Leiðari Austurgluggans 19. tbl. 15. maí 2008

Að traðka á réttindum
Ríkisfyrirtæki í almannaeigu hafa byggt stóra virkjun og raflínur á Austurlandi. Þetta eru stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar. Samfara framkvæmdunum hefur jarðrask verið umtalsvert og tilfæringar á vatnsfarvegum gífurlegar. Sjónmengun og jarðrask hefur orðið á þeim jörðum sem raflínur ríkisfyrirtækjanna liggja í gegnum.

 

Þótt að fáir Austfirðingar vilji í dag ímynda sér Austurland án stóriðju og virkjunar, þá liggja að baki verðmætasköpun ríkisfyrirtækjanna jarðir og réttindi bænda í Jökuldal, Fljótsdal, Héraði, Skriðdal og Reyðarfirði. Verðmætasköpun sem um munar og grundvallar um fimmtung af útflutningstekjum þjóðarinnar. Fimmti hluti útflutningstekna þjóðarinnar verða til í álverinu í Reyðarfirði.

Ennþá hefur Landsvirkjun ekki samið við eigendur vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ennþá hefur Landsnet ekki samið við alla eigendur jarða sem þeir hafa reist möstur sín á og skorið í sundur og skert búskaparskilyrði. Samtakamátturinn hefur reyndar komið eigendum vatnsréttinda til bjargar að sinni og þeir eygja enn veika von á að fá greiddar sanngjarnar bætur.
Af frásögnum jarðeigenda að dæma hafa stjórnendur og lögfræðingar ríkisfyrirtækjanna komið fram af hroka og ósanngirni. Hafa hótað eigendum jarða og lögbundinna réttinda í orði og á borði. Þannig haga sér stjórnendur ríkisfyrirtækjanna tveggja og láta sem þeir séu í málsvari fyrir svo mikilvægan málstað að réttindi þegnana skuli að engu höfð. Þetta er á mannamáli kallað að vilja vera Ríki í Ríkinu, og framkoma sem er ríkisfyrirtækjunum og fjármálaráðherra til skammar.

Það væri réttast að ríkisfyrirtækin gerðu upp skaðabætur vegna eyðileggingar á jörðum á sanngjarnan hátt. Jafn mikilvægt er að eigendur vatnsréttinda einhvers mesta vatnsfalls landsins fái greitt fyrir eignir sínar sem hafa verið teknar úr höndum þeirra og renna nú um allt annan dal til sjávar.
Ríkisfyrirtækin, sem heyra undir fjármálaráðherra, vilja svívirða bændur. Stjórnendur ríkisfyrirtækjanna völsa um eins og þeir eigi þau sjálfir og traðka á tám þeirra sem verða á vegi þeirra til velsældar – já og velsældar hverra? Gróðinn af auðlindum þjóðarinnar er svo nýttur til fjármögnunar ævintýra stjórnendanna í orkufjárfestingum í arabalöndum, afríkuríkjum og nú síðast Tyrklandi.

Það væri rétt að fjármálaráðherra skoðaði ásamt samflokksmönnum sínum hvort þessir kommúnísku tilburðir til að níða réttindi borgara og hvort fjárfestingar ríkisfyrirtækja erlendis samrýmist yfir höfuð stefnu Sjálfstæðisflokksins sem stór hluti kjósenda virðist hafa treyst til góðra verka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar