Skip to main content

Jólahugvekja 2023

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.24. desember 2023

Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, yrkir um ástandið í heiminum við jólin 2023.


Upp yfir heiðina mjakast máninn,
myrkrið í hlíðunum dvínar um stund,
uns skýjanna bólstrar byrgja það ljós.
Við bensínstöðina blaktir fáninn.
Börnin renna á skautum um grund.
Lækurinn ryðst gegnum ísbönd að ós.

Í fjarlægu landi er friðurinn rofinn.
Feður og mæður þar gráta sín börn
sem grófust í gærdagsins sprengjuárás.
Desember dimman þar blóði er ofin.
Drónar allt vakta sem hungraður örn,
þá við kaupum bækur og bragðgóða krás.

Mánasigð krossinn á kirkjunni lýsir.
Kvöldið í norðri er stillt og rótt,
en eldtungur fljúga um frelsarans slóð.
Hvar mannanna valdbeiting heiftina hýsir
og hatrið það vex í sálunum skjótt
þegar tárin drjúpa í barnanna blóð.

Á Bethlehemsvöllum með angist og ótta
andi jólanna er horfinn í reyk,
fjölskyldur flýja og leita í skjól.
Minnast þess skulum að forðum á flótta
í faðmi sér María Jesú bar smeyk
og þess vegna höldum við hátíðleg jól.