Leiðari Austurgluggans 14. tbl. 10. apríl 2008

Leiðari
Það er erfið þynnka sem Austfirðingar þurfa að hrista af sér á næstu árum. Eftir nokkur ár framkvæmda og fjármagnstreymis, stöndum við frammi fyrir því að í fjórðungnum er íbúafjöldi nánast sá sami eftir að framkvæmdum lýkur og árið 1998. Íbúafjöldi hefur aðeins vaxið á Mið-Austurlandi, meðan umtalsverð fækkun íbúa hefur átt sér stað í tildæmis Neskaupstað, Stöðvarfirði, Breiðdalshreppi, Djúpavogshreppi, Borgarfirði, Seyðisfirði, Vopnafirði, Langanesi og víðar. Þetta er dágóð upptalning og hana verður að taka alvarlega.Það allra versta sem hægt er að gera í þynnkunni er að fá sér afréttara. Afréttari á borð við netþjónabú hugnast tildæmis sveitarstjórnarmönnum á Fljótsdalshéraði vel. Reynsla vel reyndra manna af drykkjuskap segir hins vegar að afréttari frestar aðeins kvölinni, sá dagur muni alltaf koma að horfast þurfi í augu við vandann og leita lausna til framtíðar.

Hér með er ekki sagt að netþjónabú sé slæmur kostur. Hins vegar er hér sagt að netþjónabú sé ekki eitt af mikilvægari framþróunarmálum sveitarfélaganna eins og staðan er í dag. Menntun og samgöngur, er eldgömul tugga sem stjórnmálamenn og vel upplýstir þjóðfélagsþegnar halda á lofti oftast nær. Þetta er tugga sem virkar vel í lýðinn, enda alveg kórrétt.

Það hins vegar sem hefði átti að gera fyrir um 20 árum síðan og allar götur síðan þá er undirbúa heildstæða samgönguáætlun fyrir fjórðunginn í samvinnu við ráðherra byggðamála, samgönguráðherra, samgöngunefnd alþingis og sveitastjórnir á Austurlandi. Heildstæð samgönguáætlun til 30 ára fyrir fjórðunginn í heild gæti orðið til þess að skapa samstöðu og sátt milli íbúa og stjórnvalda um nauðsynlegar samgönguframkvæmdir.

Á Mið-Austurlandi vinna sveitarfélög mjög gott starf þessi misserin í þá átt að geta boðið háskólamenntun í heimabyggð. Þar fer fram öflugt og markvisst starf sem miðar að því að hér verði hægt að sækja menntun eins og hún gerist best. Að þessum málum er unnið með ákveðna framtíðarsýn í huga. Þó að það gangi ekki alltaf eins hratt og flestir hefði viljað, þá þokast í þá áttina að íbúar Austurlands geti eignast þekkingu og menntun á ákveðnum sviðum í heimabyggð. Þannig þurfa samgöngumál líka að vinnast.

Áform öll um samgöngur liggja hins vegar á hakanum. Stefna samgönguráðherra og Vegagerðarinnar er undanfarin ár mæld áfram í mánuðum, misserum og einu eða tveimur árum, aldrei skal litið til lengri tíma. Þannig er hægt að ala á ósamstöðu heimamanna sem bítast í hvert skipti um að fá framkvæmdir Vegagerðarinnar í sína þjóðvegi. Svo er svar ráðamanna og Vegagerðarinnar: “Það vantar samstöðu á Austurlandi.”

Ef til vill þarf framkvæmdavaldið að koma fram með metnaðarfulla áætlun í samstarfi við heimamenn, þá fá þeir fram samstöðu – þar sem ekki er efast um einstakar framkvæmdir. Menntun og samgöngur eru það sem Austfirðingar eiga að heimta, öllu frekar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.