxi ekki um of og verð dragbítur á framleiðslu í landinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar