Leiðari Austurgluggans 15. tbl. 17. apríl 2008

Kynjajafnrétti á Austurlandi
Slæg útkoma austfirskra sveitarfélaga á jafnréttisvoginni, að frátöldum Hornafirði, hlýtur að vera ákveðið áhyggjuefni fyrir sveitarfélög hér um slóðir.
Markmiðið með jafnréttisvoginni er að mæla jafnrétti í sveitarfélögunum á vísindalegan hátt. Ýmsar breytur sem taldar eru vega í kynjajafnrétti eru þar látnar mæla jafnrétti innan sveitarfélaga í reynd. Ein mikilvæg breyta í rannsókninni er konur í lykilstöðum.
Konum í lykilstöðum þarf að fjölga á Austurlandi og ætti að vera samfélaginu okkar kappsmál, svo við megum vera samkeppnishæf við önnur sveitarfélög á landinu. Partur af þvi að vera samkeppnishæf hlýtur að vera sá að konur víðsvegar af landinu líti á það sem raunhæfan kost að gerast íbúi í sveitarfélögum fjórðungsins.
Það er hins vegar ekki nægjanlegt að kasta því fram að konum í lykilstöðum þurfi að fjölga. Séum við sammála þeirri röksemd ættum við að spyrja okkur að því hvernig konum í lykilstöðum skuli fjölgað. Svarið við þeirri spurningu ætti að hjálpa okkur til að ná markmiðinu.
Það er skoðun leiðarahöfundar að konum verði ekki fjölgað í áhrifastöðum nema að litlu leyti með því að senda út fréttatilkynningar þar sem fyrirtæki og stofnanir eru hvött til þess að fjölga konum í stjórnum. Stefnan þarf að vera heildstæð og að henni þarf að vinna ötullega á lengri tíma.
Fólk tekur ákvarðanir snemma á lífsleiðinni hvert hugur þeirra stefnir, og áhugasvið þess kemur snemma í ljós. Ef við horfum til framtíðar, þá þarf að hvetja ungar konur til þáttöku í félagsstarfi. Hvetja þarf ungar konur til þáttöku í nemendaráðum, stjórnum íþróttafélaga, áhugasamtökum, grasrótarhreyfingum og stjórnmálaflokkum. Með markvissum hætti þarf að hvetja ungar konur til dáða til þáttöku í samfélaginu frá ungum aldri. Þannig munu þær öðlast reynslu, áhuga, hæfni og þekkingu til að takast síðar á við stórar áskoranir í lífi sínu.
Lykillinn að jafnrétti er hjá ungu fólki í grunnskólum og framhaldsskólum fjórðungsins. Þar eru konur framtíðarinnar og að þeim þurfum við að hlúa fyrst og fremst. Þannig gætum við með markvissu starfi stuðlað að kynjajafnrétti til framtíðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.