Leiðari Austurgluggans 16. tbl. 24. apríl 2008

„Hver á að borga?“ spurði fyrirliði íþróttaliðsins sem var á leið austur á land til að keppa og horfðist í augu við
framkvæmdastjóra sérsambandsins.  „Þarf leikurinn að vera á þessum tíma. Getum við ekki flýtt honum svo við náum fluginu?“ Sá stóð fastur á sínu, leiktíminn hafði löngu verið ákveðinn og kynntur.
Honum yrði ekki breytt. Og svo var það gistingin. Hver einasta rekkja á  Austurlandi virtist upptekin. „Það er miklu auðveldara að finna gistingu í Reykjavík.“
En viðhorf fyrirliðans endurspeglar því miður viðhorf margra innan íþróttahreyfingarinnar. Forsvarsmenn austfirskra íþróttaliða eru ekki ókunnugir hamaganginum við að koma gestunum, dómurum sem leikmönnum í flug sem fyrst, svo menn geti gist heima hjá sér og mætt í vinnuna morguninn eftir. Það gengur sjaldan svo vel með leiktíma austfirsku liðanna. Þau reyna líka yfirleitt að fara helgarferðir og leika
tvo leiki í einu. Slíkt kallar á afar slitrótt keppnistímabil. Og hver borgar? Austfirsku liðin þurfa alla jafna fleiri ferðir suður til Reykjavíkur en borgarliðin út á land. Og þau þurfa gistingu. Lengi skriðu þau í skjól Ungmennafélags Íslands en þar til nýjar höfuðstöðvar sambandsins verða tilbúnar er sá möguleiki ekki fyrir hendi.
Liðin af stór-Reykjavíkursvæðinu byrja með forskot. Í fyrsta lagi laða þau til sín bestu leikmennina af landsbyggðinni í gegnum atvinnu og skóla. Í öðru lagi hafa þau aðgang að miklu fleiri og mun öflugari styrktaraðilum. Peningar landsbyggðarliðanna fara fyrst í að borga Flugfélagi Íslands.
Síðan er hægt að spá í aðkeypta leikmenn, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir. Sé eitthvað eftir í buddunni. Ferðasjóðir íþróttafélaganna er fyrsta skrefið í að leiðrétta aðstöðumuninn. En hann lagar bara hluta af hallanum. Eftir stendur gjaldþrota hugarfar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.