Kommasafn á Norðfirði

Elma Guðmundsdóttir skrifar:

  

Það hefur lengi verið eitt af áhugamálum mínum að koma upp safni í Neskaupstað, Kommasafni, sem innihéldi upplýsingar um hálfrar aldar valdatíð vinstri manna í Neskaupstað eða þaðan af meira. Ég vil nefna það Kommasafn.

agl_bls_9_290109.jpg

Óvíða eru til fleiri heimildir en hér í bæ um tilurð Kommúnistaflokksins, Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins. Þá á ég sérstaklega við ritaðar heimildir, blaðagreinar, fundagerðarbækur og ljósmyndir. Vikublöð bæði prentuð og fjölfölduð og enn má margt telja.

Ég veit að það hafa fleiri en ég haft þessa hugmynd í kollinum um langt skeið en ekkert hefur af orðið, enda verður hugmyndin að komast út frá þeim stað sem hún fæðist í. Það er út frá hugsuninni. Og nú ætla ég að hefjast handa um söfnun heimilda og leita til ykkar sem eigið í fórum ykkar blöð og myndir og annað það sem má rekja til Neskaupstaðar.

Safninu hefur ekki verið fundinn staður en málið reifað við áhugamann um söfn og var ég hvött til að hefja vinnuna á greinaskrifum og það geri ég hér með.

 Af nógu að taka 

Auðvitað renni ég blint í sjóinn um umfang slíks safns en mér sýnist í fljótu bragði að safnið byggðist upp á blaðagreinum, ljósmyndum og smærri munum, því ekki er fyrirséð hvar það á að vera. Veggpláss og lausir veggir væru þaktir blaðagreinum og ljósmyndum, sem skipta má út, möppur lægju frammi með rituðu máli og myndum. Af nógu er að taka.

Það á áreiðanlega eftir að fara fyrir brjóstið á mörgum þetta nafn Kommasafn, en hvað á barnið að heita?  Þegar átaksverkefnið Norðfirðingar í sókn var hér í framkvæmd á síðasta áratug síðustu aldar var ein af hugmyndunum sem fram komu að setja vörðu við innkeyrsluna í bæinn; vegvísi sem á stóð Litla Moskva og kílómetrafjöldinn út í bæ og þar var líka annar vegvísir sem vísaði til Moskvu í Rússlandi og að þangað væru nokkur þúsund kílómetrar. Það hugnaðist ekki öllum þessi varða og á endanum voru Moskvuskiltin tekin niður. Fyrir mér er það með ólíkindum að fólk skuli hafa haft á móti þessari merkingu því í hugum fleiri en færri sem eldri eru er Litla Moskva eftirtektarvert og gott nafn. Ég er allavega stolt af því að vera frá Litlu Moskvu.

 Saga fólksins 

Þeir Norðfirðingar sem komnir eru yfir miðjan aldur muna vel hvernig vikublaðið Austurland leit fyrst út. Forsíðugreinar þess voru iðulega heilsíða um það sem gerist austur þar, í Rússlandi, því ekki skal því neitað að hugsjónir margra voru litaðar kommúnistahugsjóninni. Blaðið var ekki með mörgum myndum því það var skoðun þáverandi ritstjóra að fólk læsi ekki myndir. Þegar fram liðu stundir breyttist blaðið, það var ekki lengur eingöngu pólitískt málgagn, fréttir blaðsins urðu fleiri og meiri og blaðið lét sér ekkert á Austurlandi óviðkomandi.

Þetta safn ef af verður er ekki til minningar um kommúnistastefnuna. Þetta er saga byggðar, saga fólks sem hafði samfélagslega hugsjón og vildi staðnum sínum allt það besta.

Það að ég minnist a vikublaðið Austurland er vegna þess að þar held ég að séu einna mestu heimildirnar og aðgengilegustu.

Óneitanlega bar Austurland sterkan keim af flokksmálgagni vinstri manna. Má þar nefna Þjóðviljann sem fyrst kom út sem málgagn Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins. Kom það fyrst út árið 1936 en lauk göngu sinni árið 1992. Austurland fylgdi verkalýðsbaráttunni að málum og fjallaði blaðið oftar en ekki um þau mál. Í sjálfu sér má segja að Austurlandi hafi ekkert verið áviðkomandi sem snerti Neskaupstað og Austurland í heild. Það átti dyggan hóp áskrifenda og blaðið fór víða.

Kommasafn hefði ekki eingöngu gildi sem safn, það hefði ekki síður aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þá aðkomu má útfæra á margan hátt, það væri ekki ónýtt að fá stimpil í þar til gerðu vegabréfi sem væri merkt Litlu Moskvu.

Hugsið málið, tækifærin í ferðaþjónustu hafa sjaldan verið betri og meiri, stofnum Kommasafn á Norðfirði.

Ljósmynd: Þeir Lúðvík Jósepsson, Jóhannes Stefánsson og Bjarni Þórðarson tengdust Litlu Moskvu sterkum böndum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.