Leiðari Austurgluggans 18. tbl. 8. maí 2008

Aðalsteinn Jónsson, fyrrverandi forstjóri og útgerðarmaður á Eskifirði, lést á fjórðungssjúkrahúsi Neskaupstaðar 30. apríl síðastliðinn. Aðalsteinn, sem gjarnan var kallaður Alli ríki fæddist 30. janúar 1922 og var því áttatíu og sex ára að aldri. Hann bjó alla tíð á Eskifirði og var forstjóri Eskju, áður Hraðfrystihúss Eskifjarðar frá árinu 1960. Aðalsteinn kom þá ásamt bróður sínum Kristni með nýtt hlutafé inní félagið og tók Aðalsteinn við starfi forstjóra og gegndi því starfi til 2001 eða í 41 ár. Forstjóraferill Aðalsteins einkenndist af áræðni og eldhug frumkvöðuls sem byggði upp næstum gjaldþrota fyrirtæki í eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Þessi ár voru mestu uppgangsár í sögu Eskifjarðar og leiddi Eskja hf. undir stjórn Aðalsteins þá uppbyggingu enda var félagið langstærsti atvinnurekandi bæjarins á þeim tíma.
Aðalsteinn var um áratuga skeið einn af forystumönnum í íslenskum sjávarútvegi. Hann gengdi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var sæmdur riddara- og stórriddarakrossi íslensku Fálkaorðunnar og var heiðursborgari á Eskifirði. Aðalsteinn var sérlegur áhugamaður um bridge, og þótti snjall spilari og náðum góðum árangri í bridgekeppnum. Hann spilaði spilið meðan heilsa hans leyfði.
Alli Ríki skilur eftir sig á Eskifirði arfleifð dirfsku og árangurs. Afrek og uppbygging í forstjóratíð Aðalsteins Jónssonar er einhver mikilvægasti hlekkurinn í sögu Eskifjarðar. Skipin Guðrún Þorkelsdóttir, nefnt eftir móður hans, Jón Kjartansson, nefnt eftir föður hans og Aðalsteinn Jónsson, nefnt eftir honum sjálfum munu verða tákn um hugsjónamennsku og áræðni Alla Ríka. Einnig stendur eftir Aðalstein fullkomin fiskimjölverksmiðja sem er undirstaða Eskju, ásamt skipum sínum.
Sveitarfélaginu Fjarðabyggð væri sómi af því reisa af honum myndarlega styttu á góðum stað á Eskifirði. Það myndi bera vott um virðingu fyrir góðum verkum, og tákn um afrek framtíðarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.